153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[21:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það hefur komið í ljós að við setningu laga um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir var vanmetinn kostnaður sem félli á sveitarfélögin. Nú er verið að leggja til 5 milljarða til viðbótar í fjárlögum næsta árs til að koma til móts við þann aukna kostnað en sá aukni kostnaður hefur einnig fallið á þessu ári. Því leggjum við til að nákvæmlega sama upphæð og ríkisstjórnin hefur lagt til að verði greidd í fjárlögum ársins 2023 verði greidd líka vegna 2022. Þetta er rosalega einföld ákvörðun að taka þegar búið er að taka þessa ákvörðun fyrir 2023. Sami kostnaður þarna á bak við, reyndar líklega meiri, sem ætti að sjálfsögðu að greiða líka því að þetta eru mistök í kostnaðargreiningu hjá ríkinu. Það er verið að gera nákvæmlega sama varðandi lífeyrisaukann í þessum fjáraukalögum. Þar er gefin heimild fyrir vel rúmlega því sem er gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði, en ekki í þessum málaflokki. Það er mjög áhugavert.