153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[21:55]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Fyrst um það sem vel er gert. Það er mjög skemmtilegt og ánægjulegt að samstaða skyldi nást í fjárlaganefndinni, gleðilegt mjög, og einhugur hafi verið um eingreiðslu í þágu öryrkja. Ég fagna því líka mjög að þarna sé dálítið viðbótarframlag inn í fangelsismálin og óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með það. En mér þykir mjög miður að þarna vanti framlög í þágu sveitarfélaganna vegna stöðu fatlaðra. Það hefði verið góður bragur á því ef það hefði fengið að fylgja með. Svo ætla ég að leyfa mér að nefna það sem ég hef nefnt hér í öllum ræðum um þessi mál að ég sakna þess mjög að ríkisstjórnin gangi ekki í takt við Seðlabanka Íslands um að stemma stigu við verðbólgu hér í landinu. Það væri afskaplega góð gjöf til almennings alls og hér hefði ríkisstjórnin þurft að sýna meiri og betri dug.