skráning raunverulegra eigenda.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og samnefndarmanni mínum fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil ítreka að þetta frumvarp er liður í því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum sem þessi alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópur, Financial Action Task Force, með leyfi forseta, gerði athugasemdir við. Ég get ekki svarað þessu með öðrum hætti hvers vegna þetta er bráðabirgðaákvæði en að einungis ein umsögn barst um málið. Ein breyting var gerð sem var tæknilegs eðlis. En um skráningarskyldu aðila sem falla undir 1. mgr. 2. gr. og voru þegar skráðir í fyrirtækjaskrá við gildistöku laganna 6. júlí 2019, fer á hinn bóginn eftir ákvæði til bráðabirgða við lögin. Í bráðabirgðaákvæðinu var upphaflega mælt fyrir um að þessir aðilar skyldu veita upplýsingar um raunverulega eigendur eigi síðar en 1. júní 2020. Sá frestur var síðan styttur í 1. mars 2020 með lögum nr. 143/2019, um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, sem tóku gildi 22. desember 2019. Ákvæði þessa frumvarps taka þess vegna einungis til aðila sem falla undir nefnt ákvæði til bráðabirgða, sbr. skýringar við 1. gr.
Mig langar líka að fá að árétta að íslensk stjórnvöld brugðust við þeim athugasemdum sem þarna voru gerðar og ráðist var í margháttaðar aðgerðir. Ég held að þetta sé stöðug vinna og stöðugt verkefni sem við hlaupum ekki frá, heldur verður viðvarandi um alla framtíð að tryggja hér öryggi.