Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar skýringar og átta mig á að verkefnið er stærra og vonast til þess að við förum að sjá breytingar í þessu samhengi vegna þess að þessi markmið liggja fyrir í áætlunum stjórnvalda og við þau er ekki staðið. En mig langaði til að nýta þennan stutta tíma fyrst við erum í stuttum andsvörum til að koma inn á annað málefni sem snýr m.a. að kjördæmi hv. þingmanns sem mér finnst mjög eðlilegt að ræða í samhengi við umræðu um dreifingu á störfum um land allt. Það er sjónarmið sem ég styð og skil alveg hvað hann er að ræða um í þessu samhengi. Það bárust til að mynda umsagnir frá SSV og Vestfjarðastofu varðandi atvinnuráðgjöf í landinu og þá staðreynd að framlög til atvinnuráðgjafar hafa snarminnkað á undanförnum árum, úr 400 í 200 milljónir ef við horfum á lengra tímabil frá 2009 og verðlagsuppfærum. Ég sé að meiri hluti nefndarinnar setur vissulega inn viðbótarfjármagn upp á 40 millj. kr. en við vitum að það spöruðust hátt í 350 milljónir við niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þetta er auðvitað mjög sterk fótfesta fyrir til að mynda atvinnu í hinum dreifðu byggðum (Forseti hringir.) og ég vildi kalla eftir frekari sjónarmiðum frá hv. þingmanni varðandi möguleg fjárframlög inn í þennan málaflokk.