Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í beinu framhaldi: Þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, var samþykkt með atkvæðum allra þingmanna á Alþingi Íslendinga í september 2010. Samþykkt var að skýrsla rannsóknarnefndarinnar yrði vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og mikilvægt að skýrslan yrði höfð að leiðarljósi í framtíðinni; að brýnt væri að starfshættir þingsins yrðu teknir til endurskoðunar, að Alþingi myndi verja og styrkja sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk, að taka yrði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega með áherslu á að af henni yrði dreginn lærdómur. Einnig var ályktað að skýrslan væri áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi þeirra og skorti á formfestu.

Loks, herra forseti, var ályktað að farið yrði í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá, lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm, lögum um Stjórnarráð, stjórnsýslulögum og upplýsingalögum svo að eitthvað sé nefnt. Ég nefni þetta bara hér í dag vegna þeirra verka sem eru einmitt núna til meðferðar á Alþingi, svo sem skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandsbankasöluna þar sem ráðherrar og stjórnarþingmenn keppast við að lýsa yfir ábyrgðarleysi hæstv. fjármálaráðherra; svo sem meðferð allsherjar- og menntamálanefndar á frumvarpi um útlendingalög sem umsagnaraðilar hafa sagt að brjóti gegn grundvallarmannréttindum fólks um heilbrigðisþjónustu, mannsæmandi aðstæður og fleira; svo sem vegna nýs úrskurðar kærunefndar útlendingamála sem setur þær skyldur á stjórnvöld að sækja nærri 30 flóttamenn, sem hent var á götuna í Evrópu, en eiga rétt á efnismeðferð mála sinna hér á landi.

Hver, herra forseti, ætlar að bera ábyrgð? Ekki ráðherrar, ekki stjórnarliðar sem láta svona hluti viðgangast í krafti meirihlutaafls. Það er kannski helst almenningur með skattpeningum sínum sem þarf að bera ábyrgð, peningum sem er ráðstafað til þess að greiða fyrir ábyrgðarleysi þeirra sem fara með völd. (Forseti hringir.) Við ættum kannski öll sem eitt að lesa aftur yfir rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Ég held að við hefðum öll gott af því að draga ákveðinn lærdóm af þeirri lesningu.