Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[18:03]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrir svarið. Ég held að ég skilji að þarna sé ætlunin að bregðast við tilteknum fjölda fyrirtækja sem hafa vanrækt þessa skyldu en velti því samt enn þá fyrir mér — ég ætlast kannski ekki til þess að hv. þingmaður svari því eitthvað enn þá frekar — hvernig fyrirséð sé að þetta muni ekki gerast aftur, hvernig eigi að koma í veg fyrir að þetta haldi áfram að gerast. En ég spurði hv. þingmann líka, varðandi þessar tillögur eða tilmæli frá þessum alþjóðlega fjármálaaðgerðahópi, hvort fleiri formlegar tillögur hefðu komið fram sem við eigum enn þá eftir að uppfylla. Ég er nokkuð forvitin um það og þykist vita að það séu einhverjar fleiri tillögur sem við höfum gengið í að uppfylla en er ekki klár á því hvort allt sé komið á þeim lista.

Að lokum, ef tími gefst til langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi kynnt sér tillögu að löggjöf sem núna er til umræðu í Evrópusambandinu, sem gríðarlega þungum áhyggjum hefur verið lýst af, sem afnema í raun skyldu til skráningar raunverulegra eiganda. Í kjölfar dóms virðist sem það standi til að reglur verði þannig í Evrópusambandinu að það sé brot á persónuvernd að gefa upplýsingar um hreinlega skráða eigendur félaga, ekki bara raunverulega eigendur, sem er enn þá lengra gengið. Það þarf í raun að grafa dýpra til að finna það út, en bara það að hreinlega gefa upp skráða eigendur fyrirtækja verði í raun metið sem einhvers konar brot á persónuverndarlöggjöf — hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þessu? Þekkir hún þetta og hefur hún einhverjar hugmyndir um hvernig rétt væri að bregðast við þessari þróun?