Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[16:19]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Öryrkjabandalag Íslands hélt mjög mikilvægt málþing þann 23. nóvember síðastliðinn um aukagjöld í heilbrigðiskerfinu. Þetta eru gjöld sem eru innheimt vegna samningsleysis hins opinbera við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara og leggjast mjög þungt á langveikt fólk og öryrkja. Ræðumenn voru á einu máli um að stóri vandinn hér væri tregða ríkisstjórnarinnar til að fjármagna heilbrigðisþjónustu með viðunandi hætti. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sagði að það hvort samningar næðust á næsta ári ylti að verulegu leyti á því hvernig fjárlögin myndu lenda, hvaða breytingar Alþingi ætlaði að gera á fjárlagafrumvarpi næsta árs. Nú liggja þær breytingartillögur fyrir frá meiri hlutanum í fjárlaganefnd og þar er ekki gert ráð fyrir auknum fjárheimildum vegna samninga við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara. Þetta eru sláandi fréttir. Þetta eru kaldar kveðjur til þessara fagstétta og til sjúklinga og eflaust ein af orsökum þess að María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, mjög hæfur og vandaður embættismaður, hefur sagt upp störfum og vísað til fjársveltis. Hæstv. heilbrigðisráðherra gat engu svarað um þessi mál hér áðan. Honum fannst þetta allt einhvern veginn ákaflega leiðinlegt. Við vitum alveg hvernig það er með hæstv. fjármálaráðherra, hann er fastur í einhverjum sýndarveruleika þar sem Ísland er stéttlaust samfélag og heilbrigðiskerfið er fullfjármagnað.

En hvað segir hæstv. félagsmálaráðherra? Hvernig ætlar hæstv. félagsmálaráðherra að koma í veg fyrir að öryrkjar og langveikt fólk þurfi að greiða úr eigin vasa fyrir þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna þegar það stendur augljóslega ekki til að semja við þessar stéttir á næsta ári? Hvernig ætlar hæstv. félagsmálaráðherra að beita sér fyrir því og tryggja að þessum byrðum verði létt af fólkinu sem má svo sannarlega ekki við þessari byrði? Við verðum að fá mjög skýr svör um þetta, ekki eitthvert moð eins og við heyrðum frá hæstv. heilbrigðisráðherra áðan. Við verðum að gera þá kröfu að hæstv. ráðherra standi undir nafni sem ráðherra öryrkja og ráðherra langveiks fólks.