Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara að byrja á því að segja að orðatiltækið að hengja bakara fyrir smið notuðum við aldrei í Sjálfstæðisflokknum út af ákveðnum ástæðum; formaður þingflokksins er sonur bakara. En þetta átti að vera gaman. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vil taka skýrt fram að ég var einmitt ekki að reyna að hengja frakkann minn á forstöðumenn stofnana. Ég var að segja að vegna þess að við ræðum orðið meira um málaflokka og málefnasvið þá erum við minna með augun á einstaka stofnunum. Þess vegna verður til sá freistnivandi, án þess að við höfðum augastað á því, að þegar gefið er eftir, t.d. með hagræðingarkröfu, þá leki störfin smám saman til baka. Ég vil að við tökum þetta fastari tökum, hvort sem það er í fjármálaáætlun eða fjárlögum, og fáum upplýsingar frá viðkomandi fagráðuneytum hvaða áhrif fjárveitingin hefur á störfin sem við höfum m.a. flutt út á land.