Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ósköp góða ræðu. Ég er sammála flestu af því sem þar kom fram. Þetta eru mjög athyglisverðar kringumstæður sem við erum í, blússandi hagvöxtur, hátt atvinnustig, mikil þensla. Samt er lagt fram fjárlagafrumvarp í haust sem gerir ráð fyrir að 89 milljarða fjárlagahalla, hallarekstri á næsta ári. Það sem gerðist svo í kjölfarið er að það kemur í raun enn dekkri verðbólguspá og meginvextir Seðlabankans eru hækkaðir enn frekar. Ég held að þessi síðasta hækkun um 25 punkta hafi komið mörgum á óvart. Samt er í raun brugðist við með þeim hætti, núna þegar frumvarpið er á leið í 3. umr., nýkomið út úr nefnd, er búið að auka hallann enn frekar, fara upp í 118 milljarða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að henni er umhugað um ábyrgan rekstur ríkissjóðs: Hvað þýðir þetta fyrir efnahagslegan stöðugleika (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin kjósi að auka enn á hallann og sé þar af leiðandi ekki að afla aukinna tekna til þess að vega upp á móti þensluáhrifunum af auknum útgjöldum?

(Forseti (LínS): Ræðumaður, ef ræðutíminn er styttur í eina mínútu þá er hann ein mínúta.)