Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hér er stigið mikilvægt skref í þá átt að uppfylla þær umsagnir sem bárust vegna FATF-samtakanna. Ég held að það sé gríðarlega gott og nauðsynlegt að þessi vinna fari fram. Eins og ég las hér upp áðan þá hefur þessi skráning gengið vel, yfir 92% félaga eru búnir að skrá sig en enn eru um 1.300 aðilar sem ekki hafa sinnt þeirri skráningarskyldu. Við könnumst líklega öll við það og höfum heyrt marga í kringum okkur kvarta yfir þessu, þar sem fólk hefur tekið þátt í sjálfboðastarfi í hinum ýmsu félögum og hefur gert athugasemdir við að það sé erfitt að uppfylla þessa skráningarskyldu. Ég efa það ekki að í einhverjum af þessum félögum, einhverjum af þessum 1300 aðilum sem enn hafa ekki sinnt skráningarskyldu sinni samkvæmt lögunum, þá vitum við kannski hreinlega ekki hvar þetta fólk er eða hver er í fyrirsvari fyrir eitthvert þessara félaga. Einhver eru líklega ekki starfandi eða liggja í dvala, þetta geta verið íþróttafélög, lífsskoðunarfélög eða hvaðeina annað.

Af hverju eru þetta bráðabirgðaákvæði? Ég ætla bara að segja það í fullri hreinskilni að ég veit ekki svarið við því. Ég veit ekki af hverju þarna eru sett bráðabirgðaákvæði en ekki varanleg. Sú athugasemd kom ekki fram hjá nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég geri fastlega ráð fyrir að við því yrði brugðist í fyllingu tímans ef þörf er á.