skráning raunverulegra eigenda.
Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda (skipti eða slit tiltekinna skráningarskyldra aðila).
Með frumvarpinu er lagt til að tvö ný bráðabirgðaákvæði bætist við lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019. Lögð eru til sérstök úrræði til að koma fram skiptum eða slitum á lögaðilum sem er skylt að tilkynna um raunverulega eigendur sína til fyrirtækjaskrár en hafa ekki sinnt þeirri skyldu og ríkisskattstjóra færð skilvirkari úrræði til að koma fram skiptum eða slitum á skráningarskyldum aðilum sem hafa vanrækt skráningarskyldu samkvæmt gildandi lögum.
Frumvarpið er liður í því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum sem alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn Financial Action Task Force eða FATF, með leyfi forseta, lagði fyrir íslensk stjórnvöld til að grípa til í því skyni að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Við gildistöku laganna voru um 63.000 lögaðilar skráðir í fyrirtækjaskrá sem féllu undir fyrrgreint ákvæði til bráðabirgða. Hinn 12. ágúst árið 2020 höfðu rúmlega 92% skráðra lögaðila í fyrirtækjaskrá sinnt skráningarskyldunni. Síðan þá hefur skráning batnað smám saman. Þó eru enn um 1300 aðilar sem hafa ekki sinnt skráningarskyldu samkvæmt lögunum þrátt fyrir að ríkisskattstjóri hafi gripið til margvíslegra aðgerða til að knýja fram úrbætur, svo sem áskorun og álagningu dagsekta skv. III. kafla laganna, innheimtuaðgerða og aðgerða til að ná sambandi við fyrir fyrirsvarsmenn félaga í gegnum tölvupóst eða símleiðis. Skráningu er einkum ábótavant hjá ófjárhagslegum félögum á borð við almenn félagasamtök, áhugamannafélög og fleiri.
Nefndinni barst ein umsögn um málið, auk minnisblaðs frá menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem fram kom afstaða ráðuneytisins til þeirrar umsagnar. Þær ábendingar sem fram komu í umsögninni sneru að framkvæmd laga um skráningu raunverulegra eigenda og kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins að þær ábendingar séu til skoðunar. Meiri hlutinn leggur til eina breytingu sem er tæknilegs eðlis og helgast af breytingum sem nýlega voru gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Vísast að öðru leyti til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögu í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.
Að framansögðu virtu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem gerð hefur verið grein fyrir.
Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Jóhann Páll Jóhannsson og René Biasone.