Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (hluthafafundir o.fl.). Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá menningar- og viðskiptaráðuneyti og Margréti Arnheiði Jónsdóttur og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Nefndinni barst sameiginleg umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins auk umsagnar frá Viðskiptaráði Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneyti.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Í fyrsta lagi er lagt til að hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði verði heimilað að ákveða í samþykktum sínum tiltekin atriði er varða hluthafafundi. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög þess efnis að hafi félag þegar verið afskráð samkvæmt heimild í lögunum sé hlutafélagaskrá heimilt að krefjast skipta á félaginu að liðnu ári frá afskráningu enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik. Í þriðja lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um ársreikninga, m.a. um skil ársreikninga á rafrænu formi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja aðeins að meginefni frumvarpsins. Frumvarpinu er skipt í þrjá kafla eins og ég greindi frá, en í því er að finna tillögur að breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga. Þær tillögur sem eru lagðar til í I. kafla varða breytingar á lögum um hlutafélög og þær eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða tillögur til breytinga á þremur ákvæðum laganna er öll varða heimildir félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði til að kveða á um ákveðna þætti er varða hluthafafundi í samþykktum sínum. Í fyrsta lagi er lagt til að framangreind félög geti kveðið á um það í samþykktum sínum að hluthafi skuli tilkynna þátttöku í hluthafafundi innan tiltekins tíma. Í öðru lagi er lagt til að félögin geti ákveðið í samþykktum sínum lengri frest en tíu daga fyrir hluthafa til að gera kröfu um að fá ákveðin mál tekin til meðferðar á aðalfundi. Í þriðja lagi er lagt til að hámarksboðunarfrestur aðalfundar í skráðum félögum geti verið allt að sex vikur. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að í þeim tilvikum þar sem félag er afskráð, samkvæmt heimild í 108. gr. laganna, sé hlutafélagaskrá heimilt að krefjast skipta á félaginu að liðnu ári frá afskráningu, enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið verði skráð á nýjan leik. Fer um skiptin skv. 109. gr. laganna.

Í II. kafla er lögð til breyting á lögum um einkahlutafélög en um er að ræða sams konar breytingu og lögð er til á lögum um hlutafélög og varðar heimild hlutafélagaskrár til að krefjast skipta á félagi sem afskráð hefur verið skv. 83. gr. laga um einkahlutafélög, enda hafi þá ekki borist beiðni um að félagið skuli skráð á nýjan leik. Fer um þá skiptingu skv. 84. gr. laganna.

Í III. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um ársreikninga. Breytingarnar eru þríþættar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á tilvísun í 2. málslið 66. gr. b í lögunum, en ákvæðið varðar yfirlýsingu stjórnarmanna tiltekinna félaga. Í öðru lagi er lagt til að skil ársreikninga verði eftirleiðis rafræn í samræmi við reglur sem ríkisskattstjóri setur en gert er ráð fyrir að breytingin komi til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2022 eða síðar. Í þriðja lagi er lagt til að ekki verði unnt að skjóta til æðra stjórnvalds ákvörðunum ársreikningaskrár um að krefjast skipta á búi félags sem ekki hefur skilað ársreikningi að liðnum sex mánuðum frá því að frestur til skilanna rann út eða frá því að ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi.

Virðulegur forseti. Þrátt fyrir almennan stuðning við tillöguna í umsögnum sem bárust nefndinni kemur fram það sjónarmið að lengra mætti ganga en að heimila slíkt eingöngu í samþykktum skráðra félaga og leggja umsagnaraðilar til að heimildin taki til allra hlutafélaga. Nefndinni barst minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem kemur fram afstaða þess til umsagna sem bárust nefndinni, m.a. bendir ráðuneytið á að heimildin sem lögð er til í 1. gr. yrði meira takmarkandi fyrir hluthafa í hlutafélögum almennt þar sem heimildin geti takmarkað möguleika hluthafa til að nýta réttindi sín í félagi á hluthafafundi. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið ráðuneytisins og telur ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu að þessu leyti.

Að því sögðu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að frumvarpið verði samþykkt. Undir álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Guðrún Hafsteinsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Guðbrandur Einarsson, Jóhann Páll Jóhannsson og René Biasone.