Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[17:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrir framsöguna. Ég er einna helst að velta fyrir mér forminu á þessu frumvarpi. Ég tel þessar breytingar vera til bóta og tel mikilvægt að hægt sé að knýja á um að raunverulegir eigendur skrái sig o.s.frv., en átta mig ekki alveg á því hvers vegna þessi ákvæði þurfa að vera bráðabirgðaákvæði, hvers vegna ekki var ákveðið að fara varanlegri leið við þetta. Eru einhver sérstök rök fyrir því? Hvers vegna eru þessi lög einungis sett til bráðabirgða, sérstaklega vegna þess að þetta eru töluvert ítarleg ákvæði sem snúa að réttindum einstaklinga og þetta er frumvarp sem hefur fengið eðlilega meðferð og hefur haft eðlilegan tíma til að fara í gegnum þingið? Því velti ég bara fyrir mér hvers vegna þetta eru bráðabirgðaákvæði en ekki varanleg ákvæði.