153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga sem við erum hér að greiða grænt ljós á töflunni um núna var ein af þeim sem ég nefndi strax í minni ræðu við 1. umr. þessa máls, ekki síst vegna þess að mér þótti tillaga ríkisstjórnarinnar ekki nægjanlega góð og var tilbúin til að leggja meira til. Ég ræddi það við félaga mína í meiri hlutanum um hvort við ættum ekki að leggja það til við nefndina að sameinast um tillögu sem væri nálægt því sem Öryrkjabandalagið hefði látið reikna út og gert. Ég er auðvitað afskaplega ánægð með að við náðum saman um þessa tillögu. Ég tel að það sé mikilvægt. Það er góður bragur á því á Alþingi þegar við náum saman um einhverjar tillögur og þetta er ein af þeim sem kemur til með að skipta afskaplega miklu máli þegar þetta fólk, sem er illa statt í samfélaginu, fær þessa viðbótargreiðslu sem er ekki jólabónus heldur er þetta eingreiðsla, því að bæði öryrkjar og eldri borgarar fá jólaeingreiðslu eins og aðrir á markaði. Því vildi ég bara þakka fyrir samstöðuna í nefndinni hvað þetta varðaði. Það vilja margir eigna sér tillöguna — við eigum hana öll. Það er það sem skiptir máli hér og sést á töflunni.