153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[21:04]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get alveg tekið undir það. Spurningin var um hvað mér þætti um meira gagnsæi í því sem við erum að gera sem snýr að fjármálum og ég get alveg tekið undir það. Sem fulltrúi í fjárlaganefnd þá er það vissulega þannig að með hverjum deginum þá lærir maður meira. En það er líka þannig að við þurfum alltaf að leita eftir upplýsingum og það sem ég var að kalla hér eftir líka í ræðunni var að það er svo mikilvægt að við vitum í hvað fjármunirnir eru að fara, hvernig er verið að fara með þá. Hvort sem það ætti að vera opið öllum eða vera bara fyrir þá sem eru að starfa við það, ég ætla ekki að leggja neinn sérstakan dóm á það, en aftur á móti held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir þá sem eru t.d. í fjárlaganefnd og fyrir löggjafann hér á þingi að geta áttað sig á því hvert fjármunirnir eru að fara í þeim fjárheimildum sem við erum að veita. Gegnsæi í útgjöldum og gegnsæi sömuleiðis í tekjum er virkilega mikilvægt í rekstri. Þetta er ekkert öðruvísi en að reka fyrirtæki. Það er nú t.d. þannig í búreikningum hjá mér sjálfum að allt er sundurliðað í ársreikningi í hvað peningarnir fara. Menn geta þá séð það svart á hvítu í hvað er verið að eyða og líka hvernig tekjurnar koma. Það er nákvæmlega það sem við eigum að geta horft til við gerð fjárlaga, við gerð fjárauka og fjármálaáætlunar og þess háttar, stofnanirnar hljóta að geta sýnt fram á það með ákveðnum bókhaldslyklum í hvað fjármunirnir fara.