Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[17:59]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði upphaflega að koma hingað í andsvar til að spyrja svipaðra spurninga og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varðandi það hvers vegna þessi ákvæði eru til bráðabirgða. Ég sé að í greinargerð með frumvarpinu segir að ástæðan fyrir þessu sé sú að þrátt fyrir að liðin séu þrjú ár frá gildistöku laganna sé enn talsverður fjöldi lögaðila sem ekki hefur sinnt þessari skyldu til að skrá raunverulega eigendur og þarna eigi að bregðast við þeim aðstæðum. Eftir stendur samt spurningin: Hvers vegna er talið útilokað að það vandamál muni viðhaldast? Hvers vegna er þetta til bráðabirgða? Ef ég skil hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur rétt þá kann hún ekki nein ítarlegri svör við þessari spurningu.

Það vakti athygli mína að þetta frumvarp er liður í því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum sem alþjóðlegi fjármálaaðgerðahópurinn lagði fyrir íslensk stjórnvöld að grípa til í því skyni að efla varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og því langar mig að spyrja hv. þingmann: Þetta er bara einhver þáttur í að ljúka þessum aðgerðum, hvaða fleiri þættir eru það? Hvað stendur út af af þessum tilmælum sem komu frá þessum alþjóðlega fjármálaaðgerðahópi? Er það allt saman komið á verkefnalista eða í einhverja vinnslu? Er þetta lokaskrefið eða hvar stendur í rauninni sú vinna? Ég fann ekki í frumvarpinu tæmandi yfirlit yfir það. Það væri áhugavert, þar sem þetta virðist í rauninni vera bara lítið skref og talað er um að þetta sé liður í því að ljúka nauðsynlegum aðgerðum.