Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:57]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt að á fund fjárlaganefndar komu forstöðumenn heilbrigðisstofnana til að ræða sína fjárhagsstöðu og lýstu henni með ítarlegum hætti. Við höfum áður tekið fundi með forstöðumönnum heilbrigðisstofnana í fjárlaganefnd og það var það sem ég var að reyna að taka utan um í minni ræðu líka að kastljósinu er, ég vil ekki segja kannski eingöngu, varpað á Landspítalann en of lítið á hinar stofnanirnar. Ég held að það sé þó einmitt það sem við höfum breytt á seinni misserum í hv. fjárlaganefnd, að tala líka við þessar heilbrigðisstofnanir. Þeir fjármunir sem koma nú til viðbótar í heilbrigðismálum eru til heilsugæslu, eru til þess að mæta hjúkrunarþyngd á hjúkrunarheimilum, eru til annarra liða sem líka munu renna til þessara heilbrigðisstofnana sem lýstu þessum fjárhagsvandræðum sínum. Við spurðum sömuleiðis heilbrigðisráðuneytið um viðbrögð við þessari umsögn heilbrigðisstofnana og við einfaldlega fengum þau svör að við því yrði brugðist með ákveðnum hætti.