153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:15]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um þann hluta eldri borgara sem situr eftir á berstrípuðum almannatryggingabótum og hefur ekki við neitt annað að styðjast. Hér erum við að tala um stóran hluta af eldri borgurum sem voru öryrkjar og löbbuðu yfir í það á einni nóttu að verða 67 ára gamlir og fullfrískir, en um leið þá lækkuðu þeir í greiðslum frá almannatryggingum. Hér erum við að tala um fullorðnar konur, ömmur og langömmur, sem voru heimavinnandi húsmæður og eiga þar af leiðandi engin lífeyrisréttindi. Hér erum við ekki að tala um neitt af því fullorðna fólki sem fellur undir þær lagabreytingar sem áttu sér stað fyrir eldra fólk í janúar 2017, bara alls ekki. Þessi hópur er algjörlega skilinn út undan. Þetta eru fátækustu einstaklingarnir á landinu í dag sem við eigum að hafa í fanginu með því að reyna að gera þeim lífið bærilegt, sem við erum því miður ekki að gera, og þess vegna skora ég á okkur öll að taka utan um þennan hóp og vera ekki að mismuna honum, vera eins almennileg við þessa tæplega 6.000 eldri borgara eins og við munum gera vel við öryrkja á eftir. (Forseti hringir.) Þótt þið vilduð ekki gera það með mér hérna á undan þá veit ég að við ætlum að gera það á eftir. Ég veit að tíminn minn er búinn en vil bæta við að þetta er jú 2. umr. (Forseti hringir.) og ég er viss um að þið sjáið fullt af jólaseríum og öllu því gleðilega fyrir 3. umr. og munið segja já við þessu því að þetta er réttlætis-, sanngirnis- og gæskumál.