Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar í seinna andsvari að fara í málefnasviðið á undan, nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Í nefndarálitinu er komið vel inn á það að það er dálítið mikið um, ekki bara í þessu málaflokki heldur bara í öllum málaflokkum, þennan flata niðurskurð sem virðist alltaf vera notaður. Hagræðing er það kallað. Þetta hefur sérstaklega slæm áhrif á nýsköpunina vegna þess að svo mikið af peningunum sem eru í þessum málaflokki fer beint til fyrirtækjanna sem verið er að styrkja, í sjóðina en ekki í reksturinn á sjóðunum og/eða stuðning við nýsköpunarumhverfið. Þar að auki er talað um, undir sveitarfélög og byggðamál, að það þurfi að efla atvinnuráðgjöfina úti um land sem datt upp fyrir þegar Nýsköpunarmiðstöðin hætti. (Forseti hringir.) Þetta atriði, eins og hitt, er fjallað um í álitinu en aftur engar tillögur um hvernig ætti að gera það betur. Mig langaði að heyra frá hv. þingmanni hvernig er hægt að gera betur á sviði nýsköpunar.