Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[16:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ísland er sannarlega velferðarríki og á Íslandi er um 60% allra útgjalda ríkissjóðs varið til velferðarmála. Frá 2017 hafa heildarútgjöld til velferðarmála aukist um ríflega 123 milljarða að raunvirði og útgjöld til heilbrigðismála hafa aldrei verið hærri. Það er hins vegar ljóst að við þurfum að leggja meiri áherslu á að efla fjölbreyttari rekstrarform heilbrigðisþjónustunnar þannig að við aukum samstarf opinberra aðila við einkaaðila. Með því styttum við biðlista og komum í veg fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Við höfum öll hlotið skaða af samningsleysi við sjúkraþjálfara og sérfræðilækna og skaðinn er auðvitað mestur fyrir þá sem mega síst við því, fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. — Og talandi um þann hóp má ég til með að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þessa umræðu hér í dag og fyrir þrautseigju og dugnað við að vekja athygli á málefnum öryrkja.

Í nýsamþykktri landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins var lögð áhersla á að tryggingakerfi öryrkja verði endurskoðað frá grunni og að horft verði til þess að öryrkjar hafi ávinning af því að afla sér tekna. Það er líka í samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem því er heitið að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu þar sem sérstaklega verði horft til möguleika á atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Samhliða endurskoðun er sömuleiðis mikilvægt að farið sé yfir verklag í málum þeirra sem sækja um örorkumat eftir fullreynda endurhæfingu svo að grunnframfærsla þeirra sé tryggð. Eins og hæstv. ráðherra hefur farið yfir stendur nú yfir vinna við endurskoðun málaflokksins og þegar hafa verið lögð fram frumvörp í þinginu sem tengjast þeirri vinnu. Ég vænti þess að um þau geti náðst góð og breið samstaða í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag.