Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:12]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans svar. Þá vil ég bara leyfa mér að segja í mínu seinna andsvari að ég skynja ekki alveg stefnu hv. þingmanns þegar ég les nefndarálit hans og hverju hann vill breyta. Ég skal virða hans skoðanir um að það hafi verið erfitt að leggja til einhverja milljarða til eða frá og það sé kannski ekki endilega rétta leiðin. En ég lýsi aftur á móti efasemdum mínum um að það sé hægt að finna hina einu réttu tölu út frá einhverjum kerfislægum þáttum sem hv. þingmaður er svo tamt að ræða hér í formi eða í aðferðafræði. Því miður þá erum við þar bara algerlega ósammála. En mig vantaði pólitíkina í nefndarálit og ræðu hv. þingmanns sem ég myndi þá kannski kalla eftir í seinna andsvari ef hann hefur hana. En ég vil líka ræða þessar örfáu breytingartillögur sem hv. þingmaður rekur og segist hafa verið að bæta þar úr augljósum vanköntum. Ég er nú bara kátur að sjá að þeir eru ekki fleiri. (BLG: Þeir eru fleiri.) Nú verð ég bara að játa, virðulegur forseti, að ég var ekki kannski alveg að hlusta fyrst því hv. þingmaður byrjaði sína ræðu á að ræða breytingartillögurnar. En hann er hér með breytingartillögu um fjarskipti og ég vil biðja hann að útskýra hana aðeins betur því að að mínu viti þá erum við nú að stíga skref í fjarskiptum í fjárlagafrumvarpinu, nokkuð merkileg skref, sem fyrst og fremst varða netöryggismál og þann þátt. En ég veit ekki í hvaða átt hv. þingmaður er að beina þessari tillögu.