Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[15:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Um leið og ég vil þakka nafna mínum, hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu þá vil ég spyrja hvort hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi gripið til einhverra aðgerða svo öryrkjar geti greitt fyrir þann aukakostnað sem hlýst af því að nauðsynleg þjónusta hefur hækkað hjá sjúkraþjálfurum og sérgreinalæknum vegna þess að ekkert samkomulag er við þá. Að rampa veginn fyrir fatlað, veikt eða slasað fólk í verslun, í sjúkraþjálfun eða hjá sérgreinalækni er hið besta mál. En það er lítið gagn að því ef viðkomandi einstaklingur hefur engan veginn efni á að sækja þá þjónustu sem þar er í boði. Margir hafa hætt að sækja sér þjónustu sjúkraþjálfara, hreinlega hætt því, vegna þess að öryrkjar og aldraðir geta ekki lengur greitt fyrir þjónustuna. Þeir geta ekki keypt sér mat eða aðrar nauðsynjar og hafa á engan hátt efni á lífsnauðsynlegum aðgerðum hjá sérgreinalæknum og verða einnig að hætta í sjúkraþjálfun sem er þeim lífsnauðsynleg til að viðhalda starfs- og hreyfigetu.

Það er bara ein leið eftir og það er kostnaðarsamasta leiðin sem er innlögn á sjúkrahús, sem er 50–100 sinnum dýrari lausn. Að þurfa í dag að borga 8.000–16.000 kr. á mánuði aukalega fyrir sjúkraþjálfun sem viðkomandi þarf nauðsynlega á að halda og eiga ekki fyrir henni er fáránlegt fjárhagslegt ofbeldi gagnvart öryrkjum og öldruðu fólki. Þá er eftir aukinn kostnaður þeirra vegna heimsóknar og/eða þjónustu hjá ýmsum sérgreinalæknum. Raunar má fullyrða að það sem áunnist hefur undanfarin ár með lægri greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni sé horfið og meira til. Hversu margir eru að neita sér um þessa þjónustu með tilheyrandi heilsutapi? Þá er einnig stór hópur öryrkja sem á ekki fyrir mat handa sér og börnum sínum vegna fátæktar í almannatryggingakerfinu. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í því ömurlega og niðurlægjandi ástandi sem okkar verst setta fólk er í svo árum skiptir? Hvað hyggst hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra gera til að hjálpa öryrkjum í almannatryggingakerfinu upp úr þessari manngerðu fátæktargildru ríkisstjórnarinnar? Verður það gert með fyrirhugaðri endurskoðun almannatrygginga og hvernig miðar þeirri vinnu? Verður t.d. uppsöfnuð kjaragliðnun örorku í almannatryggingakerfinu leiðrétt að fullu við þá endurskoðun og þá hvenær, ef það verður gert yfir höfuð?

Kjaragliðnun undanfarinna áratuga er þegar orðin vel yfir 100.000 kr. eftir skatta ef miðað er við launavísitölu og hækkun persónuafsláttar gagnvart henni. Þessi upphæð verður að koma inn í almannatryggingakerfið strax því að þessi hópur getur ekki beðið lengur eftir réttlætinu og hefur beðið of lengi eftir því réttláta, mannúðlega kerfi sem á að taka þetta fólk og börn þeirra, ekki bara úr fátækt heldur einnig þeirri smán stjórnvalda að hafa veikt fólk í sárafátækt. Er nýgengi örorku að lækka eða er verið að loka hurðinni á fólk, þ.e. þrengja skilyrðin og lengja ferlið fyrir viðurkenningu á varanlegri örorku? Já, ég tel það. Hvers vegna er fyrirhuguð hækkun frítekjumarks hjá öryrkjum úr 109.000 kr. í 200.000 kr. ekki sett á án allra skerðinga? Með því að hafa skerðingarnar inni er enn og aftur verið að útiloka þúsundir öryrkja frá því að vinna, þá verst settu, og það skiptir engu máli þótt smábreytingar á skerðingum séu fyrirhugaðar. Með framfærsluuppbótinni er áfram skert 65 aura á móti krónu. Það skilar aðeins 57.000 kr. af fyrstu 200.000 kr. í vinnulaunum. Fyrstu 100.000 kr. skila 20.000 kr., bara 20% af 100.000, 80.000 kr. fer í skatta og skerðingar.

Stefnuleysi í meðferð við geðsjúkdómum, biðlistar eftir aðgerðum, biðlistar eftir greiningu barna og fullorðinna með ADHD og fleiri raskanir munu auka á þörf fyrir örorkumat í framtíðinni. Alþjóðadagur fatlaðra var 3. desember og er ekki löngu kominn tími til að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks? Hvernig getum við látið sextuga konu með MS-sjúkdóminn vera án húsnæðis og aðhlynningar og hvað þá ef hjúkrunarpláss stendur henni ekki til boða lengur og hennar bíður ekkert annað en gatan? Ekki benda á mig, sagði sveitarfélagið, og ekki benda á mig, sagði ríkisstjórnin og enginn virtist geta reiknað rétt til að viðkomandi aðili fengi þá þjónustu sem hann þurfti á að halda. Lögfestum strax samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Með því römpum við út mannlegum hindrunum gagnvart fötluðu og veiku fólki. Stjórnarskráin, lög og reglur eru brotnar kerfisbundið á fötluðu og veiku fólki. Er ekki kominn tími til að hætta því? Ekkert um okkur án okkar.