Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[18:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að tefja þetta mál mikið enda hafa þegar komið fram ágætir punktar varðandi ástæðurnar fyrir þessu frumvarpi. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er hér verið að reyna að ná til um 8% skráðra lögaðila sem ekki hafa sinnt skráningarskyldu um hverjir eru raunverulegir eigendur. Það hefur sannarlega verið til mikils gagns og gagnsæis að geta séð hverjir eru raunverulegir eigendur félaga. En ég hef samt frá því að þetta frumvarp kom fyrst fram á síðasta þingi, það var víst, held ég, fyrr á þessu ári, bent á að það er ákveðinn formgalli í því hvernig þetta var allt saman framkvæmt. Það tengist í raun tækni og tölvum frekar en nokkru öðru. Það er nefnilega þannig að þegar lög um raunverulega eigendur voru sett þá var skilyrði sett inn í lögin sem gekk út á það að það ætti — og þar er verið að fylgja því sem þessi sérstaki fjármálaaðgerðahópur var að segja — að eltast við það hverjir eru á bak við annars vegar fyrirtæki og hins vegar er líka horft til samtaka með samfélagslegt starf. Í lögunum var einfaldlega sagt að þetta gilti um þau fyrirtæki sem skráð væru í fyrirtækjaskrá eða þá lögaðila sem skráðir væru í fyrirtækjaskrá.

Í að minnsta kosti einni umsögn við þetta mál bendir einstaklingur á að lög um skráningu raunverulegra eigenda samræmist ekki hlutum eins og t.d. því hvernig áhugamannafélög og ýmislegt annað er skilgreint. Er í rauninni einhver raunverulegur eigandi bak við áhugamannafélag um kríur á Suðurlandi, svo ég taki bara eitthvert dæmi? Er það raunverulegur eigandi? Þegar þessi lög fóru í gegn þá sat ég í stjórn Rauða kross Íslands og ég var skráður sem raunverulegur eigandi, sem einn af stjórnarmönnum var ég orðinn raunverulegur eigandi Rauða kross Íslands. Í fyrsta lagi stríðir það bara gegn lögum um Rauða krossins og alþjóðasamþykktum um Rauða krossinn. Ég get ekki verið eigandi þeirra samtaka, miðað við hvernig þau eru sett upp út frá lögum og öðru.

Það kemur fram líka í greinargerð frumvarpsins að hluti af þessum 1.300 aðilum sem eru enn þá ekki búnir að skila inn upplýsingum séu almenn félagasamtök, áhugamannafélög, jafnvel húsfélög og ýmis önnur félög sem stunda ekki atvinnurekstur, hafa litla starfsemi og eiga oft ekki neinar eignir einu sinni. Bæði ég og þessi einstaklingur sem greinilega skilaði umsögn og ég veit ekki hver er en er sammála viðkomandi bendum á þetta. Á núna að fara að loka fullt af áhugamannafélögum og félagasamtökum af því að — og hér kemur rúsínan í pylsuendanum — eina leiðin til að fá kennitölu er að vera skráður í fyrirtækjaskrá? Tölvukerfið sem Skatturinn ákvað að nota til þess að úthluta kennitölu til félagasamtaka, húsfélaga og annarra sem þurfa á kennitölu að halda, kannski til að opna bankareikning fyrir húsfélagið, var fyrirtækjaskrá. Þarna erum við farin að láta tölvurnar ráða einum of miklu af því að menn nenntu ekki að búa til sérstaka félagaskrá eða hvað við eigum að kalla það fyrir aðila sem eru ekki fyrirtæki, ekki endilega lögaðili, meira svona áhugamannafélag eða eitthvað slíkt. Við nenntum ekki að búa til nýtt tölvukerfi í kringum það þannig að við settum þessi félög inn í fyrirtækjaskrá og ákváðum allt í einu að allar þessar reglur giltu um þau en alþjóðlegi aðgerðahópurinn var aldrei að biðja um að öll þessi félög færu í gegnum þetta ferli. Allt í einu þurftu þau að fara í gegnum það.

Fyrst þessar athugasemdir eru búnar að koma fram, bæði í umræðu hér á síðasta þingi og eins í vinnu nefndarinnar núna og það kom umsögn um nákvæmlega þetta, og ég sé ekki neitt um það í nefndarálitinu að félagasamtökin hafi verið sérstaklega skoðuð, þá hefði ég viljað að nefndin skoðaði þetta aðeins betur og athugaði hvort ekki væri hægt að gera einhverjar breytingar á þessu þannig að við séum ekki að fara að loka á fullt af félagasamtökum. Þar sem þetta frumvarp á eftir að fara til 3. umr. þá legg ég til, frú forseti, að efnahags- og viðskiptanefnd taki alla vega örstutta umræðu, þótt ekki væri nema örstutta, um hvort ekki sé hægt að skoða þetta með félagasamtökin og áhugamannafélögin og annað þannig að við séum ekki allt í einu að missa niður fullt af merkum og mikilvægum félagasamtökum og áhugamannafélögum af því að kannski fengu þau ekki einu sinni tölvupóst um að þetta þyrfti að gera. Ég legg til að þetta sé skoðað af nefndinni, a.m.k. að það sé rætt. Ef nefndin er sammála um að þetta eigi að gerast þá verðum við að hlíta því. En ég sé ekki í nefndarálitinu að að þau hafi rætt það og ég myndi gjarnan vilja sjá það.