Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

málefni öryrkja.

[16:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu um málefni öryrkja. Að fjárfesta í fólki til framtíðar er eitt af leiðarljósum Framsóknar en á það var einmitt lögð mikil áhersla fyrir síðustu kosningar. Markviss fjárfesting í fólki felst m.a. í endurskoðun og samþættingu þjónustu sem hið opinbera veitir fólkinu í landinu. Þar skipta máli forvarnir á öllum sviðum, tryggur aðgangur að þjónustu fyrir þau sem þurfa áherslu á snemmtæka íhlutun og fyrirbyggjandi aðgerðir líkt og í málefnum barna. Þessar áherslur um fjárfestingu í fólki endurspeglast í stjórnarsáttmálanum og ekki síst varðandi málefni öryrkja þar sem nokkrar aðgerðir eru tilteknar. Til að hrinda þeim aðgerðum í framkvæmd hefur nú verið skipaður stýrihópur á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem hefur yfirsýn yfir endurskoðunarvinnu sem fjölmargir koma að. Í stuttu máli er vinnunni að umbótum skipt í þrennt; fjölbreyttara og sveigjanlegra atvinnulíf sem m.a. mæti mismunandi starfsgetu, snemmtæk íhlutun sem m.a. tryggi rétta þjónustu á réttum tíma og í þriðja lagi nýtt greiðslukerfi sem styðji við markmið starfsendurhæfingar og möguleika til virkni á vinnumarkaði ásamt því auðvitað að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa. Horft er til þess að einstaklingum sem missa starfsgetuna verði í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif. Leiðarljósið er aukin velsæld, bætt líðan einstaklinga og betra samfélag. Sem formaður velferðarnefndar fæ ég tækifæri til að fjalla um mikilvægar úrbætur í málaflokknum en jafnframt koma inn á mitt borð fjölbreyttar ábendingar um það sem betur mætti fara og ég kem að því í seinni ræðu.