Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér finnst svolítið skrýtið að við séum hér að fjalla um þessi lög og gefa loforð um samninga þegar ekki er búið að klára þessar samningaviðræður við sveitarfélögin. Kannski nást þeir samningar ekki og hvað gerist þá? Þá erum við enn og aftur búin að lofa fullt af samningum sem við getum ekki staðið við. Það er eitt.

Annað er það að hæstv. ráðherra nefndi að það væri ekki hægt að gefa út óútfylltan tékka, en í rauninni gerum við það í mörgum tilvikum; endurgreiðsla á nýsköpun og kvikmyndum, jafnvel bara í tryggingakerfinu okkar vegna þess að við vitum aldrei hversu margir verða öryrkjar á næsta ári. Af hverju erum við að takmarka okkur við ákveðna upphæð í þessu þegar það ætti að vera út frá þörfinni en ekki hvað við ákveðum nákvæmlega að talan sé hverju sinni?