fjárlög 2023.
Frú forseti. Hér eigum við að vera að ræða pólitík. Heimsfaraldurinn á ekki lengur sviðið og það þarf að fara að horfast í augu við það hvaða pólitík birtist okkur hér í fjárlögum ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Meiri hlutinn stendur hér og segir okkur sögur af því að horfur séu betri en vænta mátti og það er alveg rétt en segir okkur bara hálfa söguna. Það eru vissulega jákvæð teikn á lofti en við þurfum líka að geta horft á þá þætti sem eru erfiðir.
Fyrir rúmu ári þegar ríkisstjórnin endurnýjaði heiti sín og lagði upp í nýtt kjörtímabil stóðu stýrivextir í 1,25% og verðbólgan mældist 4,4%. Tölurnar þá voru fínar en það voru blikur á lofti en það hentaði ríkisstjórninni ekki að tala um þessar blikur. Þess í stað sagði hæstv. fjármálaráðherra almenningi frá því að við værum að renna inn í nýtt lágvaxtaskeið. Hann kaus að segja ungu fólki þá sögu að vextir væru orðnir sögulega lágir en sagði aftur bara hálfa söguna. Vextir á Íslandi eru aldrei lágir til lengri tíma. Fjárfesting í húsnæði, í heimilum, er stærsta fjárfesting flestra á ævinni og stjórnvöld eiga og verða að tala af ábyrgð um hver veruleikinn þar að baki er. Íslenskt lágvaxtaskeið getur aldrei orðið annað en stuttmynd með íslensku krónuna í aðalhlutverki. Unga fólkið sem núna finnur mjög fyrir vaxtahækkunum veit að orð hæstv. fjármálaráðherra voru ekki rétt. Ekkert í fyrri sögu Íslands gat gefið tilefni til að ætla að vextir hér myndu haldast lágir. Til þess hefur íslenska krónan einfaldlega ekki styrk. Samt fór Sjálfstæðisflokkurinn fram með þetta loforð í kosningum, loforð sem beindist ekki síst að ungu fólki og fyrstu kaupendum fasteigna, loforð um að vextir yrðu hér lágir nánast til frambúðar. Við sáum flettiskilti í kosningabaráttunni þar sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lofuðu ungu fólki lágum vöxtum ef atkvæði væri greitt Sjálfstæðisflokknum. En nú er staðan eins og hún er og þá þarf að fara að ræða pólitík.
Markmiðið hlýtur að vera að beita ríkisfjármálunum þannig að niðurstaðan verði samfélag sem við erum stolt af. Markmiðið á að vera sanngjörn niðurstaða og niðurstaða í þágu almannahagsmuna. Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er viss feimni við framtíðarsýn, feimni við hugmyndafræði, viss feimni við forystu og að sumu leyti feimni við að þjóna almannahagsmunum. Spurningarnar hérna í umræðunni eru stundum tæknilegar en í grunninn snýst nálgunin og umræðan og hin pólitíska rökræða einfaldlega um hvernig samfélag við viljum búa í. Hvernig þjónustu viljum við fyrir fólkið í landinu? Hvernig skiptum við kostnaðinum af þessari þjónustu? Hvernig viljum við standa að tekjuöflun fyrir ríkissjóð? Hvaða kerfi þjóna almannahagsmunum og hvaða kerfi þjónar hagsmunum hinna fáu? Við eigum að ræða framtíðarsýn. Við eigum að þora að horfa lengra fram í tímann en bara á næsta dagskrárlið. Afgerandi stuðningur mælist í skoðanakönnunum við frekari samvinnu Evrópuþjóða innan Evrópusambandsins og þar hefur breytt heimsmynd eftir stríðið mikið að segja en líka sú staðreynd að verðbólga í Evrópu hefur ekki þurft að leiða til og framkallað jafn harkaleg viðbrögð vaxtahækkana og hér á landi. Og hvers vegna er það? Eins leiðinleg og umræða um vexti er þá þarf að geta séð þetta samtal sem réttlætismál, hvers vegna stjórnvöld geta hugsað sér að leggja það á fólkið í landinu, heimilin í landinu, að vera föst í gjaldmiðli sem kostar heimilin sturlaðar upphæðir, sem gerir að verkum að fólk þarf að borga íbúðina sína tvisvar ef ekki þrisvar vegna vaxta.
Hér er mikið talað um að það sé verðbólga erlendis og þar séu vextir líka hækka. Hvort tveggja er rétt en vextir á Íslandi hækka margfalt á við það sem önnur Evrópuríki eru að glíma við. Að fara vel með fjármuni ríkisins — og ég nefni þetta í því samhengi að við erum að ræða fjárlög ríkisins — felur til lengri tíma líka í sér að velja gjaldmiðil sem auðveldar almenningi lífið í stað þess að gera honum lífið erfiðara, sem auðveldar fólki að eignast húsnæði, sem auðveldar fólki matarinnkaupin, sem gerir vaxtaumhverfið á Íslandi sambærilegt við löndin í kringum okkur. Þetta á að vera langtímamarkmiðið og ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins verða að horfast í augu við þann kostnað sem fólkið í landinu tekur á sig til að halda í krónuna. En þetta vill ríkisstjórnin ekki ræða, hún treystir því kannski bara að við rifjum ekki upp ársgamalt kosningaloforð hæstv. fjármálaráðherra um lágvaxtaskeið, loforð sem hann gat aldrei efnt.
Á sama tíma blasir líka við okkur að heilu atvinnugreinarnar hafa yfirgefið erfiðan veruleika íslensku krónunnar og valið sér að starfa og gera upp í öðrum gjaldmiðlum, einfaldlega vegna þess að það er betra, því fylgir meiri festa. En eftir situr almenningur, heimilin í landinu og litlu fyrirtækin föst.
Forseti. Mig langar að ræða aðeins um verðbólguna og þátt húsnæðisverðsins þar. Fjárlagafrumvarpið er þögult um þetta stóra hagsmunamál heimila og fjölskyldna landsins. Það er óskandi að eitthvað gerist fyrir 3. umr. af hálfu meiri hlutans en jafnvel eftir alla vinnu haustsins þá ríkir þögnin hér enn. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar hæstv. innviðaráðherra er niðurstaðan núna að ríkisstjórnin virðist ætla að skila auðu. Í allt sumar og í allt haust hefur þessi erfiða staða verið til umfjöllunar og ört hækkandi vextir á húsnæðislánum. Fjárlagafrumvarpið boðar lítil svör hvað varðar verðbólguna sjálfa og þegar ríkisstjórnin axlar ekki sína ábyrgð á því að halda aftur af verðbólgunni þá hækka vextirnir. Ég hef mestar áhyggjur af unga fólkinu í þessu sambandi. Hátt íbúðaverð er mikil áskorun og það hefur verið rætt um vaxtabætur og húsnæðisbætur fyrir fjölskyldurnar og barnabætur. Ég er á því að í þessu ástandi sé það rétt skref og þingflokkur Viðreisnar mun leggja fram breytingartillögur þar um. Aðgerðir sem þessar í þágu heimila gætu við núverandi aðstæður líka liðkað fyrir kjarasamningum.
Ríkisstjórnin hefur talað um að það þurfi að verja viðkvæmustu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar og við erum ríkisstjórninni sammála um það. En ég sakna þess að sjá engar aðgerðir hér fyrir 2. umr. Mér finnst það með nokkrum ólíkindum. Tekjuöflun þessarar ríkisstjórnar felst á sama tíma fyrst og fremst í því að auka skattbyrði millitekjufólks og lágtekjufólks sem fær á sig töluverðan skell, sama unga fólkið og finnur fyrir hækkandi vöxtum á íbúðarláninu, finnur fyrir hækkandi verðlagi úti í samfélaginu, barnafjölskyldurnar. Hingað á að sækja tekjur. Þessar aðgerðir bíta auðvitað viðkvæmustu hópana fast. Hér erum við aftur komin í samtal um pólitík. Það hvernig stjórnvöld beita sköttum og hvar þau beita sköttum hefur mikil áhrif og það speglar hugmyndafræði.
Hvað verðbólguna varðar þá gegna stjórnvöld mikilvægu hlutverki um að halda aftur af henni en hér eru fá skref tekin. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að ríkisfjármálin þurfi og eigi að styðja við markmið Seðlabankans, hann talar um að ríkisfjármálin eigi að styðja við markmið Seðlabankans um verðbólgu en hann styður þessi markmið í reynd ekki með ákvörðunum sínum. Það er a.m.k. erfitt að sjá markviss skref og markvissar aðgerðir í þeim efnum. Hæstv. fjármálaráðherra talar um þetta en gerir lítið. Fyrir vikið er Seðlabankinn einn með það að verkefni og grípur til vaxtahækkana aftur og aftur. Sömu stjórnvöld auka svo byrðar fjölskyldna og heimila með gjaldahækkunum og auka þannig kostnað heimilanna. Krónutölugjöldin hækka miðað við vísitölu eins og venjulega þótt þau geti með þeim hætti hækkað verðbólguna enn þá frekar.
Frú forseti. Í gær heyrðum við af uppsögn forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Hún sagðist ekki treysta sér til að sinna starfi sínu vegna þeirra fjárveitinga sem stofnunin fær. Í dag heyrðum við síðan þau ótrúlegu ummæli, vil ég leyfa mér að segja, hæstv. heilbrigðisráðherra um að uppsögnin hafi ekki komið honum á óvart. Á sama tíma stendur ríkisstjórnin hér og meiri hlutinn og talar um innspýtingu í heilbrigðiskerfið. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar fjárlagafrumvarpið birtist okkur í haust var augljóst að það þyrfti verulega að bæta í. Formaður Læknafélagsins benti t.d. á að fjárlagafrumvarpið í haust gerði það að verkum að ekki væri til fjármagn til lyfjakaupa. Lyfjakaup voru ekki að fullu leyti fjármögnuð í fjárlagafrumvarpi hjá einni ríkustu þjóð heims. Mig langar til að nefna handahófskennt dæmi, stöðuna á krabbameinsdeild Landspítalans. Þar búa sjúklingar, heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur við lélega aðstöðu og spítalinn hefur lýst því yfir margsinnis opinberlega að deildin sé löngu sprungin. Þetta er veruleikinn hjá einni ríkustu þjóð heims. Jú, það er alveg rétt að ríkisstjórnin er að stoppa í götin núna og það er gott og þeir 2 milljarðar sem fara til Landspítalans hafa auðvitað þýðingu. En þetta mun ekki breyta stóru myndinni, ekki þegar framtíðarsýnina skortir í ofanálag.
Þjóðin er að ég held öll sammála því að vilja gera meira og betur í þessum málaflokki. Þjóðin er einhuga um að vilja halda því norræna módeli sem við byggjum á um að aðgengi að heilbrigðisþjónustu skuli vera óháð efnahag. En heilbrigðisráðuneytið hefur fyrir fjárlaganefnd í haust margsinnis staðfest það að fjárlagafrumvarpið geymir t.d. enga fjármuni til að semja við lækna. Hvað þýðir það? Sjálfstætt starfandi læknar munu að líkindum verða samningslausir fimmta árið í röð. Sú staðreynd gerir að verkum að sjúklingar greiða hærri gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu og þau sem geta það ekki þurfa fyrir vikið að neita sér um heilbrigðisþjónustu. Það er mikið talað um hættuna á því að tvískipt heilbrigðiskerfi verði til. Það er til. Það er afleiðing þessarar stefnu og það virðist engu skipta hvort VG eða Framsókn fari með heilbrigðisráðuneytið, úrræðaleysið er hið sama. Það eru heldur ekki til fjármunir til að semja við sjúkraþjálfara. Biðlistarnir þar verða áfram veruleiki. Ég hef í fjárlaganefnd margítrekað spurst fyrir um sálfræðiþjónustu og niðurgreiðslu hennar og sálfræðiþjónustu á heilsugæslum landsins. Margsinnis spurt en fæ engin svör, sama hversu mjög ég reyni. Auðvitað segir það í sjálfu sér allt sem segja þarf um hver staðan er þar og hverjar fyrirætlanirnar eru, að viðbótin er lítil sem engin þrátt fyrir mikið tal um mikilvægi geðheilbrigðisþjónustu, t.d. vegna unga fólksins okkar eftir heimsfaraldur. Það er svarað með þögninni. Á einum gjaldalið sjáum við 400 milljónir en við sjáum líka 400 milljónir í mínus. Mér sýnist sem 100 milljónir liggi fyrir í þetta verkefni. Hvað sem því líður þá er niðurstaðan sú að sálfræðiþjónusta verður áfram heilbrigðisþjónusta fyrir þá sem hafa ráð á henni. Það er vitað mál, t.d. hvað varðar foreldra unglinga, að margar barnafjölskyldur geta ekki leyft sér kostnað upp á 20.000 kr. fyrir hvern tíma þar.
Við þekkjum veruleikann um biðlista barna eftir þjónustu sem er í sumum tilvikum í árum talið, svo löng bið að hún er drjúgur hluti af æsku barna. Við vitum hver staðan er varðandi mönnun á heilbrigðisstofnunum. Mönnun er — og það kemur fram í öllum umsögnum allra umsagnaraðila sem komu fyrir fjárlaganefnd — stærsta áskorun heilbrigðiskerfisins. Hér eru engin teikn á lofti um að ráðast í úrbætur hvað varðar vinnuaðstæður eða vinnuálag, teikn um hvata sem geta t.d. haldið í hjúkrunarfræðinga en stórt hlutfall þeirra er horfinn til annarra starfa innan fimm ára frá því að þeir hefja störf á Landspítalanum. Hér eru engin teikn um það hvernig við ætlum að laða sérfræðilækna heim úr námi heldur. Það þarf að styrkja heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið.
Þingsályktunartillaga Viðreisnar um bætt kjör kvennastétta var samþykkt árið 2018 en ríkisstjórnin hefur ekkert gert með þá þingsályktun. Heilbrigðisstarfsfólk er í dag eftirsóttustu starfskraftar heims og við þurfum ekki bara að bjóða mannsæmandi kjör og vinnuaðstæður heldur þurfum við að standast samkeppni að utan. Laun eru stór þáttur þar en ekki síður þættir eins og vinnuumhverfi, tækifæri til starfa, hvert álagið er í starfi, stafræn uppbygging og innviðir. Það er svo margt sem hægt er að gera og ég nefni aftur þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, hjúkrunarfræðinga þar með talda. Það er liður í því að styrkja heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið og fyrir þessu hefur Viðreisn, eins og ég segi, talað árum saman. En til þess að fara í þetta þá þarf forystu um uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið og líka viljann til að nýta allt okkar góða fagfólk sem hefur menntun á sviði heilbrigðisvísinda. Hér liggur fyrir vandi sem snýr að vinnuaðstæðum, vinnuálagi, fjárfestingum í heilbrigðiskerfinu og samspili og samstarfi stofnana og aðila.
Forseti. Við ræðum líka oft um innviði í þessum sal og þar hef ég margoft bent á það að þar undir er löggæslan svo sannarlega. Þetta vill gleymast. Hér er sama staða uppi og í heilbrigðiskerfinu því að við erum að horfa á mynd sem er margra ára gömul. Hér koma inn viðbætur og ég óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með þann góða árangur sem hann virðist hafa náð í samningaviðræðum við fjármálaráðherra. En þetta er að gerast eftir áralangt fjársvelti Fangelsismálastofnunar t.d. sem hefur sætt hagræðingarkröfu á hverju einasta ári frá 2008. Ég lagði nýlega fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um biðlista í fangelsi. Auðvitað væri það dálítið fyndið ef staðan væri ekki svona alvarleg, að ríkisstjórninni takist að skapa biðlista eftir úrræði sem menn vilja ekki þiggja. Svörin báru með sér það sem ég þóttist vita. Hundruð manna bíða afplánunar, fólk sem hefur hlotið dóm en er ekki boðað í afplánun vegna þess að Fangelsismálastofnun hefur ekki burði til að nýta öll pláss vegna fjárskorts. Fjöldi lögreglumanna hefur ekki vaxið í samræmi við þörf, í samræmi við fólksfjölda og fjölgun ferðamanna hér á landi. Ég hef margsinnis í þessum sal talað um tímann sem það tekur fyrir dómsmál, sakamál að fara í gegnum kerfið og þau skilaboð til þolenda sem bíða árum saman eftir niðurstöðu, þá staðreynd að dómar fyrnast, þá staðreynd að réttindi fanga eru ekki virt að öllu leyti í íslenskum fangelsum. Við erum að tala um öryggi borgaranna. Það er grundvallarskylda ríkisins að tryggja öryggi borgara landsins, öryggi fólksins í landinu og það hefur verulega vantað upp á að sá vilji hafi verið sýndur í verki. Þetta er niðurstaðan eftir margra ára dvöl Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu sem fer með öryggi borgara landsins. Þegar við skoðum þessa innviði saman, heilbrigðiskerfið annars vegar og réttarkerfið hins vegar, þá má segja að pólitík þessarar ríkisstjórnar hafi að vissu leyti ógnað hagsmunum almennings.
Frú forseti. Niðurstaðan í ár er sú að ríkisstjórnin leggur nú á borð fjárlagafrumvarp með 118 milljarða kr. halla. Frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram í september hefur hallinn farið frá 90 milljörðum og upp í 118. Hefur þetta einhverja þýðingu? Stundum mætti ætla að svo væri ekki. Hér er a.m.k. furðu lítið talað um þennan þátt málsins. Stundum tala stjórnmálamenn og jafnvel heilir stjórnmálaflokkar eins og skuldir skipti ekki máli, séu bara tölur á blaði. En þetta er mjög varhugaverður og jafnvel hættulegur málflutningur. Við sjáum það rækilega núna þegar við erum komin í 2. umr. um þetta frumvarp. Hvaða fjárlagaliður hefur hækkað mest frá 1. umr. til 2. umr.? Eru það framlög til að styrkja innviði, eru það samgöngur, eru það húsnæðismál, eru það heilbrigðismál? Nei, það eru vaxtagjöld. Staðan núna er sú að vaxtagjöldin nema um 100 milljörðum kr. og auðvitað hafa svimandi há vaxtagjöld áhrif á getu og burði ríkissjóðs til að fjárfesta í grunnþjónustu. Það blasir við. Á það ekki að vera markmiðið að geta varið fjármunum í annað en vaxtagjöld? Það dugar þess vegna alls ekki í fjárlagapólitík að neita að ræða halla, neita að ræða skuldir.
Frú forseti. Ég nefndi það fyrr hér í kvöld í andsvörum við formann fjárlaganefndar að ég líti svo á að þetta fjárlagafrumvarp hafi meiri þýðingu en oft áður. Vitaskuld er það svo að öll fjárlagafrumvörp hafa þýðingu en aðstæðurnar núna, verðbólgan, háir vextir, kjarasamningar, alvarlegar blikur á lofti erlendis eru allt þættir sem við verðum að vera vakandi fyrir. Það þarf t.d. ekki mikið að breytast erlendis til þess að staða okkar hér breytist fljótt. Ég nefni ferðaþjónustuna sem dæmi. Það er þekkt úr hagrannsóknum að þegar kreppir að þá eru ferðalög, afþreying og annar slíkur munaður það fyrsta sem fer út úr bókhaldi heimilanna. Við reiðum okkur mjög á ferðaþjónustu. Við verðum að vera vakandi fyrir því sem er að gerast hér heima en líka erlendis.
Ríkisstjórnin segir sjálf þannig frá að afkoman sé betri en reiknað hafði verið með og vissulega er sitthvað jákvætt hér. Ég ætla ekki að slást í hóp með þeim sem segja að hér ríki svartnættið eitt og að öll vond veður séu ríkisstjórninni að kenna. En eftir stendur að þriðji stærsti fjárlagaliður íslenska ríkisins er vaxtakostnaður. Hvers vegna er ég að leggja svona mikla áherslu á þetta atriði? Það er vegna þess að vaxtagjöldin á Íslandi eru mjög há í öllum samanburði. Ekkert annað OECD-ríki býr við eins há vaxtagjöld af vergri landsframleiðslu og Ísland þrátt fyrir að margar þjóðir skuldi langtum meira en Ísland. Það þýðir að kostnaður þess að fjármagna rekstur ríkissjóðs með lánum og lántökum, eins og hér er verið að gera, er meiri hér en annars staðar. Ríkissjóður hefur núna verið rekinn með halla frá árinu 2019. Það er útlit fyrir að uppsafnaður halli áranna 2019–2023 muni nema um 780 milljörðum kr. og það er gert ráð fyrir að hallareksturinn haldi áfram út árið 2027. Ríkissjóður er þá samkvæmt því rekinn með tapi í níu ár samfellt. Það er saga þessarar ríkisstjórnar. Það er áhugaverður dómur yfir fjármálastjórn a.m.k. Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég veit ekki hvort þetta truflar Vinstri græn. Auðvitað var hér heimsfaraldur en ég nefni þetta tímamark vegna þess að tapreksturinn var hafinn fyrir Covid og fyrir efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs. Og nú á að halda honum áfram langt fram á næsta kjörtímabil. Það á að vera keppikefli og markmið að greiða niður skuldir vegna þess að það er í þágu hagsmuna almennings. Það á að forðast það að reka ríkissjóð alltaf vitlausu megin við núllið. Það getur gerst þegar aðstæður kalla á það en markmiðið hlýtur að eiga að vera að rétta slíka stöðu af, hún fái ekki að viðgangast níu ár samfleytt. Ég minni á álit fjármálaráðs á síðustu fjármálaáætlun sem varpaði ljósi á kerfislægan hallarekstur ríkissjóðs þar sem tekjum er eytt samstundis eða um efni fram. Aftur getum við borið þetta saman við heimilisbókhald. Það er ekki gæfuleg uppskrift. Vandinn skýrist sumpart af heimsfaraldri en ekki síður af kerfislægum hallarekstri og óábyrgri hagstjórn í formi skuldasöfnunar og aðhaldsleysis. Heiðarlegur glannaskapur má segja að þetta sé. Það á auðvitað að vera hlutverk stjórnarandstöðu að gera athugasemdir við það þegar ríkisstjórn getur ekki brúað bilið milli útgjalda og tekna, meira segja við þær aðstæður að efnahagsaðstæður eru með henni. Það gerir að verkum að lífskjör eru tekin að láni, reikningur sendur á næstu kynslóð. Ég vil aftur fá að staldra við þann punkt að það er búist við áframhaldandi hallarekstri og skuldasöfnun út árið 2027. Það er merkilega lítið rætt um þá staðreynd hér og ég skil reyndar vel að meiri hlutinn forðist það samtal.
Frú forseti. Mig langar að hafa nokkur orð um tekjuöflun í þessu frumvarpi. Hún er að sumu leyti ómarkviss. Ríkisstjórnin er með þetta 118 milljarða kr. gat en lausnirnar sem eru boðaðar á móti eru fremur metnaðarlausar. Við heyrðum hérna strax í september tal um lækkun framlaga til stjórnmálaflokka upp á einhverja tugi milljóna, lækkun á ferðakostnaði ríkisins, atriði sem fram komu og eru bein afleiðing af heimsfaraldri, frestun viðbyggingar við Stjórnarráðið. Ekkert þessara atriða er nálægt því að hreyfa við stóru myndinni.
Um tekjuöflun vil ég leyfa mér að nefna stöðu sjávarútvegsins í fyrra. Methagnaður þar, hagnaður greinarinnar að mig minnir um 65 milljarðar eftir skatta og gjöld. Það eru mikil gleðitíðindi og við eigum að vera stolt af sjávarútveginum. En enn er staðan sú að þjóðin fær ekki sinn sanngjarna hlut fyrir afnot af sameiginlegri auðlind okkar allra. Veiðigjöldin standa varla undir fiskveiðieftirliti enda tek ég eftir því hér í kvöld og reyndar í allri umræðu um þetta frumvarp að orðið veiðigjald heyrist ekki af hálfu þingmannameirihlutans, heyrist ekki þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar tala um fjárlagafrumvarpið. Það er með nokkrum ólíkindum og eitthvað svo dæmalaust lýsandi um pólitík þessarar ríkisstjórnar að meira að segja í þessari stöðu, 118 milljarðar í mínus, hvarflar ekki að mönnum að líta til þess hvort eðlileg gjaldtaka í sjávarútvegi geti verið eitthvað til að horfa á.
Mig langar líka til að rýna aðeins hvað ríkisstjórnin á við um áframhaldandi sölu á Íslandsbanka. Það er mikilvægt að fjármunir sem fengjust af sölu læsist ekki inni heldur verði nýttir til að greiða niður skuldir. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að sölunni verði fram haldið. Skýrasti dómurinn held ég um árangur hæstv. fjármálaráðherra af síðustu sölu er hins vegar sú staðreynd að yfir 60% landsmanna treysta honum ekki til að halda áfram og mér virðist af fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar um síðustu páska að ríkisstjórnin geri það ekki heldur. Skriflegt svar hans við fyrirspurn minni sem barst í gær bendir til þess að sala á næsta ári sé alls ekki gefin. Það er auðvitað skýrasti dómurinn um frammistöðu ráðherrans. Ferlið sigldi í strand í kjölfarið. Hér skiptir auðvitað miklu að vanda til verka og hér er traust auðvitað lykilbreyta. En reikningurinn er sem fyrr sendur á almenning sem verður þá af þessum tekjum í bili ef salan er sett á bið. Auðvitað skiptir það máli fyrir ríkissjóð við núverandi aðstæður að söluandvirðið fáist til að greiða niður skuldir og verja til brýnna verkefna.
Forseti. Ég hef farið yfir nokkrar athugasemdir við þetta fjárlagafrumvarp og mér líður reyndar eins og ég hafi staðið hér í heila eilífð en ég á mikið inni. Ég hef nefnt áherslu okkar á frekari fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu og hana viljum við sjá. Ég hef lagt áherslu á það að við söknum þess að sjá ekki markvissar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að vinna gegn verðbólgu. Ég hef nefnt aðgerðir vegna hárra vaxta og þar erum við ekki síst að horfa á hagsmuni ungra barnafjölskyldna. Vaxtabætur, húsnæðisbætur og barnabætur eru þýðingarmiklir þættir þar og þetta eru atriði sem geta liðkað fyrir gerð kjarasamninga. Ég sakna þess líka að sjá ekki í þessu frumvarpi heilbrigða gjaldtöku fyrir afnot af sjávarauðlindinni en ætla að játa að það kemur mér ekki vitund á óvart. Ég vil líka leyfa mér að nefna græna skatta og sakna þess að sjá enga markvissa sýn um loftslagsmál í þessu frumvarpi. Þar ætla ég að leyfa mér að tala líka sem nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd því það er ókostur við fjárlagavinnuna að það er engin heildaryfirsýn yfir það með hvaða hætti við erum að beita fjárfestingum í þágu loftslagsmarkmiða. Ég held að það skorti í sjálfu sér ekki upp á viljann þar en vinnubrögðin eru ekki nægilega fókuseruð og ég held að formaður fjárlaganefndar sé mér sammála um mikilvægi þess að við skerpum á þessu. Það þarf þessa heildaryfirsýn og hér ætla ég að minna á að ég lagði fram skriflega fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í vor, að mig minnir, það sem ég var einmitt að leita svara við því hversu hátt hlutfall fjárfestinga ríkissjóðs styður við loftslagsmarkmið okkar, hversu hátt hlutfall fjárfestinga ríkissjóðs getur kallast grænar. Svarið var 2%. Það er ekki gæfulegt svar í samhengi við skýr markmið stjórnvalda. Að vísu tókst fjármálaráðherra að mig minnir að taka þetta hlutfall upp í 20% en þá var hann farinn að skilgreina byggingu Landspítalans sem græna fjárfestingu, sem mér fannst kreatíft. Ég sakna þess að það sé grænn þráður og grænn fókus og græn áhersla í gegnum fjárlagavinnuna. Við gerum líka athugasemdir við að tekjuöflun er bæði ómarkviss og ósanngjörn við núverandi aðstæður. Það hvernig stjórnvöld haga sköttum og hverja þau skatta er ofboðslega skýr mynd af pólitík á hverjum tíma.
Að síðustu vil ég nefna að hér vantar að mínu mati ekki síst kjark til að taka markviss skref um hagræðingu í ríkisrekstri. Það er mikið einkenni á þessu frumvarpi og á fjármálastjórn hæstv. fjármálaráðherra viss tregða til að taka ákvarðanir. Ég sakna þess að það er engin merkjanleg áhersla á hagræðingu af hálfu ríkisstjórnarinnar í frumvarpinu og menn lýsa því yfir af fullum þunga að stefnt sé að halla í níu ár samfleytt. Ég hef talað um það hvað skuldirnar kosta ríkissjóð vegna þess hve kostnaðurinn af vaxtagjöldum er mikill og það er mikið almannahagsmunamál að lækka þennan kostnað. Þannig verjum við lífskjör, þannig verjum við samkeppnishæfni Íslands og þannig verjum við velferðina og fjárfestingar í velferð. Fjármálaráðherra talaði í september um það, þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið fyrst, að það væru tækifæri í einfaldara ríkiskerfi. Það eru mikil tækifæri þar. Ég er honum einlæglega sammála um það. En ég saknaði þess að hafa ekki séð þá og heldur ekki núna fyrir 2. umr. neinar konkret tillögur í þeim efnum, tækifærunum í einfaldara ríkiskerfi. Það þarf konkret tillögur. Það þarf kjarkinn til að taka markviss skref um aðhald í ríkisrekstri. Að síðustu finnst mér vanta svör og sýn um aðgerðir gegn verðbólgunni sjálfri. Það er ekki rétt, þó að meiri hlutinn tali stundum þannig þegar við erum að ræða um fjárlagagerðina, fjárlagafrumvörp og fjárlög, að hér sé um óbreytanlegar stærðir að ræða, einhver náttúrulögmál. Það er pólitík að velja að skilja skuldir eftir fyrir börnin okkar. Það er pólitík í því hvernig ríkisstjórnin skattleggur og skattleggur ekki. Það er pólitík í því að fjárfesta ekki í grunnþjónustu í samræmi við þörf. Allt er þetta til marks um pólitík, ekki náttúrulögmál heldur stefnu ríkisstjórnarinnar.