Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

málefni öryrkja.

[16:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni, Guðmundi Inga Kristinssyni, fyrir þessa mikilvægu umræðu og ráðherra hans svör. Ég tek undir áhyggjur framsögumanns af því að það komi niður á okkar verst setta fólki að samningar við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara séu lausir. Almennt talað er óboðlegt af okkur stjórnvaldinu að samningar sem ríkið, í þessu tilviki Sjúkratryggingar, gera við þjónustuaðila í heilbrigðiskerfinu bitni á sjúklingum, alveg sama hvaða hópar eru þar undir. Vissulega þarf ríkið að vanda samninga við þessa aðila og þeirra ábyrgð er mikil og algerlega óviðunandi að þriðji aðili líði fyrir þeirra ágreining.

Virðulegi forseti. Ég deili þeim áhyggjum sem framsögumaður ræðir varðandi kjaragliðnun örorkulífeyris almannatrygginga, en ég minni okkur á að árið 2016 dró ÖBÍ sig út úr samningum um niðurstöður Pétursnefndarinnar eftir áratugaundirbúning. Þar hófst 20.000 kr. kjaragliðnun á mánuði og nú í sex ár, eða að 72 mánuðum liðnum, gliðnar enn á milli öryrkja og eldri borgara. Með hækkunum gæti sú gliðnun verið, fyrir hvern þann sem þiggur bætur Tryggingastofnunar, í kringum 2 millj. kr. sem er glatað fé fyrir bótaþega vegna rangrar ákvörðunar. Það kennir okkur að samningar sem skila okkur áleiðis eru betri en enginn samningur sem í þessu tilfelli skilar ósanngjarnri kjaragliðnun sem mikilvægt er að taki enda. Ég tek heils hugar undir það. Það sama á við um skerðingarnar sem hér var minnst á áðan. Þær eru ósanngjarnar og við þurfum að breyta því líka. Ég get tekið undir það.

Það hefur bent á nýjar leiðir sveigjanlegra starfa sem geta gagnast mörgum og skapað ný tækifæri og við eigum að þróa það á íslenskum vinnumarkaði því fatlaðir einstaklingar eru mikilvægur hlekkur sem atvinnulífið þarf að nýta sem starfskraft og það eru ört vaxandi tækifæri sem fylgja hlutastörfum og heimavinnandi störfum eins og í öllum öðrum kerfum. Það mun taka tíma en það hefst með fyrsta skrefinu og við megum ekki hræðast að stíga það skref. Vissulega skortir traust en það er ekki alltaf hægt að stoppa framfarir af þeim ástæðum, ekki frekar en þeim að það séu alltaf einhverjir svindla á kerfinu.

Virðulegur forseti. Ríkisstofnanir eiga skilyrðislaust að ganga á undan með góðu fordæmi með ráðningu á fötluðum einstaklingum. (Forseti hringir.) Það á ekki að vera handahófskennt heldur af metnaði fyrir því að skapa tækifæri fyrir öryrkja og það tækifæri á Alþingi Íslendinga að nýta sér.