Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[17:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég tók einmitt ekki eftir þessu í meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hef væntanlega verið fjarverandi þegar þetta mál var tekið til afgreiðslu. Ef ég les í gegnum frumvarpið og greinargerðina með því þá rek ég í augun í það að þetta er frumvarp sem er lagt fram í annað sinn. Í fljótu bragði a.m.k. sé ég ekki neinar skýringar á því hvers vegna þetta ætti frekar að vera bráðabirgðaákvæði heldur en varanlegt ákvæði, sér í lagi vegna þess að þetta felur í sér íþyngjandi kvaðir, sérstaklega fyrir einstaklinga.

Hvað það þýðir nákvæmlega að þetta sé ákvæði til bráðabirgða þegar lögin taka strax gildi. Þetta er frumvarp er að koma núna í annað sinn fyrir þingið og ég velti fyrir mér til hvers og hvaða raunverulegu áhrif það hefur að þetta sé titlað til bráðabirgða þegar öll umgjörðin og allt í kringum þetta lætur líta út fyrir að þetta eigi að vera varanleg löggjöf sem eigi að gilda til frambúðar. Því velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi fengið einhver boð þess efnis frá ráðuneytinu um að það standi til að skoða þetta betur síðar eða breyta þessu, bæta þennan lagabálk eða eitthvað þannig. Þá velti ég einnig fyrir mér hvort það hafi kannski verið reynt á þessu ári sem er liðið frá því að þetta mál var fyrst lagt fram og svo lagt fram aftur.

Mér finnst það athyglisvert atriði að þetta séu bráðabirgðaákvæði í stað þess að vera varanleg ákvæði, eins og svona þykkt frumvarp ber með sér.