153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[20:50]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Afleiðingar heimsfaraldurs Covid, rísandi verðbólga og staðan í samfélaginu vegna stríðsins í Úkraínu hefur svo sannarlega sett fingraför sín á þann fjárauka sem við höfum hér til umfjöllunar. Ríkisstjórnin hefur mætt og mun halda áfram að mæta þeim verkefnum sem þessu öllu fylgja. Sterk efnahagsstjórn hefur gert okkur kleift að leggja rúma 74 milljarða til útgjaldaefna. Auk þess er heimild í fjárauka sem snýr að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins upp á allt að 14 milljarða eins og hér hefur komið fram fyrr í dag.

Heilbrigðiskerfið er enn að glíma við eftirmál heimsfaraldurs og þarfnast aukins stuðnings. Við vitum öll af því grettistaki sem okkar frábæru viðbragðsaðilar lyftu á tímum Covid. Þó hafa afleiðingar faraldursins enn áhrif á kerfið og við erum enn að bregðast við. Með þessum fjárauka er verið að halda áfram ríflegum stuðningi við heilbrigðiskerfið svo það nái sínum fyrri styrk á ný. Heimsfaraldurinn og eftirmál hans höfðu vissulega áhrif á alla fasa samfélagsins, ekki aðeins innan stjórnsýslunnar heldur einnig á einkaaðila. Sem dæmi um slíka aðila má nefna íþróttafélög víða um land en heimsfaraldurinn hafði neikvæð áhrif á rekstur og starfsemi þeirra. Þessi félög sinna mikilvægu lýðheilsu-, félags- og forvarnastarfi í þágu samfélagsins og í nútímasamfélagi er mikilvægi þeirra alveg kýrskýrt. Heildarrekstrartap íþróttahreyfingarinnar vegna heimsfaraldursins var metið á um 1,4 milljarða kr. sem er hreyfingunni þungt högg, en þær reglur og takmarkanir sem voru settar í miðjum faraldri gerði félögunum það ómögulegt að viðhalda eðlilegri starfsemi.

Í fjárauka þessum höfum við sýnt að við vitum um mikilvægi félaganna og ætlum okkur að styðja við bakið á þeim í þessum erfiðu aðstæðum. Íþróttahreyfingin stuðlar að bættri lýðheilsu og forvarnastarfsemi í þágu barna og unglinga og er mikilvæg stoð í félagslegri þróun þeirra. Við ætlum að tryggja stuðning við hana þannig að starf hennar megi halda áfram. Ríkisstjórnin lagði áherslu á viðbótarstuðning til íþróttahreyfingarinnar og við það barst fjöldi umsókna sem sýndi þörfina á skýran máta. Í ljósi eftirspurnarinnar er fjárhæð frumvarpsins því endurmetin til hækkunar.

Að auki vil ég nefna þann stuðning til barna á flótta sem finna má í þessum fjárauka. Við vitum öll af stríðsástandinu í Úkraínu og fáum daglega fréttir af þeim hrottalegu aðstæðum sem þar eiga sér stað. Heildarfjöldi þeirra sem hafa flúið Úkraínu nálgast hátt í sjö milljónir manna, margir hafa svo sem snúið aftur til Úkraínu en samt sem áður hafa aldrei jafnmargir verið á flótta í heiminum samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur skuldbundið sig til þess að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu og styðja sérstaklega við börn sem eru á flótta þaðan. Við Íslendingar erum heppnir að þekkja ekki stríð af persónulegri reynslu sem þjóð en við ætlum þrátt fyrir að allt að grípa þá sem þurfa á aðstoð okkar að halda.

Móttaka flóttamanna tekur til allra fasa grunnþjónustu samfélagsins, allt frá þörf fyrir þak yfir höfuðið til þarfar fyrir íslenskumenntun. Ef við ætlum að taka á móti flóttamönnum þá verðum við að gera það rétt og sjá til þess að þeir aðlagist íslensku samfélagi. Íslenskukennsla spilar almennt stórt hlutverk í þeirri nálgun. Í fjárauka þessum er gert ráð fyrir að kostnaði verði skipt tímabundið í stuðning við sveitarfélög vegna mennta-, íþrótta- og tómstundaúrræða, almennan stuðning við sveitarfélög, námskeið fyrir kennara, stjórnendur og annað starfsfólk og móttökunámskeið fyrir börn sem hingað koma á flótta. Viðbragðsteymi mennta- og barnamálaráðherra, vegna móttöku barna og ungmenna frá Úkraínu, tók til starfa í mars og hefur fundað reglulega síðustu vikur. Á samráðsfundum teymisins með hagsmunaaðilum hefur fjármagnsþörfin og áhersluatriðin komið í ljós. Viðbragðsteymið hefur skilað tillögum að móttöku barna bæði á leik- og grunnskólastigi og framhaldsskólastigi, ásamt tillögum að samráði við viðbragðsteymi íslenskra stjórnvalda fyrir börn á flótta. Stjórnvöld hafa ákveðið að veita sveitarfélögum tímabundinn stuðning vegna þeirrar vinnu á sviði tómstunda og menntunarúrræða fyrir börn á flótta. Þetta er mikilvæg vinna í átt að aðlögun þeirra að íslensku samfélagi og sem dæmi má nefna tómstundastarf en þar kynnast börnin öðrum börnum, mynda tengsl og stuðlað er að heilbrigðum lífsstíl.

Virðulegur forseti. Það er víða komið við í þessum fjárauka og tekið á mörgum vanda og reynt að bæta upp það sem menn hafa keyrt fram úr. Helst eru það gríðarlega stórar upphæðir sem renna til heilbrigðiskerfisins og ég kom inn á það í minni ræðu að það er fyrst og fremst vegna Covid. En ég get líka tekið undir að við þurfum að rýna betur öll framlög sem við leggjum til opinberra stofnana og þurfum líka alltaf að reyna að gæta aðhalds. Um er að ræða töluvert mikla peninga, t.d. í heilbrigðiskerfinu erum við að tala um hátt í 14 milljarða. Við getum og eigum að gera kröfu til þess að við gætum aðhalds á öllum stigum þegar kemur að rekstri, hvar sem er í okkar opinbera kerfi.

Það gleður mig mjög að hafa fengið að taka þátt í þessari vinnu og sem hluti af meiri hluta fjárlaganefndar er ég virkilega ánægður með þá miklu samstöðu sem var við gerð og vinnu við þennan fjárauka. Fyrst og fremst er mjög ánægjulegt að fjárlaganefnd skuli sameinast að stærstum hluta um ákveðnar tillögur sem snúa að öryrkjum og mæta því kalli sem hefur komið frá Öryrkjabandalagi Íslands, þar sem eru veittar 60.300 kr. aukalega í svokallaðan jólabónus. Fram undan er ákveðin vinna sem snýr að fjárlögum fyrir árið 2023 innan fjárlaganefndar. Við getum sagt að við séum að loka árinu 2022 með þessari umræðu í dag og kvöld, sem snýr að þessum fjárauka, og ég vil leggja áherslu á að í þeirri vinnu sem fram undan er og snýr að fjárlögum fyrir árið 2023 horfi öll fjárlaganefnd, hvort sem er í meiri hluta eða minni hluta, til þess að styrkja stoðirnar í okkar samfélagi og taka vel um okkar minnstu bræður og systur í framhaldinu. Ekki veitir af miðað við það sem hefur komið fram í ræðum fyrr í kvöld og í dag.

Lykilatriði í þessu öllu er að þörfin eftir fjármagni er mjög víða í samfélaginu en við þurfum líka að sýna ákveðna ábyrgð í því sem við erum að gera. Við þurfum að veita ákveðið aðhald. Við höfum verið með ákveðinn halla á fjárlögum og skulum vona að við séum nú komin á þann stað í áætlanagerð til fjárlaga frá okkar stofnunum að við náum betur utan um þann þátt, því að við eigum að gera kröfu til þess að menn reyni að halda sig innan þeirra fjárheimilda sem þeim eru veittar. Það er virkilega mikilvægt og sérstaklega í ljósi þess að við megum ekki alltaf senda reikning inn í framtíðina af því að það kemur alltaf að skuldadögum á öllum sviðum. Við þurfum að horfa til þess að við eyðum bara sömu krónunni einu sinni og þurfum að gæta að hverri krónu í öllum þeim útgjöldum sem hér eru við það að reka ríkið og allar stofnanir sem því fylgja. Ég held að það sé óhætt að segja að öll okkar sem komum að þessari vinnu, hvort sem er í meiri hluta eða minni hluta, horfum til þess að fara vel með, gæta aðhalds og nýta fjármunina á sem bestan hátt, því það verður ekki þannig um ókomna tíð að við getum eytt um efni fram. Það er eitthvað sem aldrei gengur upp til lengdar og því er mjög mikilvægt að við lítum til þess núna, þegar kemur að áramótum, að menn stilli væntingum og horfum í hóf og gæti að sínum útgjöldum, ekki bara opinberar stofnanir heldur á það við um alla. Allur almenningur mun þurfa að gæta að sínum útgjöldum og fara vel með.

Hygginn bóndi sagði einu sinni: Hollur er heimafenginn baggi. Ég held að það sé mikilvægt að við nýtum þær auðlindir sem við eigum og sköpum fjármuni hér heima. Þannig byggjum við upp okkar sterka samfélag og við getum byggt upp enn sterkara velferðarsamfélag ef við horfum til þess hvernig við framleiðum, hvaðan tekjurnar koma og hvernig við horfum til útgjaldanna.