skráning raunverulegra eigenda.
Frú forseti. Við ræðum hér framhald á gömlum kunningja varðandi skráningu raunverulegra eigenda lögaðila. Við vorum nú að glíma við þetta einhvern veginn megnið af síðasta kjörtímabili, akkúrat það vandamál sem hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir fór yfir hérna áðan, að það næst bara ekki í aðstandendur margra skráðra lögaðila til að geta skráð hver á þá raunverulega. Þá standa stjórnvöld frammi fyrir þeim vanda að það er hægara sagt en gert að leysa fyrirtæki upp ef enginn finnst til að standa fyrir því. Það eru ýmis vandamál sem geta skapast af þessu. Það eru 1.300 aðilar, kom hér fram, sem þarf að horfa til og ágætt að við séum að ná að loka þessu.
En mig langar líka aðeins að koma inn á það, sem var rætt hér einhvern tímann við fyrri umfjöllun þessa máls, sem snýr að því hvað þessar skrár geta allar verið okkur gagnlegar vegna þess að þetta snýst ekki bara um að hið opinbera hafi upplýsingar um það hvaða einstaklingar standa á bak við lögaðila þannig að fólk geti ekki falið hvaða starfsemi sem er á bak við eitthvert ehf. eða samlagsfélagskennitölu eða hvað það er heldur sé alltaf á endanum hægt að leita til einstaklings sem þarf að sitja fyrir svörum varðandi starfsemina, heldur um möguleikann á auknu gagnsæi gagnvart almenningi. Það getur nefnilega verið gagnlegt fyrir fólk að fletta því upp hver er skráður raunverulegur eigandi, segjum lítils fjárfestingarsjóðs sem gerir tilboð í hlut í Íslandsbanka. Það væri gagnlegt til að sjá hvort maður sé kannski skyldur einhverjum þar. Það væri gott að hafa þær upplýsingar opnar og í frjálsum aðgangi. En þetta er bara hluti af þróun sem hefur átt sér stað hér á undanförnum árum, m.a. vegna þess að skattyfirvöld hafa verið dálítið framsýn í því að opna á gögn, líka vegna þess að hér innan Alþingis hefur verið fólk sem hefur verið að beita sér fyrir þessari þróun. Þar langar mig að nefna t.d. þá staðreynd að skráin þar sem lögaðilarnir eru, skráin þar sem er hægt að sjá raunverulegu eigendurna, fyrirtækjaskráin, varð ekki gjaldfrjáls fyrr en bara fyrir örfáum árum að tillögu, ef ég man rétt, Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Þar sýndi Alþingi þá framsýni að taka tillögu stjórnarandstöðuþingmanns fegins hendi og samþykkja hana sem varð til þess að hvert okkar sem er getur flett upp í fyrirtækjaskrá og athugað hvort pabbi okkar leynist einhvers staðar þar.
Svo þarf náttúrlega að stíga fleiri skref og opna ársreikningaskrá og hluthafaskrá og hafa það allt opið og frjálst og aðgengilegt og svo þurfum við að taka umræðu um það hvort og þá hvernig við leyfum einhverja vinnslu upp úr þessu. Setjum okkur í spor rannsóknarblaðamanns sem er að kanna eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Þá getur skráning raunverulegra eigenda hjálpað viðkomandi gríðarlega mikið við að tengja saman hagsmuni, teikna upp blokkir, sjá mögulega eitthvert eignarhald sem annars væri dulið. Þó að í orði kveðnu væri kannski eðlilegt að hið opinbera væri einfaldlega í svona eftirliti þá er þetta kannski ekki frumkvæðiseftirlit af því taginu að það sé hægt að ætlast til þess að Skatturinn standi í því. En ef einhver stingur þeirri hugmynd að blaðamanni að grennslast fyrir um hvort það sé t.d. einhver eigendablokk í kringum eitthvert sjávarútvegsfyrirtæki sem gæti mögulega verið búin að sölsa undir sig óvenjulega stóran hlut af aflaheimildum í skjóli eignarhalds á ýmsum ólíkum fjárfestingarfyrirtækjum, þá er ekkert endilega víst að hið opinbera myndi grípa það en með gagnavinnslu, sem væru settar eðlilegar skorður varðandi persónuvernd og annað slíkt, gæti rannsóknarblaðamaðurinn knái náð einhverju fram.
Síðan langar mig að nefna tvær skrár í viðbót sem ég sjálfur hef nokkrum sinnum lagt til að verði opnaðar umfram það sem er í dag. Það eru álagningarskrár og skattskrár skattstjóra. Það er eiginlega ótrúlegt að sú gagnsæismenning hafi verið iðkuð hér á landi áratugum saman að álagningarskrár og skattskrár skattaðila hafi legið frammi til sýnis á hentugum stað, eins og það heitir í lögunum. Fyrir nokkrum árum þýddi það að prentaðar voru út þykkar gormabækur sem lágu frammi á borði hjá Skattinum og áhugasöm um álagningarskrár mættu þangað og kepptust um að setjast við borðið og punkta hjá sér helstu upplýsingar. Nú er þetta orðið stafrænna, það er varla að ég vilji kalla það alveg stafrænt af því að það er bara hægt að nálgast skrárnar á tölvutæku formi á ónettengdum tölvum í afgreiðslu Skattsins. Þangað mætti ég einmitt þegar þær voru lagðar fram í sumar og steig inn í þröngt og þéttsetið herbergi með fullt af blaðamönnum sem voru að leita í PDF-skrám á þessum læstu tölvum og vinna þannig upplýsingar fyrir tekjublöðin sem voru að koma út dagana á eftir. Tekjublöðin eru nefnilega ágætt dæmi um það hvernig upplýsingar af þessu tagi geta orðið að einhverju gagni, mismiklu þó vegna þess að þau eru misjöfn. Tökum t.d. Frjálsa verslun sem hefur, að mig minnir, lengst verið í þessum bransa. Þar eru teknar saman launatekjur fólks. Þar er tekið saman það sem fólk fær frá atvinnurekanda sem launafólk. Eins og við vitum nú ágætlega, frú forseti, þá segja þær tölur bara hálfa söguna þannig að á þessum listum Frjálsrar verslunar eru læknar og millistjórnendur og alls konar fólk með ágætislaun en kannski engar ofurtekjur. Það fólk raðar sér allt í toppsætin en fólkið sem er kannski líklegast til að vera áskrifendur að Frjálsri verslun, fólkið sem hefur raunverulega háu tekjurnar birtist ekki þarna nema með lægri laun vegna þess að tekjur þeirra sem mest hafa í samfélaginu eru ekki launatekjur heldur tekjur í gegnum arðgreiðslur og annað slíkt, fjármagnstekjur. Þess vegna hefur verið svo skemmtileg þróun á síðustu árum þegar nýr aðili á tekjublaðamarkaðnum, Stundin, fór að birta ítarlegri upplýsingar upp úr álagningarskránum, fór að vinna upp úr fjármagnstekjudálkinum líka vegna þess að þessar upplýsingar lágu alltaf fyrir. Frjáls verslun kaus bara að nota þær ekki. Hvað kemur í ljós þegar Stundin leggst ítarlegar yfir þetta? Þá er allt í einu fullt af fólki sem birtist hvergi í tekjublöðunum og engan hafði grunað að væri að fá múltímilljónir á mánuði, það birtist allt í einu þarna mjög ofarlega. Það er hægt að gera safaríkari fréttir upp úr þessum upplýsingum, vil ég meina. Þetta er samt ágætt fyrsta skref, en þessi blaðamennska sýnir það virði sem er hægt að búa til úr þessum upplýsingum.
Fordæmi eigum við náttúrlega frá Noregi þar sem sambærilegar skrár hafa verið aðgengilegar og fjölmiðlum heimilt að vinna upp úr þeim með rafrænum hætti þannig að hægt er að ná fram einhverjum merkingarbærum fréttum úr þeim. Noregur hefur sem sagt þróað opið aðgengi að þessum skrám og gert það bara býsna vel. Ég held að sé alveg full ástæða fyrir Ísland að fara að stíga skref í sömu átt vegna þess að við deilum þeirri forsögu með Noregi að hér hafa þessar skrár verið aðgengilegar almenningi um langa tíð. Munurinn er bara sá að við erum enn þá föst í þeirri framkvæmd að „aðgengilegar almenningi“ er túlkað sem tiltækar á lokaðri tölvu í tvær vikur á ári frekar en að gera bara eins og Norðmenn, að það sé hægt að fletta upp í þeim og það sé eitthvert skráningarkerfi. Þeir eru með það sem ég held að þeir kalli meira að segja hnýsnivörn þannig að ef ég fletti t.d. hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur upp þá fær hún inni á island.is eða ígildi þess skráningu um að Andrés Ingi Jónsson hafi verið að fletta upp tekjum hennar á síðasta ári. Þar með skapast sjálfkrafa vörn fyrir því að þetta sé kannski misnotað eins og fólk óttast oft að gerist þegar gögn eru gerð aðgengilegri og þá aðgengilegri á tæknilegan hátt. En það sem þarf líka að skoða varðandi þetta er, að virtum persónuverndarsjónarmiðum sem við þurfum auðvitað að hafa í heiðri, að það þarf ekki bara að hleypa fjölmiðlum heldur líka ýmsum greiningaraðilum eins og verkalýðsfélögum eða félagsvísindadeildum háskólanna að þessum upplýsingum á einhvern enn opnari hátt en öllum almenningi, t.d. til að draga fram ýmsa kjaratölfræði á þann hátt sem er erfiðara að gera. Við sáum t.d. að BHM fór í samstarf við Samtökin '78 og leitaði til Skattsins með að hjálpa þeim að draga fram launamun vegna kynhneigðar og vel að merkja þá gekk það samstarf ágætlega. En það sem ég er að tala um er að það þurfi ekki sérstaklega að stofna til slíks samstarfs heldur geti ákveðnir aðilar bara gert þetta að eigin frumkvæði. BHM, Samtökin '78 og Skatturinn fóru yfir launatölfræði með þeim hætti að skoða fólk sem var samskattað en af sama kyni borið saman við fólk sem var samskattað en af sitt hvoru kyninu sem svona grófa tilraun til að ná utan um kynhneigð fólks. Þó að þetta sé ekki fullkomið þá er þetta svona gróft net sem þeir köstuðu út og fundu það út að launamunur vegna kynhneigðar er ekki bara staðreynd heldur er hann töluverður. Nú eru þau í frekara samstarfi til að dýpka þessar rannsóknir. Á þeim tímum þegar við erum að reyna að draga fram allar þessar mörgu duldu mismunabreytur sem eru í gangi í samfélaginu, hvort sem er vegna aldurs eða búsetu eða kyns eða hvað það er, þá hlýtur að vera gagnlegt fyrir aðila vinnumarkaðarins að hafa aðgang að þessum upplýsingum alveg eins og fjölmiðlar.
— Nú biðst ég forláts, forseti, á því að hafa tekið svona mikinn tíma í að ræða opnar álagningar- og skattskrár, sem ég ætlaði bara rétt aðeins að nefna, en ég hef mikinn áhuga á þessu máli og það er ekki alltaf sem mér gefst tækifæri til að ræða það.
Mig langar hér rétt að lokum að nefna að það frumvarp sem við ræðum hér snýst um varnir gegn hryðjuverkum, varnir gegn fjármögnun hryðjuverka. Þar hafa yfirvöld um allan heim áttað sig á því að besta vörnin er ljósið, þ.e. að lýsa og nota gagnsæi til að sjá til þess að hin ýmsu rekstrarform sem boðið er upp á séu ekki misnotuð í þágu slæmra verka. Þá verð ég að nefna eina tegund af félögum sem hefur verið beinlínis bent á í áhættumati ríkislögreglustjóra að sé í sérstakri áhættu varðandi það að vera notuð sem farvegur fyrir fjármögnun hryðjuverka eða peningaþvætti eða hvað það er annað. Það eru skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Það er nefnilega dálítið síðan að þetta varð að atriði sem þurfti að bregðast við. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem var birt í ágúst 2019, þá var ein af aðgerðunum að breyta lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og gera bæði strangari kröfur um hæfi þeirra sem eru í forsvari fyrir þau, auka kröfur um ráðstöfun fjármuna og sérstaklega skiptir máli að efla eftirlit með þeim og með fjárreiðum þeirra. Í aðgerðaáætluninni var gert ráð fyrir að undirbúningur við löggjöf myndi hefjast í byrjun árs 2020 og frumvarpið yrði lagt fram í lok þess árs. Nú er árið 2022, eins og forseta er kunnugt um, og enn er þetta frumvarp ekki komið fram og hvað þá að það sé orðið að lögum. Þannig að það eru kannski mín lokaorð í þessari ræðu, sem átti ekki að verða alveg þetta löng, að dómsmálaráðuneytið mætti nú fara að slá aðeins í klárinn varðandi þetta, taka á því félagaformi sem bent hefur verið á sé hættast við því að verða vettvangur peningaþvættis og jafnvel fjármögnunar hryðjuverka, sem eru trúfélög og lífsskoðunarfélög. Þetta eru jólaskilaboðin.