Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég skal bara lýsa því yfir að ég er sammála því að ég held að við þurfum einmitt að vita hvað er í boði vegna þess að annars erum við bara í myrkrinu að halda að eitthvað verði á einn eða annan máta.

Mig langaði að snerta á öðrum hlut sem hv. þingmaður talaði um og það er framtíðin. Við lifum á tímum þar sem framtíðin er að breytast mjög hratt, mjög ört. Á sama tíma erum við stjórnmálamenn voða dugleg við að gagnrýna, benda á örfáa hluti en ekki að horfa á heildina, eins og hv. þingmaður nefndi nokkrum sinnum í ræðu sinni. Mér finnst það vera voðalega mikið þannig hér á þingi, verandi frekar nýr en nú hefur hv. þingmaður verið hér einna lengst, að það er ekkert hlustað þegar við erum að reyna að koma með tillögur um hvað megi bæta eða hvert megi fara. Við gætum alveg eins verið að tala við styttuna af Jóni Sigurðssyni hérna úti á Austurvelli. Hann hlustar kannski jafnvel meira. Mig langar því að spyrja hv. þingmann. Nú var það þannig hér fyrir mörgum áratugum síðan, löngu áður en hv. þingmaður settist á þing, að þá var hlustað, menn gátu fundið þennan gullna meðalveg. Menn gátu gert hluti eins og nýsköpunarstjórnina 1945 þar sem hægri og vinstri hliðin kom sér saman um það hvernig við ætluðum að verða framtíðarland. Menn talast ekki einu sinni við í dag. Hvað getum við gert til að bæta þetta, hv. þingmaður?