skráning raunverulegra eigenda.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 11. þm. Reykv. s. fyrir fyrirspurnina og hún er að spyrja um þetta bráðabirgðaákvæði. Ég tel mig hafa farið yfir það áðan, þar sem ég nefndi að við gildistöku þessara laga voru um 63.000 lögaðilar skráðir í fyrirtækjaskrá sem féllu undir þessi ákvæði til bráðabirgða. Hinn 12. ágúst 2020 höfðu 92% skráðra lögaðila í fyrirtækjaskrá sinnt þessari skyldu sinni. Síðan þá eru um 1300 aðilar sem standa eftir og ég tel líklegt að þetta bráðabirgðaákvæði sé sett gagngert til höfuðs þessum 1.300 aðilum til að ná þeim inn í skráningu.
Hv. þingmaður spyr hvort þetta sé einhver lokapunktur í þessari aðgerð. Ég sagði hér áðan í andsvari að ég tel að þessu verkefni sé aldrei lokið. Það er viðvarandi verkefni að halda hér vel utan um hlutina. Árið 2018 lendum við á þessum gráa lista sem flestum þótti gríðarlega dapurt og ég held að við höfum sofið á verðinum og ekki verið nógu vakandi hvað þetta varðar. Síðan þá er búið að gera gríðarlega mikið og ég tel að við séum komin nokkuð vel á veg, ekki bara nokkuð heldur mjög vel á veg því að tveimur árum eftir að við lentum á gráa listanum þá gaf dómsmálaráðuneytið út að Ísland hefði lokið þeirri aðgerðaáætlun sem hópurinn hafði sett okkur með fullnægjandi hætti.