skráning raunverulegra eigenda.
Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég efa að við séum búin að uppfylla allt. Þarna eru einhver atriði eftir en samt sem áður er það svo að árið 2020 gaf dómsmálaráðuneytið það út að Ísland hefði lokið aðgerðaáætlun hjá FATF með fullnægjandi hætti. Það var gríðarlega mikilvægt skref, sérstaklega fyrir fjármálamarkaðinn hér á Íslandi og fjármálafyrirtækin okkar sem og íslenska ríkið, að við skyldum fara af þessum lista. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að Ísland hafi gerst aðili að þessum samtökum 1991, þannig að vitaskuld var það dapurt að við skyldum síðan ekki vera með fullnægjandi aðgerðir hvað þetta varðar. Samtökin gáfu það út að Íslendingar hefðu lokið aðgerðum en staðfestu á sama tíma að fulltrúar þessa hóps myndu koma til Íslands í vettvangsathuganir til að staðfesta þennan árangur. Því erum við enn þá undir eftirliti og með þetta aðhald sem ég tel mjög af hinu góða.
Hv. þingmaður spyr mig um löggjöf í Evrópusambandinu sem eiga að afnema skyldu til skráningar raunverulegra eigenda. Ég hef ekki kynnt mér þessa væntanlegu löggjöf í þaula, en ég get svarað því hér og nú að sá þingmaður sem hér í pontu stendur er lítið fyrir forsjárhyggju (Forseti hringir.) þannig að öll söfnun upplýsinga getur verið varhugaverð.