Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:40]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, meðaltölin. Það hefur stundum verið sagt að manneskja með aðra löppina í köldu vatni og hina löppina í sjóðandi heitu vatni líði að meðaltali bara ágætlega. En ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni: Við sem erum að berjast fyrir mannúð þreytumst ekki, við höldum baráttunni áfram þangað til hún skilar árangri. Það getur tekið tíma en af því að við erum að berjast með hjartanu þá höldum við áfram þangað til við náum einhverjum árangri.

Hv. þingmaður fjallaði dálítið mikið um þessi kerfi sem við höfum, eins og bara örorkukerfið og hvað er mikið flækjustig í því kerfi og jafnvel þó að við gerum eitthvað þá er það er tekið til baka með einhverju móti, hvort sem það er með því að skattleggja það og þá dettur eitthvað annað niður eða að það er tekjutengt hérna og tekjutengt þarna. Í rauninni skilur enginn þetta kerfi nema kannski einhver tölva í Tryggingastofnun. Ég veit ekki hvort hún skilur það einu sinni. Er ekki kominn tími til að við hendum þessu kerfi sem við erum með út um gluggann og búum til eitthvað miklu einfaldara kerfi? Við Píratar höfum stundum talað um módel eins og borgaralaun þar sem er bara föst upphæð og ekkert verið að skerða hana neitt með neinu. Þurfum við ekki að fara einhverja svoleiðis leið til þess að það sé ekki — ja, til að þú þurfir ekki doktorsgráðu í, ég veit ekki í hverju einu sinni, sennilega fimm doktorsgráður og heita, hvað hann nú hét, Bjarnfreður til að geta áttað þig á því hvernig hlutirnir virka? Þurfum við ekki að byrja upp á nýtt, hv. þingmaður.