Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, vitleysan er nefnilega ekki sú að taka á móti umsögnum, vitleysan er sú að hlusta ekki á umsagnir. Vitleysan er að senda út beiðnir um umsagnir um eitthvað sem síðan á að breyta stórkostlega. Það er það sem er kallað málamyndaaðgerðir og það þurfum við svo sannarlega að stoppa. Það er reyndar mjög athyglisvert að skoða hvað lendir síðan inn í breytingartillögum í nefndinni vegna þess að þar eru þær hugmyndir sem komu frá ráðuneytunum og þeim sem hringdu bara beint í sína nefndarmenn og fengu sína uppáhaldsstofnun inn. En nóg um það. Hv. þingmaður nefndi líka Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli. Nú á að hækka gjöld þar. Það eru ekkert margir sem átta sig á því að Ísland er eitt af örfáum löndum sem er með komufríhöfn. Flest lönd eru með brottfararfríhöfn. Ég gerði smá könnun núna þegar ég var að ferðast fyrir nokkrum vikum síðan og komst að því að eftir þessa hækkun sem búið er að setja inn í fjárlögin mun verða dýrara að kaupa áfengi við komuna til Íslands en í fríhöfnunum í sumum af þeim tengilöndum eða þeim löndum sem við fljúgum mest til. Þegar verið er að búa til svona lagað, fá þessa hugmynd að hækka þetta, þá virðast menn ekki átta sig á því hvernig markaðurinn er. Það sem mun gerast er að sala á þessu áfengi og öðru í Fríhöfninni í Keflavík mun hætta, hún mun flytjast til nágrannalandanna sem flogið er til. Mig langar að spyrja: Þegar verið er að gera svona hluti, hafa menn engan skilning á því að við erum aðeins meira en þessi litla eyja hérna? Við erum hluti af stærra umhverfi eins og í þessu.