Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða og góða ræðu. Ég sagði áðan við samflokksmann hv. þingmanns að það væri mannúð í þeim stjórnmálum sem væri verið að tala um og það var svo sannarlega mannúð í þessari ræðu. Mig langaði að nota fyrra andsvarið til að spyrja hv. þingmann. Nú hefur hv. þingmaður komið hér upp í ræðustól mjög oft undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir og spurt hæstv. forsætisráðherra oft sömu spurningarinnar eða verið með mismunandi útgáfur af sömu spurningunni um hversu lengi hæstv. forsætisráðherra ætli að láta öryrkja og fatlað fólk bíða eftir réttlætinu. En nú er það bara þannig að hæstv. forsætisráðherra virðist alltaf gefa hv. þingmanni sama svarið, sem er það að hún gerir hv. þingmaður það upp, þá staðhæfingu, að hv. þingmaður hafi sagt að hæstv. forsætisráðherra hafi bara ekkert gert. Svo þylur hæstv. forsætisráðherra upp alla pinkulitlu hlutina sem höfðu kannski engin áhrif á öryrkjana og fatlaða fólkið, þylur þá alla upp og er rosalega stolt af þeim. Ég spyr því hv. þingmann: Er þetta ekki dálítið þreytandi?