153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staða Sjúkratrygginga Íslands.

[15:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Þegar kemur að uppsögn sem hv. þingmaður tengir þessari stöðu sem hann dregur fram — því gífurlega mikilvæga og mikla hlutverki sem við ætlum Sjúkratryggingum sem viðsemjanda, þjónustukaupa, í lögbundnu eftirliti og kostnaðarmati á bak við samningagerð o.s.frv. — þá held ég að við verðum að bera virðingu fyrir slíkum ákvörðunum og sjaldnast eru þær einhlítar. Ég ætla kannski að leyfa mér að biðja hv. þingmann að virða það við mig að draga þetta almennt fram. Það er ekki að ástæðulausu að það er dregið sérstaklega fram í stjórnarsáttmála að efla eigi Sjúkratryggingar sem viðsemjanda og þjónustukaupa á heilbrigðisþjónustu fyrir okkar hönd. Við erum þarna að ræða hátt í þriðjung af heilbrigðisþjónustu þannig að á alla mælikvarða er þessi stofnun mjög mikilvæg og mikil að umfangi. Þess vegna erum við líka hér á milli umræðna með um 100 milljónir í viðbótarframlag; stofnunin hefur verið í kringum 1% af samningum. Það er líka mikilvægt að við skiljum á milli rekstrarins sem slíks og þeirrar þjónustu sem þar er innt af hendi og alls umfangs samningagerðar. En framlögin hafa hækkað um 16% frá 2017. Og með viðbótarframlagi um 100 millj. kr. er stofnunin að fá u.þ.b. 2 milljarða á fjárlögum á næsta ári.