Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[16:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta hefur verið góð umræða og ég vil þakka öllum sem tóku til máls. Ég þekki það af eigin reynslu að vera inni í almannatryggingakerfinu í á annan tug ára. Það er ömurlegt að þurfa að vera í kerfi þar sem þú þarft að velta fyrir þér hverri einustu krónu alla daga ársins áratugum saman, það á ekki að eiga sér stað. Við erum með mannskemmandi kerfi. Án þess að hafa fengið læknisþjónustu eftir eins árs bið á biðlista og án sjúkraþjálfunar stæði ég ekki hér í þessum ræðustól, það væri útilokað. Við vitum ekki hvaða afleiðingar það hefur að neita fólki um heilbrigðisþjónustu. Við vitum ekki hvaða afleiðingar það hefur að svelta fólk þannig að það eigi ekki fyrir mat. En við sjáum afleiðingarnar þegar það er orðið of seint. Þess vegna ber okkur að sjá til þess að tekið verði á þessu kerfi.

Það gengur ekki upp að hæla sér af því að nú ætlum við að hafa 200.000 kr. frítekjumark. Við getum ekki sagt við fólk að ef það fái 200.000 kr. á mánuði aukalega þurfi það að borga 67–80% í skatta og skerðingar. Við myndum ekki samþykkja það af okkar launum. Það á ekki að krefjast þess að veikt fólk sé í þeirri aðstöðu vegna þess að það þarf að leggja mun meira á sig, oft meiri kostnað, til að geta komist í vinnu. Það verður að vera hvati og við eigum að sjá til þess. Ef við erum að setja þessi frítekjumörk núna, og það er verið að endurskoða kerfið, þá er það lágmarkskrafa að þessar 200.000 kr. verði skatta- og skerðingarlausar og fólki leyft að finna vinnu við hæfi og að ríki og sveitarfélög sýni nú einu sinni fordæmi og bjóði fólki með skerta starfsgetu vinnu. Þar hefur hundurinn oft legið grafinn vegna þess að þeir aðilar eru verstir í því að bjóða upp á vinnu fyrir fólk með skerta starfsgetu.