Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

málefni öryrkja.

[15:57]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir frumkvæðið að þessari umræðu hér í dag um málefni örorkulífeyrisþega. Minni greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu er auðvitað mikið hagsmunamál og mikið réttlætismál. Því vil ég minna á að í tíð síðustu ríkisstjórnar var m.a. dregið úr kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilsugæslunni, komugjöld lögð niður fyrir ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega og verulega dregið úr kostnaðarþátttöku annarra og aðgengi fólks þannig jafnað að heilbrigðisþjónustu. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er áfram haldið uppi þeim kyndli að við skulum stefna sameiginlega að því að draga áfram úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi. Í þessu samhengi má nefna að ábyrgð samningsaðila, sem hv. þingmaður nefnir, á að koma samningum um þjónustu í farveg til lengri tíma er auðvitað mikil. Þar tel ég skipta miklu máli að magn og gæði þjónustu séu vel skilgreind því að við verðum að vita í hvað peningarnir eru að fara.

Hv. þingmaður spyr um aðgerðir til handa örorkulífeyrisþegum og hvernig megi bæta kjör þeirra. Heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu á einmitt að stuðla að því að bæta kjör og umbylta kerfinu, kerfi sem í dag er með allt of marga þröskulda, allt of margar hindranir til bæði vinnu og annarrar virkni. Ég vil fjarlægja þröskuldana og gefa þeim sem geta fleiri tækifæri til að vinna eða stunda aðra virkni og bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa. Við erum einmitt að stíga fyrstu sýnilegu skrefin þessar vikurnar. Í dag mun ég mæla fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar þar sem lagt er til að sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði tæplega tvöfaldað eða upp í 200.000 kr. á mánuði, löngu tímabær aðgerð. Þá hef ég lagt fram frumvarp sem felur í sér lengingu greiðslutímabils endurhæfingarlífeyris úr 18 mánuðum í 36 og möguleika á framlengingu í 24 mánuði til viðbótar þannig að hámarksgreiðslur tímabil mun lengjast í heild um tvö ár. Í frekari endurskoðun sem undirbúningur er hafinn að er stefnt að því að sameina bótaflokka og fækka þeim, draga úr tekjutengingum og einfalda útreikninga. Með því verða kjör öryrkja bætt, einkum þeirra sem hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi í lífeyrissjóðakerfinu og þurfa því í ríkum mæli að reiða sig á almannatryggingakerfið sér til framfærslu. Þá sýnir reynslan að eftir að fólk hefur verið metið til örorku og hefur hafið töku örorkulífeyris minnka líkur á að það láti reyna á endurkomu á vinnumarkað, jafnvel þótt starfsgeta aukist á ný. Þessu viljum við líka breyta og er hækkun frítekjumarks atvinnutekna sem ég mæli fyrir hér á eftir einn liðurinn í því.

Það er ánægjuleg þróun sem við sjáum á síðustu árum með lækkandi nýgengi örorku en ástæða þess er aukin áhersla á endurhæfingu. Með því að gefa endurhæfingunni meiri tíma eru meiri möguleikar fyrir fólk að geta áfram verið á vinnumarkaði. Þetta hefur leitt til þess að nýgengi hjá endurhæfingarlífeyrisþegum hefur aukist samhliða því sem dregið hefur úr nýgengi örorku. Á árinu 2021 fækkaði einnig sameiginlegum fjölda örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega frá fyrra ári.

Með þessum breytingum hefur ekki verið þrengt að skilyrðum en í nýju kerfi er vissulega ráðgert að breyta mati á örorku. Það er stefnt að þverfaglegu mati þar sem fleiri þættir en læknisfræðilegir eru teknir til skoðunar, t.d. félagslegir þættir og aðstæður fólks, og líka litið til þess hvað fólk getur en ekki bara hvað það getur ekki. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá Tryggingastofnun lækkaði nýgengi örorku um 28% milli áranna 2016 og 2020 en þá þróun má fyrst og fremst rekja til fjölgunar þeirra sem láta reyna á starfsendurhæfingu áður en kemur til örorkumats. Það er vísbending um að með aukinni áherslu á starfsendurhæfingu og samþættingu í endurhæfingu, þvert á velferðarkerfi félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, sé mögulegt að lækka nýgengi örorku til frambúðar og það eru sannarlega jákvæð teikn.

Eins og hefur verið rakið hér að framan er vinna við endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu í fullum gangi í ráðuneytinu. Vinnan að frumvörpum gengur vel og gott samráð hefur verið við helstu hagaðila. Línurnar eru skýrar um hvert við viljum stefna og við höldum ótrauð áfram á þeirri vegferð.

Að lokum langar mig að koma sérstaklega að kjörum örorkulífeyrisþega. Markmið heildarendurskoðunar á örorkulífeyriskerfinu er einmitt m.a. að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Í því felst m.a. að meta kjör í samanburði við aðra hópa samfélagsins, þar á meðal fólk á vinnumarkaði, og markmiðið er að tryggja þeim viðunandi kjör. Svo er spurning hvað á að fara langt aftur til að skoða samanburð. Það er hægt að finna viðmiðunarár þar sem kjör þessa hóps hafa hækkað meira en launakjör og síðan öfugt en markmiðið núna er að taka stöðuna og tryggja viðunandi kjör og stöðu þessa hóps í samfélaginu eins og það er í dag og hvernig það megi þróast til framtíðar.