Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er svo sannarlega þannig að við þurfum að takast á við þann sjúkdóm sem fíkn er, hvort sem það er fíkn í vímuefni, sterk eiturlyf ,eins og þau voru kölluð þegar ég var ungur, eða áfengi. Það hafa margir einstaklingar farið mjög illa út úr þeim sjúkdómi, margar fjölskyldur, og það er svo sannarlega eitthvað sem við þurfum að vinna í að bæta. Hv. þingmaður sem var hér á undan í andsvörum benti á stríðið gegn fíkniefnum en við megum ekki gleyma því að það var svipað stríð gegn áfengi hér fyrir um 100 árum síðan þegar bannárin voru. Þetta er alltaf gert að glæp. Nú kom hv. þingmaður hér upp og talaði um að það vantar fjármagn í samtök eins og SÁÁ til þess að hjálpa fólki að eiga við þennan sjúkdóm. Telur hv. þingmaður að ein af ástæðunum fyrir því að við séum kannski að setja minni peninga í að sinna þessum sjúkdómi sé vegna þess að ríkið er enn þá ekki að skilgreina fíkn sem sjúkdóm heldur sem glæp? Er það að koma niður á þjónustu sem er veitt til fíkla að við erum enn þá í stríði gegn fíkniefnum?