Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér heyrist að við eigum okkur draum um mannúð. Kannski náum við til hjartans í fólkinu. Mér fannst mjög athyglisvert að tala við sérfræðinga sem voru að endurskipuleggja ákveðinn hluta af velsældarkerfi okkar til þess að bæta þjónustuna, bæta stuðning við aðila sem eiga erfitt í þjóðfélaginu. Þegar talið barst að því hvað þetta myndi kosta sögðu þeir: Við höfum eiginlega engar áhyggjur af því. Við höldum að við getum gert þetta betur fyrir sama pening. Mér fannst þetta dálítið athyglisvert, að horfa á hlutina svona, vegna þess að í hvert sinn sem hv. þingmaður kemur með einhverja tillögu er henni sópað út af borðinu, af því að við erum þegar að setja svona mikið í kerfið. Við erum þegar að borga svona mikið til öryrkja. Við erum þegar að gera þetta mikið með þessu o.s.frv. En ef við horfum t.d. á örorkukerfið þá viljum við ekki að fólk sé öryrkjar. Eins og hv. þingmaður nefndi er fólk sem losnar ekki út úr því vegna þess að það er kannski með fötlun eða eitthvað eða hreinlega lendir í slysi og getur ekki unnið. En margir vilja komast til að vinna. Margir vilja losna út úr þeim vítahring sem þeir eru í vegna kannski geðheilsu. En af því að við erum ekki hjálpa fólkinu að losna út úr þessu erum við alltaf að eyða meira og meira í að halda fólkinu þar sem það er í stað þess að vinna í því að horfa á bæturnar. Þarna heyrði maður allt í einu einhvern tala um að taka hlutina þannig. Það var ekkert kvart og kvein (Forseti hringir.) um að eitthvað myndi kosta eitthvað meira. Við megum aldrei skoða kerfið almennilega vegna þess að það er svo mikið af plástrum á því að það hrynur bara (Forseti hringir.) ef við tökum í einn þeirra.