Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

val á þjónustuveitendum vegna aðgerða erlendis.

[15:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langaði eiginlega bara að grípa tækifærið hérna, nýta ferðina þegar verið er að ræða þessi mál, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. heilbrigðisráðherra situr í salnum. Það eru tveir mánuðir liðnir frá því að ég lagði inn skriflega fyrirspurn til ráðherra þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hverjir þessir þjónustuveitendur væru sem framkvæmdu aðgerðir á Íslendingum sem stjórnvöld sendu til útlanda til aðgerða, hvernig þessi þjónustuveitendur væru valdir. Hin spurningin er ekki síður brýn: Hver ákvarðar það verð sem íslenskir skattgreiðendur borga fyrir þessar aðgerðir sem gerðar eru erlendis? Hvernig er það verð ákveðið? Þetta eru svör sem skipta máli inn í umræðuna um stöðu mála, sem skipta máli líka í stærra samhengi, hvernig við nýtum skattpeninga almennings hér og mér þykir með miklum ólíkindum að standa hér tveimur mánuðum síðar og bíða enn eftir svörum. Það sem það svaraleysi segir mér, er að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir og það, herra forseti, er ónotaleg tilhugsun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)