Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[01:49]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við erum hér við 2. umr. um fjárlög næsta árs. Klukkan er að verða tvö um nótt og við erum að ræða fjárlög meiri hlutans, meiri hluta sem þorir ekki einu sinni að sitja hér inni og eiga við okkur orðastað. — Frú forseti. Það virðist vera mjög stuttur ræðutími. Þetta er mín fyrsta ræða sem ætti að vera 40 mínútur. Ég fæ tvöfaldan tíma.

(Forseti (ÁLÞ): Það er komið.)

Þakka þér fyrir. Já, við erum að flytja ræður okkar um miðja nótt. Það var rætt hér áðan um að kannski væri betra að gera það í dagsbirtu. Þess skal getið að sólarupprás 8. desember er kl. 11.03 í Reykjavík ef einhver var að spá í það.

Við ræðum fjárlög sem forgangsraða í þágu þeirra fáu en ekki í þágu þeirra sem minna mega sín, fjárlög sem ekki eru með alvöruaðgerðir í loftslagsmálum, fjárlög sem ekki eru með alvörustuðning við þá verst stöddu, fjárlög sem rukka ekki þá sem menga, fjárlög sem rukka ekki alvörugjöld fyrir auðlindir, tryggja ekki jöfnuð, mannúð eða réttlæti. Við sem erum í minni hluta fáum litlu að ráða þegar kemur að því hvernig fjárlögin fyrir næsta ár enda. Í einstaka liðum hefur okkur kannski tekist, stundum undir rós eða með því að dropinn holar steininn ár eftir ár, að hafa þau áhrif að það eru gerðar örlitlar breytingar á einstaka hlutum. Gott dæmi um slíkt nýverið er hækkun frítekjumarks öryrkja. Eftir að hafa eytt dágóðum tíma í það á síðasta ári að hvetja til þess að öryrkjar fengju svipaða hækkun frítekjumarks og aldraðir þá virðist eins og allt í einu hafi ríkisstjórninni fundist það upplögð hugmynd að mæla með þessari hækkun í tengslum við fjárlög næsta árs. Þau áttuðu sig á því að í umræðunni í fyrra voru þau með rök sem einfaldlega héldu ekki vatni varðandi það hvers vegna ætti ekki að hækka frítekjumark öryrkja eins og gert var hjá öldruðum. En í stað þess að samþykkja tillögur stjórnarandstöðunnar í fyrra þá ákváðu þau að koma með sömu tillögu nú í haust og þar með reyna að telja öryrkjum trú um að ríkisstjórnin væri ríkisstjórn jöfnuðar í samfélaginu, ríkisstjórn sem virkilega hugsaði um þá sem minnst mega sín. Eflaust halda þau að öryrkjar muni flykkjast í kringum ríkisstjórnarflokkana og kjósa þá í næstu kosningum af því þau hækkuðu frítekjumarkið. En þau gleyma því að öryrkjar eru með aðeins betra minni og muna hverjir hafa lagt til þessar hækkanir áður en ríkisstjórnin gafst upp á því að verja það af hverju frítekjumarkið ætti að vera svona lágt. Já, virðulegi forseti, það er stundum dálítið skondið að skoða tillögur meiri hlutans þegar kemur að fjárlögum næsta árs.

Mig langar að nota ræðu mína eða ræður hér í kvöld til að fara yfir nokkur af þeim atriðum sem stinga í stúf við lestur frumvarpsins og við lestur nefndarálita, sér í lagi nefndarálit meiri hlutans og þeirra breytingartillagna sem fram hafa komið. En, frú forseti, áður en ég fer í einstök atriði í frumvarpinu langar mig að fjalla aðeins um það ferli sem fjárlögin ganga í gegnum hér á þinginu og þá staðreynd að allt er gert til þess að gera þetta ferli bæði flókið og eins ógagnsætt og mögulegt er. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að þegar þing kemur saman annan fimmtudag í september ár hvert er það fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að leggja fram fjárlög komandi árs. Meira að segja stendur í þingsköpum að þetta skuli gert. Venju samkvæmt var það gert nú í september og frumvarp upp á 368 síður og fylgirit upp á 121 síðu var prentað og afhent þingmönnum áður en 1. umr. um fjárlagafrumvarpið hófst. En, frú forseti, það var hins vegar ljóst strax við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið að hér var um að ræða útgáfu af frumvarpinu sem var ekki neitt að marka. Þegar við notuðum 1. umr. og sérstöku umræðurnar með fagráðherrum, sem eru hluti af því hvernig 1. umr. er skipulögð, þá var það þannig að í hvert skipti sem hv. þingmenn úr stjórnarandstöðunni reyndu að spyrja um eitthvað eða setja út á eitthvað þá var svarið ávallt: Já, nei, það kemur inn fyrir næstu umræðu. Það má því segja að sú tilhögun að hafa 1. umr. þar sem bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. fagráðherrar hvers málefnasviðs mæta í umræður við hv. þingmenn, var í raun algjör tímaeyðsla.

Ef það er ætlun fjármálaráðuneytisins að skila aftur inn jafn ófullgerðu frumvarpi og gert var í september síðastliðinn þá held ég að það sé bara best að sleppa öllum umræðum og senda það jafnvel bara beint í nefnd vegna þess að við höfum nóg annað að gera hér á þingi en að hlusta á svör eins og: Nei, það á eftir að breytast. Já, það er ekki komið inn, það kemur sennilega úr varasjóði. Það voru ansi fá svör sem við fengum hér í 1. umr. og í rauninni gafst maður upp á því að lesa fjárlagafrumvarpið eins og það kom í september vegna þess að maður áttaði sig á því að það væri alger eyðsla á manns eigin tíma vegna þess að það væri ekkert að marka þetta.

Ferlið eftir 1. umr. er þannig að fjárlagafrumvarpið er sent til hv. fjárlaganefndar en þeir hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd fá hið flókna verkefni að fara í gegnum þessar tæpar 500 síður af hráum frumvarpsdrögum og virkilega reyna að skilja hvað er þarna á ferð. Já, frú forseti, sannleikurinn er nefnilega sá að framsetningin á fjárlagafrumvarpinu er svo langt frá því að vera auðveld og skiljanleg að ég held að það væri hægt að meta fjögurra ára nefndarsetu í fjárlaganefnd á við það að fá doktorsgráðu í les- og talnaskilningi. Burtséð frá framsetningunni, við komum kannski aðeins meira að henni seinna, þá er það þannig að eftir að frumvarpið hefur farið í gegnum 1. umr. er því vísað til fjárlaganefndar og nefndin byrjar mjög stífa dagskrá um leið og frumvarpið er komið inn til hennar. Dagskráin felst í því að fá hina og þessa gesti inn til nefndarinnar.

Sumir þessara gesta eru fulltrúar ráðuneyta eða stofnana sem koma til að skýra betur út af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru settir fram í frumvarpinu. En sannleikurinn er sá að jafnvel þessi vinna er að hluta til tímaeyðsla, því sér í lagi aðrir en þeir sem koma beint frá fjármálaráðuneytinu eru að fara að tala um drög að frumvarpi en ekki endanlegt frumvarp. Þessir gestir, margir hverjir, senda inn langar og greinargóðar umsagnir um frumvarpið eins og það var lagt fram í 1. umr., frumvarp sem var alls ekki tilbúið. Einhver notaði þá myndlíkingu í fréttum um daginn að fara með vitlaust barn heim af leikskólanum. Fyrsta útgáfa fjárlagafrumvarpsins er einmitt vitlaust barn og þeir sem eru að veita umsagnir eru að gera athugasemdir við vitlausa barnið en ekki barnið sem átti að koma heim.

Þetta var allt að gerast frá því um miðjan september. En sannleikurinn er sá að það var ekki fyrr en undir lok nóvember að fjármálaráðuneytið ákvað að sýna þinginu meira af því sem það er að leggja til. Fyrir ekki svo mörgum dögum síðan, mig minnir að það hafi verið í síðustu viku, þá fékk fjárlaganefnd stóran lista með breytingum frá fjármálaráðuneytinu. Verkefni fjárlaganefndar er að taka þennan langa lista saman áður en 2. umr. getur farið fram og reyna að púsla honum saman yfir í það sem við erum að ræða hér í skjóli nætur. Þegar þessi gögn voru loksins tilbúin hélt fjármálaráðuneytið kynningu fyrir fjölmiðla þar sem kom fram í hverju helstu breytingarnar fólust en nákvæma útfærslan á því í hverju þetta fólst var einungis send á nefndarmenn í fjárlaganefnd. Þegar loksins var búið að vinna alla þessa vinnu þá voru komin mánaðamótin nóvember/desember. Þá er auðvitað lítill tími eftir til þess að fá uppfærðar umsagnir um þetta endurskrifaða fjárlagafrumvarp.

Margt í rekstri ríkisins er í frekar föstum skorðum og breytist lítið á milli ára. Á þessu ári var dágóður hluti, 53 milljarðar ef ég man rétt og eitthvað meira í tekjum og annað, stór hluti af tekjum og gjöldum ríkissjóðs, sem breyttist á milli 1. og 2. umr. Þetta kann að hljóma eins og ekki há tala, 5–6% kannski af heildarupphæðinni, en þetta er ótrúlega mikil breyting vegna þess að stór hluti af því sem er í fjárlagafrumvarpinu er bundinn í fasta liði sem breytast lítið ár frá ári, í mesta lagi eru uppfærðir einhverjir verðlagsliðir. Mjög margar af þessum breytingum hefði að öllum líkindum verið mikilvægt að fá almennilega umsögn um. En sökum þess hversu seint þetta kemur inn frá fjármálaráðuneytinu er lítill tími fyrir fjárlaganefnd til þess að fá einhverjar frekari umsagnir.

Frú forseti. Þegar þessar tillögur eru komnar inn frá ráðuneytinu þá fyrst getur fjárlaganefnd loksins farið að vinna í því að koma með nefndarálit með viðeigandi breytingartillögum. Það sýnir kannski best hversu miklar breytingarnar eru á milli umræðna í þingsal að tugir blaðsíðna fara í að lista upp og skýra út þær breytingar sem gerðar eru. Það er þó ekki þannig að allar breytingarnar komi frá fjármálaráðuneytinu því að eitt af því sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir er að setja sitt eigið mark á frumvarpið og bæta inn nokkrum vel völdum framlögum til verkefna sem þau vilja að séu styrkt. Það er alls ekki svo að þessi framlög séu endilega af hinu slæma því mörg mjög mikilvæg verkefni eru einmitt styrkt af ríkinu í gegnum þessa vinnu meiri hluta fjárlaganefndar. Það mætti hins vegar spyrja hvort meiri hluti nefndarinnar eigi að sitja einn að því að geta gert slíkar breytingar. Maður getur spurt sig, frú forseti, hvort ekki væri meira jafnræði í því að minni hluti fjárlaganefndar hefði líka möguleika á því að velja nokkur vel valin verkefni, eins og við gerðum t.d. fyrir fjárlög yfirstandandi árs en þá börðumst við fyrir því að um 150 milljónir færu í niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Ég tel alla vega að það væri góður bragur á því að veita möguleika á því að styðja verkefni sem njóta náðar minni hlutans, auðvitað svo lengi sem þau eru ekki þvert á stefnu stjórnarinnar á því sviði.

Þegar hv. fjárlaganefnd hefur lokið þessu starfi, búið til nefndarálit upp á tugi síðna, búið til breytingartillögur upp á annan tug, þá er loksins komið að því að ræða fjárlögin í 2. umr. Það er svo sannarlega þannig að nú hefur, í meðförum þingsins eða kannski í meðförum fjármálaráðuneytisins, frumvarpið þroskast og við sem sitjum í stjórnarandstöðunni höfum loksins fengið aðeins dýpri innsýn í það hvernig ríkisstjórnin ætlar að haga fjárlögum næsta árs. Það er því mikilvægt, eins og við vorum að ræða hér áðan, að við sem ekki sitjum í fjárlaganefnd höfum tækifæri til að ræða frumvarpið, vera með fyrirspurnir og aðrar umræður um málið, nokkuð sem var ekki hægt að gera almennilega fyrr í haust því að þá var svarið ávallt: Það mun skýrast seinna. Eða: Það kemur úr varasjóði.

Það er vonandi, frú forseti, að þegar þessari 2. umr. umræðu lýkur að við sjáum ekki stjórnarmeirihlutann og fjármálaráðuneytið fara í annan eins uppskurð á fjárlögum milli 2. og 3. umr. Það er þó ekki útilokað þar sem nokkur af þeim atriðum sem gefin hafa verið óljós loforð um á vettvangi fjölmiðla virðast ekki enn vera komin inn í frumvarpið.

Frú forseti. Áður en ég fer í það að skoða einstök málefnasvið langar mig að klára þennan hluta ræðu minnar með því að minnast aðeins meira á framsetningu á fjárlagafrumvarpinu. Ég nýtti einmitt tækifærið í fyrra í umræðum um fjárlagafrumvarpið og mig langar að árétta þau skilaboð mín sem ég var með þá þar sem ekki virðist neitt hafa verið hlustað á þessar tillögur nýs þingmanns frá því í fyrra. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að þegar kemur að fjárlagafrumvarpinu þá virðumst við enn vera föst í því að hafa einungis eina birtingarmynd á þeim tillögum sem koma fram. Hún er sú að prenta ansi miklar langlokur á pappír og eina stafræna umbyltingin sem hefur gerst á þessu sviði er sú að við fengum PDF-sniðmát af frumvarpinu skömmu áður en við fengum hina prentuðu útgáfu. Það er sannarlega mikil bylting frá prentuðu útgáfunni að geta flett upp hvar og hversu oft ákveðin hugtök koma fyrir í stað þess að þurfa að skima þessar 500 blaðsíður eða svo. Á undanförnum árum hefur Stjórnarráðið allt verið að vinna að stafrænni umbyltingu innan ráðuneytanna og hefur m.a. verið ráðinn stafrænn leiðtogi innan fjármálaráðuneytisins til þess að vinna í þessu. Það er veik von mín að sú ráðning og þessi vinna við stafræna umbyltingu muni leiða til þess að við hv. þingmenn getum á mun gagnvirkari hátt flett fram og til baka í hinum ýmsu liðum frumvarpsins og þannig áttað okkur betur á því hvað er að breytast og hvernig. Það er ekki nóg að hafa þá yfirborðskenndu og einföldu Microsoft Power BI-lausn sem er á vef fjármálaráðuneytisins heldur þarf að vera hægt að kafa mun dýpra í gögnin og tengja gögnin við þann skýringartexta sem fylgir hverjum lið. Einnig er mikilvægt að við sjáum í raun hvaða kostnaðarliðir eru undir hverju málefnasviði. Það er nefnilega þannig í núverandi fjárlagafrumvörpum að við sjáum bara heildarframlag til málaflokksins og svo þær breytingar sem verða á milli ára. Þetta þýðir að það er í raun mjög lítið gagnsæi varðandi það í hvað allt þetta fjármagn er að fara. Hafandi starfað í hinum stafræna heimi í aldarfjórðung er vægast sagt sorglegt að sjá hvernig úrelt framsetning á pappír er nýtt til þess að gera okkur í stjórnarandstöðunni og almenningi öllum erfiðara með að fylgjast með því að hagsmunum íbúa þessa lands sé sem best borgið með því að þær skatttekjur og aðrar tekjur sem ríkið hefur séu notaðar á sem bestan máta.

Virðulegur forseti. Það er kannski komið að því að ræða innihald frumvarpsins þótt ég geti eflaust talað í nokkra klukkutíma í viðbót um formið og vinnubrögðin við að keyra raunveruleg fjárlög í gegn á svo stuttum tíma að við hv. alþingismenn getum ekki sinnt almennilega því lögboðna hlutverki okkar að hafa eftirlit með áætlunum og gerðum framkvæmdarvaldsins. Fjárlögin á hverju ári eru sett upp þannig að það er farið sérstaklega í tekjuhliðina og hvernig við ætlum að ná í tekjur og hvernig við ætlum að haga sköttum o.fl. Mikið af því lendir í hinum svokallaða bandormi sem er langt og flókið lagafrumvarp þar sem verið er að breyta hinum og þessum tekjum ríkisins, hækka og lækka skatta, hækka og lækka gjöld. Ég fer kannski dýpra í þann hluta seinna, annaðhvort í seinni ræðu hér í nótt eða þegar hinn frægi bandormur verður til umræðu. Þær tekjur og þau gjöld sem lögð eru á, þeir skattar sem teknir eru af fólki — þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á það hvernig við getum nýtt þær tekjur, bæði til þess að halda uppi ákveðnu velferðarkerfi en líka hvort við náum að borga niður skuldir, hvort við náum að búa til varasjóði o.s.frv. Margir hv. þingmenn hafa fyrr í dag farið djúpt ofan í tekjuhlutann og ætla ég því að láta hann bíða um sinn a.m.k. og ræða þess í stað málefnasviðin. Til hægðarauka þá ætla ég að ræða málefnasviðin í númeraröð þannig að auðveldara sé fyrir alla þá sem eru að hlusta, sem eru kannski fáir nú klukkan að verða hálfþrjú um nóttu, og þeir geti fylgst með. Það eru 34 málefnasvið sem fjárlögunum er skipt upp í og þá er kannski best að byrja á málefnasviði 1, en það er einmitt hið háa Alþingi. Þar eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar á kostnaði við nýbygginguna sem verið er að byggja ansi hratt hér við hlið Alþingishússins og verið er að bæta við fjármagni til að hægt sé að ganga almennilega frá vinnurýmum þingmanna og starfsfólks og eins var tekin ákvörðun um að innrétta hluta af efstu hæðinni sem nokkur fundarherbergi og það mun svo sannarlega vera til hins góða. Það mun bæta möguleika á því að halda bæði smærri og stærri fundi í þeim byggingum sem tilheyra Alþingi. En fyrir þá sem ekki vita þá er það þannig í dag að Alþingi leigir húsnæði hér allt í kringum Austurvöll og jafnvel víðar, ég veit það ekki, skrifstofur fyrir starfsfólk, skrifstofur fyrir þingmenn, skrifstofur fyrir starfsmenn þingflokka og aðra. Vonir standa til þess að næsta haust eða, ef við erum aðeins svartsýn, næsta vetur nái Alþingi að flytja alla þessa starfsemi úr leiguhúsnæði hér í kring inn í þessa nýju byggingu. Þetta er viðbótin á þessu málefnasviði og ég tel hana bara af hinu góða. Hún er tiltölulega lág miðað við heildarkostnaðinn á því að byggja svona stórt hús. En það er líka verið að skera niður og þar er m.a. verið að gera tímabundna lækkun ferðakostnaðar, sem gerð var á þessu ári, varanlega til næsta árs. Lækkun á ferðakostnaði á síðasta ári var frekar skiljanleg þar sem við vorum enn að komast úr viðjum heimsfaraldurs. Það er hins vegar í mínum huga sorglegt að sjá þennan niðurskurð því alþjóðastarf þingsins er mikilvægt. Í gegnum alþjóðastarf þingsins erum við að tryggja að hagsmunir Íslands séu tryggðir innan hinna ýmsu stofnana og samtaka sem við eigum aðild að. En við erum líka í gegnum þetta alþjóðastarf þingsins að byggja upp gott tengslanet sem þingmenn geta nýtt sér. Þegar við þurfum að koma málefnum Íslands á framfæri er það svo miklu auðveldara ef þú hefur hitt viðkomandi eða einhvern frá því landi eða frá því þingi áður. Þá verða umræðurnar á allt öðrum skala heldur en ef þetta er einhver sem þú ert bara að reyna að hafa samband við í gegnum aðra. Við getum líka lært af því hvernig önnur þing gera hlutina. Þótt þetta sé ekki mikil upphæð þá tel ég að við ættum frekar að hafa meira alþjóðastarf vegna þess að við myndum læra meira af því hvernig önnur ríki eru að gera hlutina í sínu þingi. Gott dæmi um þetta er t.d. að framtíðarnefnd Alþingis fór í heimsókn til framtíðarnefndar Finnlands en Finnar hafa verið með framtíðarnefnd í mörg ár, nefnd sem hugsar um það hvernig hinar miklu breytingar sem eru að gerast í því þjóðfélagi og því samfélagi sem við lifum í, þeim heimi sem við lifum í, og hvað löggjafinn þarf að gera til þess að fylgjast með því sem er að gerast þar og vera jafnvel, eins og frændur okkar Finnar, leiðandi í breytingum á þessu sviði. Ég tók ekki eftir neinu öðru í minni yfirferð á málefnasviði 1, um hið háa Alþingi.

Þá er kannski best að við förum í næsta málefnasvið, nr. 2, en það eru dómstólar. Lesandi í gegnum það málefnasvið þá eru kannski ekki margar áhugaverðar breytingar frá fyrra ári en mér þótti þó ánægjulegt að sjá og mig langar að nefna það að ef ég las þetta rétt — því miður eru engir stjórnarþingmenn hér inni til að leiðrétta mig ef ég fer rangt með — þá sýnist mér að verið sé að koma með aukin framlög upp á um 40 millj. kr. til að innleiða svokallaða stafræna réttarvörslugátt. En réttarvörslugátt er samheiti yfir verkefni sem miða að því að gera réttarvörslukerfið, það sem þú ferð í gegnum þegar þú ert annaðhvort ákærður fyrir eitthvað eða kærir eitthvað, stafrænt. Þeir sem hafa hlustað á mig hér í ræðustól Alþingis vita að ég er mikill talsmaður þess að við bætum það umhverfi sem þolendur hinna ýmsu brota, sérstaklega kynferðisbrota, þurfa að ganga í gegnum. Það er því ánægjulegt að sjá að meginmarkmið þessa réttarvörslugáttarverkefnis er að veita nútímalega og notendamiðaða þjónustu sem mætir þörfum þolenda, sakborninga og annarra málsaðila þegar kemur að samskiptum þeirra við dómskerfið. Þetta er svo sannarlega hlutur sem ég hef heyrt mikla gagnrýni á, þetta hafi vantað og það hafi verið erfitt fyrir málsaðila, hvort sem þeir eru þolendur eða jafnvel gerendur, að vita hvernig málin standa, flókið að koma upplýsingum á framfæri og margt þess háttar. Því var það ánægjulegt að lesa í fjárlögunum að unnið er að innleiðingu þessarar réttarvörslugáttar, bæði innan Hæstaréttar og héraðsdómstóla.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er alveg á þrotum. Ég er rétt búinn með fyrstu tvö málefnasviðin af 34 og mun því biðja forseta um að bæta mér aftur á mælendaskrá svo ég geti haldið áfram þegar þetta er búið. En mig langar að nota síðustu 20 sekúndurnar sem ég hef til þess að segja að fyrir 40 mínútum síðan, þegar ég hóf mína ræðu, þá skoraði ég á hv. þingmenn stjórnarflokkanna að koma hér í andsvör við mig, leiðrétta eitthvað sem ég hefði sagt rangt eða spyrja mig út í eitthvað. En það er greinilegt að þeir höfðu ekki þor í slíkt.