153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

fjárframlög til Sjúkratrygginga Íslands.

[15:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt að forstjóri hefur skilað uppsagnarbréfi og viðrað þessar áhyggjur og við höfum átt í góðum og reglulegum samskiptum um það. Og hvað ætlar sá er hér stendur að gera? Ég ætla að benda á það fyrst að við erum að bæta varanlega framlög til stofnunarinnar um 100 millj. kr. Það verða tillögur um það og ég vil meina að það viðbótarframlag muni skipta miklu máli. Það er auðvitað okkar verkefni að styðja við stofnunina sem stendur á bak við þá sem eru á vettvangi. Það gildir um fleiri stofnanir en þetta er áfangi á þeirri leið að styrkja stofnunina. Það hafa komið út skýrslur þessu til stuðnings og mér finnst synd að forstjórinn segi upp sem hefur staðið sig afar vel, ekki síst á krefjandi tímum í gegnum heimsfaraldur, og ég get bara vitnað til um það að hún stóð sig afar vel. Ég bind vonir við að þessar 100 millj. kr. sem koma varanlega inn muni skipta máli. Við þurfum síðan að vinna áfram að því að bæta kerfin og styrkja stofnunina í flókinni samningagerð. Það blasir við. En þá vil ég líka jafnframt segja að fjárframlög til stofnunarinnar hafa aukist á liðnum árum og voru milljarður 2017, 2018, og verða núna með þessu viðbótarframlagi 2 milljarðar þannig að framlögin hafa verið aukin. Síðan hefur verið farið í gagngerar skipulagsbreytingar og svo búum við yfir miklum mannauði þarna sem við verðum líka að tryggja að verði áfram.