Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni nefndarálitsins, Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, fyrir góða framsögu. Ég held að það sé mikilvægt mál sem verið er að leggja fram hérna. Það er náttúrlega eitt að horfa á hluthafafundina og við þurfum eflaust, eins og var verið að ræða áðan, að hugsa hvort þeir eru eitthvað að breytast á nútímaöld, en ég ætla ekki að horfa sérstaklega á það. Mig langaði að fá dýpri útskýringu, af því ég er nú tiltölulega nýr í þessu og ekki lögfræðimenntaður nema að því leyti að við lesum hér lög á hverjum degi, og langaði að spyrja hv. þingmann út í III. kaflann, um að setja kröfur á að skila reikningum og að í raun sé hægt að slíta félögum sem ekki uppfylli þær kröfur. Mig langaði að spyrja aðeins varðandi þann part: Skil ég það rétt að til þess að hægt sé að slíta félagi sem ekki skilar inn ársreikningi þurfi að fara með það fyrir dómstóla, fyrir héraðsdómara? Ég held að ég hafi lesið það einhvers staðar. Ef farið er með málið þangað og viðkomandi segir: Já, þeir eru ekki búnir að skila, skil ég það rétt að þá sé hægt að slíta félaginu og ekki hægt að áfrýja því lengra en bara í þennan héraðsdóm?