Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:28]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Ég ætla ekki að koma hér í ræðustól og segjast ekki hafa þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur og lýsir hér. Ég fór, held ég, nokkuð skýrt yfir það í minni ræðu í gær hvaða viðvörunarljós eru að blikka þó að ég nefndi það ekki með þeim hætti en var að reyna að ramma inn þessa óvissu, þessa skrýtnu tíma, þessar sérstöku aðstæður og samtal sem ég átti í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í haust um hvaða handbók er núna í gildi til að bregðast við heimsfaraldri og ofan í það stríð.

Ég tók líka eftir orðum seðlabankastjóra og ég skal alveg segja að ég hafi tekið þau til mín, rétt eins og hv. þingmaður rekur hér. Hins vegar vil ég þá minna á það, og við erum líka að feta þá slóð í nefndaráliti okkar, að það er miklu meiri kraftur í efnahagslífinu en við gerðum ráð fyrir, meira að segja hérna á milli umræðna, verulegur. Við erum að fara inn í næstu ár með miklu sterkari landsframleiðslu en við ætluðum að þegar frumvarpið var lagt fram.

Ég vil líka segja að það sem mér finnst skipta meginmáli, án þess að ég sé að smeygja mér undan gagnrýni á þessum útgjaldaauka, er að við höldum okkur við fjármálastefnuna og meginmarkmið fjármálaáætlunar sem fór fram í samtali milli hv. þingmanna hér áðan. Það finnst mér vera stóra málið í þessu. Um útgjaldaauka á milli umræðna, ég held að hann sé já, sögulegur að því leyti — ég hef ekki uppfært hann frá 2008 og síðan aftur 2018. Ég leyfi mér að minna á að haustið 2016 var fjárlaganefnd starfandi sem setti fjárlög án ríkisstjórnar og það eru líklega bestu fjárlög sem hafa staðist frá þeim tíma.

En spurningin sem ég ætla að skilja eftir handa hv. þingmanni eftir að hafa gefið þetta andsvar er hvað við ættum að skoða (Forseti hringir.) til þess að hemja þennan útgjaldavöxt því að ég held að það skipti máli að við ræðum það líka.