Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Það er erfitt að koma upp á eftir svona heitum orðaskiptum sem fram fóru hér að framan en ég mun gera mitt besta. Fyrr í haust átti ég þess kost að heimsækja Alþjóðabankann og hitta íslenska starfsmenn hans og íslenska starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar fóru fram afar áhugaverðar umræður um þróun efnahagsmála og hvernig efnahagsmál myndu þróast á næstu misserum og ekki síður hvernig efnahagsmál væru að þróast hjá hinum ýmsu þjóðum og ýmsum heimshlutum í kjölfar heimsfaraldurs. Það kom alla vega skýrt fram að þar var glíman misjöfn, misjafnar aðstæður á milli þjóða og augljóst að engin ein lína var rétt í þeim efnum eða hægt að leggja einn mælikvarða yfir þróun efnahagsmála heilt yfir. Við áttum við heimsfaraldur stríða. Við Íslendingar tókumst á við heimsfaraldur í upphafi með mjög vel stæðan ríkissjóð og gátum brugðist við með því að verja atvinnutækin og störfin og ég held að staða ríkisfjármála beri þess rækilega vitni. Okkur tókst að verja samfélag okkar allra. Öðruvísi er vart hægt að túlka þann viðsnúning sem orðið hefur á málum hér á landi og ekki þarf að horfa mjög víða til að sjá að það gengur verr að ná tökum á efnahagsmálum en hér á landi.

Virðulegur forseti. Það má segja að það sé auðveldara að bregðast við áföllum og móta viðbrögð við kreppu þegar frá líður en ekki á meðan við stöndum frammi fyrir kreppunni. Hagfræðingur á fundi okkar orðaði það svo: Við bregðumst oftast við kreppu með tækjum og aðferðum sem hefðu dugað í kreppunni sem reið yfir síðast. Það má með talsverðri einföldun segja að viðbrögð okkar nú hefðu hæft betur því efnahagshruni sem varð hér fyrir rúmum áratug. Í raun og veru varð niðurstaða okkar fundar sú að hagfræðin ætti ekki einhlít svör um hver viðbrögð þjóð ættu að vera við skyndilegri kreppu í heimsfaraldri og ofan í kaupið að stríð hefði brotist út í Evrópu. Heimsfaraldurinn var í sjálfu sér nóg en við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að ófriðarástand hefur haft mikil áhrif á þróun efnahagsmála og það snertir okkur og ekki síst helstu viðskiptaþjóðir okkar. Allt hefur þetta áhrif sem ekki er hægt að spá nákvæmlega fyrir um hvernig fer.

En hvernig á þá að bregðast við? Ég leyni því ekki að með því að skoða og reyna að skilja viðbrögð við efnahagsástandi dagsins í dag þá má sjá víða fjölbreyttar aðgerðir sem ráðist er í, m.a. þær að nú mælir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með inngripum í frjálsan markað og viðurkennir að niðurgreiðslur og aðgerðir til þjóða til að glíma við hátt orkuverð, a.m.k. til heimila, séu verjanlegar. Þetta eru talsverð tíðindi en ég held að þau séu skiljanleg. En það hefði einhvern tíma þótt tíðindi að slík viðurkenning bærist úr þeirri átt. Í raun má segja að umræða okkar í haust hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að ekkert eitt ráð væri augljóst annað en að halda vel utan um ríkisfjármálin og beita ríkissjóði með skynsamlegum hætti eftir þeim sveiflum sem efnahagslífið væri að sveiflast eftir. Líklega liggur svarið ekki fyrir fyrr en hagfræðingar reyna að greina viðbrögð við efnahagskreppu seinni ára, við efnahagskreppu heimsfaraldursins, og þá verða væntanlega ráðin skýr þegar frá líður. Okkar leið hér á landi var að verja störf og verðmæti og standa með heimilum og fyrirtækjum, láta sterkan ríkissjóð milda efnahagslegan samdrátt með stuðningi en ekki síst að ráðast í fjárfestingar og uppbyggingu.

Einni meginástæðunni fyrir áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs á næsta ári eru einmitt ágætlega gerð grein á bls. 4 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ein meginskýringin á því að gjöldin lækka ekki á næsta ári, þrátt fyrir að áhrifa heimsfaraldurs gæti mun minna en áður, er sú að aðgerðir vegna Covid-19 ná yfir lengra tímabil. Nefna má að fjárfestingarátak sem ákveðið var á fyrsta ári faraldurs stendur enn yfir auk stuðnings við rannsóknir og nýsköpunar- og þróunarstarf.“

Og þar fram eftir götunum og mætti lengi telja. Við erum enn að hreinsa út úr kerfi ríkissjóðs áhrifin af heimsfaraldrinum og við stöndum enn þá með stórt gat og hallarekstur á ríkissjóði.

Við vorum hér fyrir réttu ári síðan að ræða og samþykkja fjárlög og vorum hóflega bjartsýn með framtíðina. Við höfðum sem áður vandaðar áætlanir er við samþykktum fjárlögin með um 190 milljarða kr. halla. Rétt eins og við ræddum í umræðu um fjáraukalög þessa árs núna fyrir nokkrum dögum síðan raungerðist ekki sá mikli halli. Niðurstaðan varð mun hagfelldari, spár og veruleiki eru sitthvort en niðurstaða ársins var mun betri. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023 tel ég að beri raunverulega sama boðskap í för með sér, mikill þróttur og kraftur í efnahagslífi sem muni á endanum leiða til minni hallareksturs. Heildartekjur allra tekjuhópa hafa hækkað undanfarin ár, kaupmáttur hefur aukist og byrði tekjuskatts minnkaði hjá öllum hópum nema þeim tekjuhæstu og þá er einnig undirstrikað að jöfnuður sé óvíða meiri en á Íslandi og hlutfallsleg fátækt samkvæmt mælingum OECD mælist hvergi minni.

Í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem birt var 30. nóvember sl., er nú áætlað að verg landsframleiðsla fyrstu níu mánuði ársins 2022 hafi aukist um 7,4% af raunvirði og borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2021. Svo hár hefur vöxtur fyrstu níu mánaða ekki mælst síðan árið 2007. Þjóðarútgjöld jukust á sama tíma um sömu prósentu, eða um 7,4%. Þar af reyndist vöxtur einkaneyslu um 10,9%, samneyslu um 1,9% og fjármunamyndun um 5,2%. Útflutningur jókst um 22,9% að raunvirði en innflutningur um 22,1%. Minnt skal á að forsendur fjárlagafrumvarpsins í haust voru byggðar á sumarspá Hagstofunnar um 6% hagvöxt á yfirstandandi ári. Á næsta ári er gert ráð fyrir að hægi á vexti innlendrar eftirspurnar og hagvöxtur næsta árs verði um 2%, en í sumarspánni var hann áætlaður um 2,7%. Samkvæmt venju hefur tekjuáætlun og hagspá í meðferð frumvarpsins verið endurmetin. Lægri hagvaxtarspá á næsta ári er því ekki forsendubrestur heldur munum við byrja nýtt ár á mun sterkari og hærri landsframleiðslu en sumarspáin sagði til um.

Rétt eins og fyrir ári síðan gerum við okkur vonir um að afkoma ríkissjóðs verði betri en frumvarpið gerir ráð fyrir en við reisum ekki setningu fjárlaga á vonum og væntingum heldur leggjum til grundvallar þau gögn sem við ætlum að fangi þróun mála hvað best. Á það skal minnt, og er ekki ný staðreynd, að okkur gengur ekki alltaf vel að fanga með spám veruleika efnahagsmála í sterkri uppsveiflu. Að sama skapi fylgjum við ekki alltaf vel eftir spám í kröppum samdrætti.

Það má lengi deila um við hvað við eigum að styðjast við við gerð fjárlaga en þetta eru alla vega þau stuðningstæki sem við notum og mikilvægt að við höldum því til haga að hafa samfellu í hvernig við notum þessi stuðningstæki. Er þá ekki eðlilegt að spurt sé hvort útgjöld séu ekki þanin um of? Er ekki verið að tefla í tvísýnu? Ég held að það sé spurningin sem okkur sé hollt að ræða í þessari umræðu. Ég held að svörin við þeirri spurningu geti verið mörg. Viðbætur hér á milli umræðna eru gríðarlega miklar en ég minni á að hagspár skýra það að stórum hluta. Við getum líka sagt að fjárlaganefndin hafi metið það svo að veikleikar væru í áætlanagerð í framlögðu frumvarpi og við því hafi þurft að bregðast með endurskoðun útgjalda. En meginmálið er, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin er innan fjármálastefnu sinnar og fylgir þeirri stefnumörkun sem birtist þar og í fjármálaáætlun. Ég held að þeir sem gagnrýna útgjöld og telja þau of mikil hafi vissulega nokkuð til síns mál en á móti kemur að við erum að fylgja þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og erum ekki að brjóta á þeirri fjármálastefnu sem ríkisstjórnin þá starfar eftir. Þetta frumvarp styður við þau markmið sem við höfum sett okkur í þróun efnahagsmála og peningamálastefnu, frumvarpið veikir ekki þau markmið.

Ég vil minna á að hér erum við að ráðast í talsvert aukin útgjöld án þess að komi til skattahækkanir, án þess að setja á hvalrekaskatta, eða hvað allir þessir skattar eru nefndir, til þess að láta afkomu ríkissjóðs á nokkurn hátt líta betur út. Líka má skoða þennan útgjaldaauka sem áherslur sem ríkisstjórnin vill leggja í kjölfar þess að hafa lagt fram fjárlagafrumvarp, í kjölfar þess að hafa fengið umsagnir um frumvarpið, í kjölfar þess að nefndin hefur unnið með frumvarpið og metið hversu áreiðanlegar þær áætlanir eru og þá er líka eðlilegt að horfa til þessa. Við því verður að bregðast.

Mig langar, virðulegi forseti, að gera að umtalsefni nokkur útgjaldatilefni sem mér finnst ástæða til að við stöldrum við. Ég vil nefna þar fyrst stóraukin útgjöld til löggæslu og fullnustumála. Líklega hefur ekki verið ráðist í jafn mikla eflingu á þeim málaflokki og raun ber vitni nú frá því að ákvörðun um byggingu á Hólmsheiði var tekin, þar sem ráðist var í síðustu stóru fjárfestingu og endurbætur í fullnustukerfinu, þ.e. þar til þær tillögur sem nú liggja á borðinu komu fram. Þá má heldur gleyma þeim áætlunum sem birtar voru í fjármálaáætlun síðastliðið vor um uppbyggingaráform í málaflokknum sem þar voru útskýrð.

Varðandi löggæsluna hefur þörfin fyrir sterkari umgjörð og betri fjármál löggæslunnar verið viðfangsefni sem fjárlaganefnd hefur vakið athygli á, m.a. í fyrra með breytingartillögu um að lækka aðhald á málaflokk lögreglu. Fjárlaganefnd jók síðan í breytingartillögum sínum við fjármagn til lögreglu, þ.e. hún sendi þau stefnumarkandi skilaboð til ríkisstjórnarinnar að við viljum að aðhaldskrafa sem gerð er á málaflokk löggæslunnar sé lág eða næsta engin, svona í samræmi við aðra grunnþjónustu í þessu samfélagi. Ég vísa til framsöguræðna sem haldnar voru hér í dag. Þá vil ég árétta að þetta er stuðningur og réttur skilningur á áherslu meiri hluta fjárlaganefndar í þeim efnum þegar við ræðum um fjármögnun löggæslunnar.

Veruleg hækkun framlaga til heilbrigðismála er gerð hér á milli umræðna. Ég nefndi áðan veikleika í áætlanagerð. Meiri hlutinn gerði að umfjöllunarefni í nefndaráliti með fjáraukalögum, að gefnu tilefni, veikleika í áætlanagerð, sérstaklega vegna lyfjakostnaðar, og ég vísa til þess sem meiri hluti fjárlaganefndar lagði frá sér í nefndaráliti.

Um fjármál heilbrigðiskerfisins mætti halda langa ræðu. Hér eru sjónarmið um að það eigi að tengja útgjöld til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu, sem ég tel ekki mjög heppilegan mælikvarða, en hver svo sem sjónarmiðin eru vil ég þá frekar fjalla um það hvaða styrk við höfum til sterkrar og góðar fjármálastjórnunar eða fjárstýringar í málaflokknum, hvort eftirfylgni með markmiðum sé byggð þannig upp að markmiðin séu skýr sem sett eru og þau séu mælanleg. Fjárlaganefnd hefur lagt mikinn tíma í að ræða fjármögnun heilbrigðiskerfisins, málaflokk sem tekur til sín langstærstan hluta þeirra fjármuna sem fjárlög kveða á um eða um 330 milljarða kr. Nú vil ég aðeins segja að verkefni heilbrigðisráðherra á hverjum tíma er gríðarlega mikið og mikilvægt, en ég held að það sé eðlilegt að við veltum líka upp ákveðnum spurningum sem okkur væri hollt að ræða, kannski á öðrum vettvangi, eins og hvort skipulag stofnana heilbrigðiskerfisins sé það besta til að nýta fjárveitingarnar eða fjármunina eða hvort það er flækjustig í flæði upplýsinga á milli embætta eða hvort yfirsýn yfir málaflokkinn sé ábótavant.

Ég held að svarið við þessum spurningum geti verið já, en samt verð ég að segja að það er: Já, en, já, en. Ég er ekki í nokkrum vafa um að sjónarmið forstjóra Landspítalans um betri upplýsingakerfi og stafvæðingu gagna sé stór hluti af svarinu um það hvernig við getum eflt yfirsýn. Að sama skapi, eins og við höfum oft rætt í þessum sal, er mikilvægt að ljúka innleiðingu DRG-einingakerfisins og að við förum að ná til lands í þeim efnum og brýn nauðsyn að ná samningum við sérfræðilækna.

Svona atriði mætti lengi telja en í umræðu um fjárlagafrumvarpið er kastljósið mjög á mikilvægustu stofnun okkar, Landspítalanum, en minna á heilbrigðisstofnunum úti um land. En við þurfum ekki síður að ná að greina betur og skilja stöðu heilsugæslunnar. Bæði heilbrigðisstofnanir og heilsugæslurnar gegna lykilhlutverki í að minnka álag á Landspítalann og þess vegna eru tillögu hér við 2. umr. fjárlaga mjög mikilvægar til að bregðast einmitt við þeim þætti, að við gerum hvað við getum til að minnka álag á Landspítala. Í breytingartillögum okkar eru síðan fjölmargar aðrar aðgerðir sem lýsa mætti nánar og ræða nánar, eins og að ráðast að mönnunarmálum.

Þá vil ég ekki gleyma umræðu um mönnunarmál heilsugæslna úti á landsbyggðinni og mönnunarmálum almennt í heilbrigðiskerfinu, vilja fólks til að vinna við þær aðstæður sem þar eru skapaðar. Í kjölfar heimsfaraldurs held ég að það sé nauðsynlegt að heilbrigðisyfirvöld ræði við þessar starfsstéttir allar um hvernig við getum aftur endurreist merki þessa starfs og skilið áhyggjur þeirra starfsmanna sem þar vinna og sumir hverjir ákveða að hætta að starfa við og hvernig við ráðumst síðan í aðgerðir til að ráða bót á því að við fáum menntað starfsfólk heilbrigðiskerfis til að setjast að og taka til starfa í heilbrigðisstofnunum í kringum landið.

Mönnunarvandamál heilbrigðisstofnana úti um land er eiginlega sjálfstætt umræðuefni en risastórt vandamál. Við erum hérna með byggðarlög í landinu sem hafa ekki aðgang að lækni öðrum en þeim sem fást til skamms tíma til afleysinga. Það segir sig sjálft að við slíkar ráðstafanir slitnar ákveðinn þekkingarþráður sem þarf að myndast í slíkri starfsemi þar sem læknir hefur ákveðna innsýn inn í líf samfélags og sjúklingur þarf ekki á hverjum einasta tíma að byrja á að setja nýjan lækni inn í þær aðstæður sem hann býr við eða við það sem hann er að glíma.

Ég ætla ekkert að fara mikið dýpra í þessa umræðu hér en okkur er tamt að nefna svæði í okkar eigin kjördæmum. Ég ætla ekki að fara út í langa lista í þeim efnum en aðeins að segja að mönnunarmál heilbrigðisstofnana allt í kringum landið eru ekki bara fjárhagsmál þeirra heldur líka verkefni samfélaganna þar, hvernig við tökum á móti þessu starfsfólki, af hverju það vill ekki velja sér búsetu úti á þessum svæðum. Ég hvet eindregið til þess að við tökum upp miklu breiðara samtal heilbrigðisyfirvalda og sveitarstjórna á þeim svæðum þar sem þessi vandamál eru og við ræðum hvernig fleiri geta lagt fram tillögur, lagt fram úrbætur til að skapa eftirsóknarvert umhverfi til að fólk ráðist til starfa.

Ég er ekki í vafa um kosti þess að leita frekar út fyrir hið opinbera rekna heilbrigðiskerfi, að þar eru vannýttir möguleikar, og ég fagna áformum heilbrigðisráðherra um að nota fjármuni til þess að létta á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum, að leita út fyrir hið opinbera kerfi. En að sama skapi er mikilvægt að við nýtingu þeirra fjármuna um 750 millj. kr. verði gert það sama og við gerðum hér fyrir nokkrum árum þegar sambærilegt átak var gert, að fjármunir verði nýttir á grundvelli verðkönnunar og hagkvæmni. En meginmálið er að efla fjárstýringu og mælingarmat á árangri og mat á gæðum heilbrigðisþjónustu. Það eru því eindregin tilmæli mín til ráðuneytis heilbrigðismála og fjármálaráðuneytis að þau virki sameiginlega krafta sína til þess að efla fjárstýringarþáttinn. En í því samhengi, og þá ekki vegna heilbrigðismála sérstaklega, vil ég segja að okkur á Alþingi ber líka að líta í eigin barm: Hvaða aðhald veitir Alþingi? Hvernig rækjum við hlutverk okkar og skyldur? Ég þekki þá sögu nokkuð vel hvernig þingið rýndi hér á árum áður og veitti aðhald með allt öðrum hætti en við gerum nú eða komumst í að gera nú og hv. formaður fjárlaganefndar boðaði í sinni framsögu við meirihlutaálit hér áðan að fjárlaganefnd mun þurfa og ætlar að efla þann þátt í starfi sínu á komandi ári.

Virðulegur forseti. Ég mun á vettvangi nefndarinnar þurfa að leggja fram hugmyndir mínar í þeim efnum en ekki hér í þingsal og ná samstöðu um þær með allri nefndinni hvernig og hvaða vinnubrögð við getum beitt við við okkar eftirlitshlutverk. Mér finnst það standa næst okkur að ræða það og móta það starf og, rétt eins og hv. formaður fjárlaganefndar nefndi í sinni framsögu, leggjast yfir og meta árangurinn af útgjöldum þar sem við höfum aukið verulega framlög. Mér finnst svona fyrsta kastið að það eigi að vera forgangsverkefni fjárlaganefndar að leggjast yfir það að meta þá málaflokka sem við höfum verulega aukið fjármuni til á undanförnum árum, hvernig nýting þeirra fjármuna er og hvernig þau markmið sem við settum okkur hafa gengið fram og reyna að leggja einhvern dóm á þær aðgerðir okkar.

Fyrstu fjárlög eftir lagabreytingu um opinber fjármál 2015, voru samþykkt á Alþingi haustið 2017. Frá þeim tíma hafa áherslur í umfjöllun nefndarinnar verið á málefnasvið og málaflokka. Áður voru fjárveitingar til einstakra viðfangsefna í sterkara kastljósi í umfjöllun Alþingis. Þessu fyrirkomulagi fylgja kostir og gallar. Kostirnir eru þó mun fleiri og meiri og markvissari vinna er við að ræða stefnumörkun og forgangsröðun. Þetta þýðir að ráðherrar viðkomandi málaflokka svara meira fyrir fjármögnun einstakra viðfangsefna og stofnana en það þýðir ekki að Alþingi eða fjárlaganefnd hafi ekki hlutverki að gegna í þeirri umræðu. Því er afar mikilvægt að stefnumörkun og ráðstafanir, sem sumar hverjar eru ákvarðaðar af Alþingi eða með beinum hætti með aðgerðum ráðherra, séu gegnsæjar og markvissar. Það verður að segjast eins og er að það blasir við núverandi meiri hluta fjárlaganefndar að skerpa má á því að ráðherrar upplýsi betur um væntanlegar aðgerðir sínar sem hafa með beinar pólitískar áherslur að gera og áhrif á starfsemi stofnana. Sérstaklega er hér átt við starfsemi stofnana ríkisins eða verkefni á þeirra vegum sem flutt hafa verið út á landsbyggðina.

Það eru eðlileg og augljós ástæða fyrir því að við dreifum með markvissum hætti störfum ríkisins um landið. Eðli verkefna og stofnana er með þeim hætti að í nútímaumhverfi er það ekki flókin aðgerð. Markvisst hefur verið unnið að því að dreifa störfum út um land. Störf án staðsetningar eru til að mynda leið til þess. Það er að hluta til svar við gagnrýni á það að flytja starfandi stofnanir út á land en miklu frekar að stofnanir ræki hlutverk sitt á grunni þess að þær séu að þjóna öllu landinu. Langoftast er það mjög vel gert og hefur ekki aðeins þýðingu fyrir þá starfsmenn sem hafa þá þann kost að velja sér búsetu óháð staðsetningu stofnunar eða starfs. Þá hefur það haft gríðarleg áhrif og mikilvæg á viðkomandi byggðarlög þar sem viðkomandi starfsmenn eru búsettir. Aukin fjölbreytni starfa hefur margvísleg og jákvæð áhrif á samfélög.

Stundum eru störf flutt með pompi og prakt út á land. Þingmenn viðkomandi kjördæma fagna, stjórnarþingmenn fagna djörfung ríkisstjórnar sinnar, samflokksmenn fagna ráðherrum sínum og sveitarstjórnarmenn á viðkomandi svæðum fagna að sama skapi að verið sé að efla þeirra byggðarlög með störfum sem auka flóru atvinnulífsins. Svo líður tíminn, en minni athygli er á því þegar störfin leka til baka. Það er einn af fylgifiskum breyttar umræðu um fjárlög og pólitískt aðhald að umræða um það þegar stofnarnir taka störf til baka eða færa í önnur héruð er ekki hér á borðinu. Það eru helst sveitarstjórnarmenn sem þurfa að bera þann kyndil og það merkilega er að margar sveitarstjórnir verða að sérstöku baráttuafli fyrir viðkomandi stofnanir. Um þá má nefna fjölmörg dæmi. Forstöðumenn stofnana eru oft og tíðum í þröngri stöðu. Þeir þurfa að halda rekstri sínum innan heimilda. Þá sýnist það oft vera þægilegasta leiðin að skera niður í starfsemi sem er lengra frá viðkomandi höfuðstöðvum. Eitt eru breytingar á starfsemi og ný stefnumörkun, hlutverki stofnunar er breytt eða hún lögð niður. Annað er þegar smám saman er látið undan síga. Niðurstaðan er stundum að störfin hverfa smám saman aftur til viðkomandi höfuðstöðva. Forstöðumenn virðast áreynslulaust, oft án umræðu, geta flutt störf til að halda rekstri sínum innan heimilda og án þess að ráðuneyti geri athugasemdir við staðfestingu niðurlagningu starfa og/eða flutning eða athugasemdir við samþykkta rekstraráætlun.

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að flytja hér þennan kafla ræðunnar um hvernig störfin leka stöðugt frá landsbyggðinni til baka til höfuðstöðvanna. Ég er ekki að fella þann dóm að þar sé allt saman illa gert. Ég er einungis að draga fram að til viðbótar því hlutverki sem fjárlaganefnd gegnir um aðhald, hvernig við nýtum fjármuni, hvernig þau markmið og stefnu sem við setjum okkur á hverjum tíma er fylgt eftir og hvernig við nýtum viðbótarfjármuni og hvaða árangri við höfum náð þá eigum við ekki að gleyma því hlutverki okkar að fá ráðherra, sama í hvaða flokki þeir eru og hvort sem þeir eru í meiri hluta eða minni hluta, til að upplýsa um þau áform. Því að það er kúnstugt, virðulegi forseti, og ég verð að segja það að mig undrar það svo oft þegar sveitarstjórnarmenn, hvort sem er á fundum með kjördæmaþingmönnum eða fyrir fjárlaganefnd, koma og berjast fyrir fjárhag ríkisstofnana. Til hvers? Jú, til til að verja störfin sem voru flutt út í viðkomandi héruð.

Ég held að við getum gert svo miklu betur í þessum efnum og það sé nauðsynlegt að við tökum þessa umræðu bara fordómalaust upp á yfirborðið. Ég held að hver sem hefur setið í ríkisstjórn eða hvort sem það eru flokkar sem eru nýstofnaðir eða ekki hafa enn þá komist í ríkisstjórn eða hvaða flokkar það eru, verða að láta sig þetta varða og þessar leikreglur verða að vera býsna skýrar svo við séum ekki hér í þessum ræðustól með einhvers konar stimpil á umræður um að sé hreint og hreint og beint kjördæmapot þegar við kvörtum yfir því að störfin sem voru flutt með blaðamannafundi eitthvert út á land láku til baka á stuttum tíma.

Opnun útibúa starfsstöðva opinberra stofnana hefur reynst ágæt leið til að fjölga störfum á landsbyggðinni en því fylgir kostnaður fyrir viðkomandi stofnun og ætti að viðurkenna hann. Ég held að það sé einn þáttur af því sem við höfum ekki haft nægjanlega sterka sýn á að þegar stofnun er sagt að flytja starfsemi út á land eða stofnun ákveður að flytja störf út á land þá þurfi líka að viðurkenna það með ákveðnum hætti í fjárveitingum til viðkomandi stofnana. Þannig að ég ætla ekki að hengja frakka minn í þessum efnum eingöngu á snaga forstöðumannanna, eins og ég var að reyna að lýsa, heldur þurfum við með margvíslegum hætti að gera þetta ágæta verkefni okkar, að flytja störf út á land, mun heilbrigðara en það er í dag.

Virðulegur forseti. Það er freistandi að ræða einstök útgjaldatilefni og þær breytingar sem gerðar eru á milli umræðna hverfa kannski niður í málaflokka sem við erum sem þingmenn misáhugasamir um og tengjast kannski málaflokkum annarra nefnda en þeim sem við sitjum í. En mig langar samt að gera orkuskipti að sérstöku umtalsefni í þennan stutta tíma sem ég á eftir af minni ræðu.

Við erum hér að leggja til breytingar vegna stuðnings við orkuskipti í samgöngum. Ég vil sérstaklega draga hér fram stuðning við hreinorkubíla og þá kerfisbreytingu sem við erum að gera. Eftirspurn eftir hreinorkubílum af keyptum bílum er ánægjuleg, það er ánægjulegt að sjá hvernig íbúar landsins taka við sér og vilja taka þátt í orkuskiptum með því að kaupa hreinorkubíla. Við skulum alla vega passa að slökkva ekki þann hvata þó svo að það verði að verða einhverjar breytingar. En sá flokkur bíla sem ekur um þjóðvegi landsins og er í raun og veru miklu meira sóknarfæri í til að ná árangri í minni losun eru flutningabílarnir. Þar er í raun og veru um miklu stærri tölur að ræða en í fólksbílahlutanum. Þess vegna er ástæða að vekja athygli á því að við erum að stíga hér með sérstöku framlagi skref til að takast á við það að leysa úr læðingi krafta til þess að flutningabílar verði hreinorkubílar. Í sjónmáli eru raunverulega tvær gerðir í þessum efnum, þ.e. rafeldsneytisbílar með vetni eða raforkubílar.

En annar þáttur orkuskipta sem ég vil líka leyfa mér að tala um í umræðu um fjárlög er einfaldlega raforkuöryggi og skerðingar á raforku sem við sáum gerast hér á síðasta ári. Síðastliðið vor kom út á vegum Stjórnarráðsins skýrsla um raforkuframleiðslu og aðra orkuframleiðslu. Hún leiddi í ljós að það þarf að auka þunga í að leita með markvissum hætti að vatni til húshitunar. Einnig að auka verði verulega stuðning við uppsetningu varmadælna með lagabreytingum. Stuðningur við miðlægar varmadælur var gerður að sérstöku verkefni Orkusjóðs á liðnu ári og við munum eftir lagabreytingunni sem varð hér um varmadælur til að gera þær að áhugaverðari kosti.

Mér er sérstaklega umhugað um orkumál á Vestfjörðum. Vegna skerðingar og afhendingar skerðanlegrar orku frá Landsvirkjun í ár til Vestfjarða varð að brenna þar mun meiri olíu en áður, eitthvað sem ekki passar í það samfélag sem við viljum að þróist hér, að nota minni olíu. Á árinu 2021 var olíunotkun 210.000 lítrar en árið 2022 var notkunin eftir hálft ár komið í 2,1 milljón lítra. Þetta finnst mér ástæða til að draga fram hér til að undirbyggja ekki síður þann veruleika eða undirbyggja tillögugerð í þessum efnum og líka að draga fram þann veruleika sem Vestfirðingar standa frammi fyrir þar sem þeir fá mestalla sína orku flutta vestur um 206 km línu í Mjólká með tilheyrandi tapi. En innan við helmingur orkunotkunar Vestfjarða er þó framleiddur á Vestfjörðum þar sem virkjanir eins og Mjólká og aðrar virkjanir gegna lykilhlutverki. Það er þess vegna mikið að sækja í að við náum að virkja aðra orkugjafa til að hita hús á Vestfjörðum, það takist t.d. að finna heitt vatn til húshitunar á norðanverðum Vestfjörðum, sérstaklega á Ísafirði, hvort sem það yrði með varmadælulausn í byggðarlaginu á Patreksfirði, varmadælulausn með lághita eða með öðrum aðgerðum, þá má með einföldum aðgerðum gera ráð fyrir að það megi losa 10–12 MW af þessum flutningi sem annars þyrfti að flytja vestur ef við fyndum heitt vatn. Þess vegna er mikilvægt til að bregðast við þessu að við séum að leggja 150 milljónir sem breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið að nýta til jarðhitaleitar og benda jafnframt ráðherra málaflokksins á að honum er heimilt að nýta allt að 5% niðurgreiðslu fé til búsetunnar til jarðhitaleitar.

Virðulegur forseti. Það leyfir mér líka að fjalla aðeins um orkumál í öðru samhengi. Við höfum hérna á undanförnum árum í fjárlagagerð markvisst reynt að auka framlög til jöfnunar dreifikostnaðar raforku. Við erum með ótrúlega umsvifamikið millifærslukerfi í raforkuniðurgreiðslum, ríflega 4 milljarða kr. Við erum að greiða niður húshitunarkostnað á köldum svæðum og við erum að jafna dreifikostnað dreifbýlis og þéttbýlis, þ.e. dýrasta gjaldskrá þéttbýlis á að vera viðmið fyrir gjaldskrár dreifbýlis. Við erum að reyna að jafna þennan mun og við erum að bæta í þetta fjármunum, oft og tíðum í átökum hér við lokafrágang fjárlaga á hverju ári, en við sjáum muninn þarna alltaf viðhaldast. Ég vil eindregið leggja það til, virðulegi forseti, að við förum að huga að leiðum til að komast út úr þessu. Við eigum að mínu viti að nota tækifærið núna sem felst í því að við erum að endurskoða eignarhald Landsnets og við erum að greiða dreifiveitunum þar út sína eignarhluta — að nota þær breytingar og nota þá fjármuni sem þar færast til á milli eignaraðila til að endurskoða tekjumörkin eða þættina inn í tekjumörkunum sem hafa áhrif á dreifikostnaðinn.

Ég ætla svo sem ekki að úttala mig í fjárlagaumræðu um þessa þætti en ég sé í það minnsta mikil tækifæri til þess því að einn af þeim þáttum sem eru inni í tekjumörkunum, sem er einfaldlega bara aldur og byggingaþörf dreifiveitu, t.d. Rarik eða Orkubúsins, er þar stór áhrifaþáttur. Það er algerlega óboðlegt í samfélagi sem er á leið til orkuskipta að við höfum tvær þjóðir í þessu landi, hvort sem við horfum til gæða flutningskerfisins eða þess hvaða gjald er tekið af fólki til þess að fá rafmagnið flutt til sín. Sá tími er liðinn, andi laganna sem við innleiddum hér 2003 og 2005, þar sem við viðurkenndum að það mættu vera tvær gjaldskrár milli dreifbýlis og þéttbýlis, á bara ekki við í dag. Ég hef því ágætar vonir um að við getum í það minnsta á næstu misserum sammælst um að við eigum að hætta því að flokka landsmenn með þessum hætti. Þó svo að við ráðum ekki öllum dreifiveitunum og þær séu ekki allar á hendi ríkisins þá er í það minnsta mjög stór hluti af þeim orkufyrirtækjum sem eru að dreifa rafmagni, sem er tekjustýrður hluti raforkumarkaðarins, á eignarhaldi hins opinbera og við getum lagt þar gott til.

Virðulegur forseti. Án þess að lengja þessa ræðu mína, alla vega í þessari umferð, þá vil ég einungis að lokum benda á að ein af breytingartillögum okkar er hækkun framlaga til netöryggismála. Án þess að rekja það í smáatriðum þá held ég að í það minnsta á þeim ófriðartímum sem við lifum nú hafi ekki síður vegna þeirra ófriðartíma afhjúpast að það er málaflokkur sem við höfum og verðum að horfa meira til. Netöryggismál verða stöðugt mikilvægari málaflokkur í fjölþáttaógn. En sú breytingartillaga sem við erum í það minnsta að ræða hér er um 100 milljónir sem veittar verða til netöryggismála áfram, síðan 150 milljónir til fjarskiptasjóðs til þess að vinna að áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptainnviða. Og svona mætti lengi telja til einstakar tillögur í breytingartillögum okkar.

Á margan hátt má segja að breytingartillögur endurspegli mjög vel það sem kom fram í umsögnum og í gestakomum fyrir fjárlaganefnd á liðnu hausti og var óvenjulega mikið brugðist við í þeim efnum.

Að lokum aðeins þetta: Þakkir fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd í haust og markvissa vinnu, sem ég held að við getum sem nefndarmenn, hvar svo sem við sitjum í pólitískum flokkum, borið höfuðið ágætlega hátt. En ég legg sem áður áherslu á það sem ég sagði í minni ræðu að við eigum að fara að ræða og móta eftirlitshlutverk okkar með miklu markvissari hætti en við höfum komist til að gera.