Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, við brugðumst við með því að auka um 40 millj. kr. til atvinnuráðgjafar landshlutasamtaka og í annan stað með því að hækka framlög til sóknaráætlana um 120 millj. kr. frá fyrirliggjandi frumvarpi. Ástæða þess að við leggjum við hlustir hvað varðar þau sjónarmið landshlutasamtakanna að atvinnuráðgjöfin sé mikilvæg er einmitt vegna þeirra breytinga sem hv. þingmaður nefnir hér, að við breyttum nýsköpunarumhverfinu með þessum hætti. Þá hefur ásóknin í þessa atvinnuráðgjöf síst minnkað heldur aukist og ég held að það sé mikilvægt að við höfum öflugt stoðkerfi úti á landsbyggðinni til að styðja fólk við að sækja sér stuðning í þessa sjóði, nýsköpunarsjóði, hvað sem þeir heita allir. Ég ætla að hinu leytinu að segja að sóknaráætlanir sem hafa verið keyrðar á undanförnum árum og hafa umtalsverða fjármuni eru líka dæmi um það að við getum með ótrúlega litlum fjármunum leyst úr læðingi heilmikil krafta. Þess vegna er mikilvægt að við stöndum við bakið á þeim.