Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[03:42]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Nú er komið að annarri ræðu minni í 2. umr. fjárlaga hér á Alþingi. Ég ætla bara að kafa í umhverfismálin aftur út af því að fyrsta ræða mín var frekar svona gróf og ég bara skrapaði yfirborðið á þeim helstu málefnum sem ég náði að afla mér upplýsinga um, komandi hingað inn í 2. umr. Betur má ef duga skal. Til að mynda þá ákvað meiri hluti fjárlaganefndar að henda í niðurgreiðslu á rafbílum en ekki efna til átaks til að stórefla almenningssamgöngur hér á landi. Ég þarf ekki að tíunda vesenið sem hefur verið í gangi með almenningssamgöngur undanfarið þó svo að ríkisstjórnin beri ekki beint ábyrgð á stjórnarháttum Strætó heldur einungis fjármagninu sem fer í þann málaflokk. Ég hefði a.m.k. verið frekar til í að sjá metnaðarfulla aðgerð. Með tilkomu þessarar loftslagsvár þá þurfum við að ráðast í óþægilegar og metnaðarfullar aðgerðir ef við viljum hægja á loftslagsáhrifum sem eru að verða minni kynslóð og kynslóðum sem á eftir henni koma mjög erfið.

Forseti. En hvað með lest? Er það virkilega svo fáránleg hugmynd? Það gæti alveg skilað sér vel í ríkissjóð og lagað orðspor Íslands þar sem Flybus-rútan væri ekki það fyrsta sem túristar myndu sjá þegar þeir stíga fæti hér á land.

Nú að tölulegum upplýsingum í sambandi við umhverfismálin. Frá þessu ári aukast útgjöldin á næsta ári en í samanburði við 2021 virðist annað blasa við. Þegar við skoðum verðlag hvers árs er vissulega einhver smávægileg aukning en að teknu tilliti til verðlagsþróunar sýnist mér framlögin um 1 milljarði kr. lægri í raun og ekki batnar það svo á næstu árum samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma sjáum við hamfarabreytingar ógna tilveru lífs hér á jörðu eins og ég kom inn á hér áðan. Við erum þegar farin að sjá það mjög skýrt, allt of skýrt, enda var methiti í nóvembermánuði eins og ég vék að í minni fyrri ræðu. Þeim breytingum þurfum við öll að mæta og aðlagast með tilheyrandi afleiðingum, mismikið auðvitað því að þessar aðgerðir leggjast ekki jafnt á okkur öll, alla vega ekki enn sem komið er þó að við finnum öll fyrir þeim með einum eða öðrum hætti, því miður. Í verstu aðstæðum neyðist fólk til að grípa til örþrifaráða. Í verstu tilfellum neyðist það til að flýja eigin heimkynni, flýja veðurhamfarir og hungursneyð. Í allra verstu tilvikum er þetta spurning um líf og dauða. Þess vegna snúast framlögin til umhverfis- og loftslagsmála, ekki bara um þær skyldur sem við berum gagnvart nærsamfélaginu, þau snúast ekki bara um okkur og okkar hag því aðgerðaleysi í þessum málum brýtur gegn þeim siðferðilegu skyldum sem við berum gagnvart öðrum og heiminum öllum, skyldum sem við berum sem manneskjur hér á jörðu. Það brýtur gegn skyldum sem við berum gagnvart öllu mannlífi og framtíðarkynslóðum og þeim skyldum sem við berum gagnvart umhverfinu sjálfu og öllu lífríki þess. Þegar kemur að stærstu ógn okkar tíma þá hreinlega verðum við að gera miklar kröfur, miklu meiri kröfur. Við þurfum að halda okkur á tánum, það er kjarni málsins, því afleiðingarnar versna annars í samræmi við aðgerðaleysið eins og ég kom að hér áðan í minni fyrstu ræðu.

Ef við grípum ekki til aðgerða núna, hvenær þá? Þegar við byrjum að gefa eftir, jafnvel bara smá, hefur það áhrif, mjög mikil áhrif, raunveruleg áhrif, eins og við erum því miður farin að sjá nú þegar. Þegar ekki er gert nóg, þegar aðgerðaleysið safnast upp jafnt og þétt stöndum við frammi fyrir mjög alvarlegum vanda. Það er varla hægt að ímynda sér alvarlegri afleiðingar en þær sem blasa þegar við. Þess vegna þurfum við skýra framtíðarsýn. Við verðum að horfa til næstu ára og áratuga með aðgerðum okkar. Þar mættu stjórnvöld auðvitað gera miklu betur því betur má ef duga skal. Við þurfum raunverulegar aðgerðir, tryggja að áhrifamiklar framkvæmdir fylgi fögrum fyrirheitum, ekki bara aðgerðir í orði, ekki bara yfirlýsingar og loforð, heldur líka aðgerðir sem eru í samræmi við háleit markmið okkar, aðgerðir sem taka tillit til þeirra alvarlegu stöðu sem þegar blasir við. Það ríkir nú þegar alvarlegt ástand. Það er staðreynd og kjarni málsins. Þess vegna þurfum við að beita öllum tiltækum ráðum, gera allt sem við getum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir enn meiri hækkun á meðalhitastigi jarðar, koma í veg fyrir enn verri afleiðingar. Ástandið kallar á að við gerum allt sem í okkar valdi stendur og við vitum hverjar afleiðingarnar verða ef við gefum eftir. En við vitum líka hve mikið þarf til og það þarf miklu meira til, bæði hér heima og í heiminum öllum. Það er bara lágmark að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sem við virðumst þó ekki alltaf ná að uppfylla, samanber fréttir um það að Eftirlitsstofnun EFTA var að rassskella okkur í dag fyrir það að við séum ekki nógu dugleg að innleiða EES-tilskipanir og reglugerðir sem mér þykir mjög miður. En punkturinn hér er sá að við hreinlega verðum að setja okkur metnaðarfyllri markmið. Við eigum að taka forystu, vera öðrum fyrirmynd, beita okkur eins og við getum. Við erum velmegunarsamfélag sem býr yfir miklum auðlindum og mannauði. Við höfum öll hlutverki að gegna þegar kemur að þessu máli sem varðar jú framtíðina sjálfa og tilveru okkar allra. Ekkert okkar getur allt en við getum öll gert eitthvað, sumir meira en aðrir. Stjórnvöld víðs vegar um heim bera því mikla ábyrgð ásamt stærstu fyrirtækjum og öðrum mengunarvöldum auðvitað, t.d. í sjávarútvegi. En það er fyrst og fremst hlutverk stjórnvalda í baráttunni að koma með aðgerðir sem skila sér og þegar margt er í húfi, þegar svo margt er undir, þá hreinlega verðum við að gera miklar kröfur til að mæta því, kröfur til okkar sjálfra og kröfur til annarra sem hafa líka hlutverki að gegna, kröfur sem eru í samræmi við aðstæður, þær sem blasa þegar við og miðað við þær sem fram undan liggja. Þar getum við svo sannarlega gert betur og á það eigum við alltaf að stefna.

Forseti. Þess vegna verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þetta fjárlagafrumvarp, alla vega helst þennan lið í fjárlagafrumvarpinu, því við þurfum svo miklu meira en það sem ríkisstjórnin boðar enda kom ég inn á það í ræðu minni áðan að fjárframlög til umhverfismála eru ekki nema 2% af fjárlögum, sem er sorglegt.

Við megum ekki gleyma því að við erum ekki að ræða neitt smámál hér, fjárlög fyrir árið 2023. Við erum nefnilega að ræða það hvernig móta eigi samfélagið og hvernig samfélagið eigi að vera að árinu liðnu. Við erum að ræða það hvernig lífsgæðum er útdeilt, hvernig réttur fólks er varinn og hvernig hagsmunir almennings eru tryggðir. Þetta er auðvitað kjarninn í stjórnmálum. Við erum því ekki að biðja um annað en að stjórnmálin geri það sem þeim er ætlað að gera; að ræða í þaula stór hagsmunamál eins og þessi sem snerta alla þjóðina með svona afgerandi hætti eins og fjárlögin vissulega gera. Þess vegna erum við hér. Þess vegna höfum við verið hér í alla nótt og munum vera hér fram á morgun ef þess þarf því þetta er rosalega stór málaflokkur.

Núna þegar það virðist falla algerlega í hlut okkar í minni hlutanum að ræða fjárlögin þá langar mig að draga fram nokkur veigamikil atriði um framlög til geðheilbrigðismála og stöðu málaflokksins heilt yfir. Þau finnst mér þurfa að ræða miklu nánar en hingað til hefur verið gert. Þar fyrir utan kennir reynslan okkur að stuðningur stjórnvalda er vanalega langmestur í orði en töluvert minni á borði eins og mér sýnist þetta fjárlagafrumvarp raunar staðfesta nokkuð vel, rétt eins og framganga ríkisins í fjármögnun sálfræðifrumvarpsins sýndi líka, svo annað nýlegt dæmi sé tekið, virðulegi forseti. Rýnum t.d. í umsögnina sem Geðhjálp sendi inn um fjárlagafrumvarpið enda voru ansi harðir dómar þar á ferð. Í umsögninni benda samtökin réttilega á það hversu illa fjármagnað geðheilbrigðiskerfið okkar er enda renni einungis 5% allra heilbrigðisútgjalda til málaflokksins, forseti. Einungis 5%. Það sem skiptir máli hér er að þetta er fáránleg tala, þetta sýnir gjörsamlega hvað þetta er í litlum forgangi hjá ríkisstjórninni og það er auðvitað ekki í neinu samræmi við mikilvægi þessa málaflokks og langt frá því að vera það sem þarf til miðað við stöðu geðheilbrigðismála í dag. Um leið benda samtökin á nauðsyn þess að gera stórátak í heilsueflingu og forvörnum enda fari langstærsti hluti framlaga til meðferðar og endurhæfingar, sem er auðvitað bráðnauðsynlegt líka, en stuðningurinn er nær allur viðbragðsdrifinn fremur en forvarnadrifinn. Á sama tíma fara biðlistarnir auðvitað ekki fram hjá neinum og allra síst þeim sem þurfa að bíða heilu mánuðina eftir að fá hjálpina sem þarf. Hver er t.d. biðtíminn hjá þunglyndis- og kvíðateymi Landspítalans, forseti? Heilt ár hið minnsta samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál sem var hér til umfjöllunar fyrr á árinu. Heilt ár. Og hver er biðtíminn hjá ADHD-teymi Landspítalans? Jú, 36 mánuðir, heil þrjú ár, sem er raunar svo langur tími að súluritið í skýrslunni nær ekki yfir lengra tímabil. Það segir allt sem segja þarf um stöðuna í málaflokknum. Engin furða að drengir geti ekki lesið sér til gagns, forseti, svona hlutir spila svo mikið inn í menntamálin og inn í menntakerfið og í stöðu ungs fólks yfir höfuð í menntakerfinu. Þetta er ekki bara einn málaflokkur, þetta er heilt svið. Kemur það á óvart að fólk hverfi frá námi eða starfi? Kemur nokkuð á óvart að örorka vegna geðraskana aukist þegar aðstoðin er ekki veitt? Jú, hún er svo sem veitt, en eftir 12–36 mánuði. Komdu aftur eftir eitt til þrjú ár, eru svörin sem fólk fær. Finnst okkur þessi staða boðleg? Hvað þá þegar við bætum við biðtíma hjá sálfræðingum og öðru fagfólki og kostnaðinum sem fylgir slíkri þjónustu. Þegar þriðjungur fólks telur sig ekki hafa efni á að sækja sér geðheilbrigðisþjónustu sjáum við enn skýrar hversu illa er staðið að þessum málum. Þá kemur kannski ekki á óvart að geðheilsu fólks, einkum ungs fólks, fari hrakandi eins og hefur gerst á síðustu árum. Stuðningur stjórnvalda er nefnilega ekki í neinu samræmi við alvarleika málsins og er svo sannarlega ekki nálægt því sem þarf til. Þetta staðfesta einmitt öll gögnin. Þetta benda samtökin öll á.

Þetta skýtur auðvitað skökku við því á síðustu árum hefur á sama tíma átt sér stað tímabær og þörf vitundarvakning í samfélaginu um geðheilbrigðismál. Frekari stuðningur yfirvalda og samfélagsins alls hlýtur þess vegna að vera rökrétt framhald í þessum málaflokki. En það höfum við ekki séð í fjárlögunum, hvorki nú né á árunum áður. Talnaleikfimi getur auðvitað ekki svarað þessari þörf og bókhaldsbrellur segja okkur nákvæmlega ekkert um hinn raunverulega stuðning. Punkturinn hér er sá að það þarf svo miklu meira til en einhverjar örsmáar tilfærslur eða háleitar yfirlýsingar sem jafnvel koma svo aldrei almennilega til framkvæmda, samanber frumvarpið sem var samþykkt um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu á síðasta kjörtímabili, svo ég nefni nýlegt dæmi og ég mun halda áfram að nefna nýleg dæmi í ræðum mínum hér í nótt og fram á morgun.

Það skiptir öllu máli að almenningur hafi aðgang að eins fullnægjandi þjónustu og unnt er að veita hverju sinni og í því skyni verður að nýta kosti allra úrræða. Sagt er að besti mælikvarðinn á ágæti samfélags sé hvernig það hlúir að hinum bágstöddu. Gott samfélag sér til þess að hjálparþurfa einstaklingar komi ekki að lokuðum dyrum og neyðist til að bera harm sinn í hljóði. Gott samfélag tryggir gott geðheilbrigði. Það væri gott fyrir alla þingmenn sem greiða atkvæði um fjárlögin að taka þessi orð til sín, eins fá og við erum nú hér inni í þingsal akkúrat núna. og sameinast um að veittur verði sá stuðningur sem þarf til þessa málaflokks.

Forseti. Talandi um geðheilbrigðismál þá langar mig aðeins að víkja að Kleppi og stöðu Klepps akkúrat núna. Ég er nokkurn veginn búin að gera ráð fyrir því að það sé einhvers konar eða möguleg mygla í húsnæðinu en það er alltaf móða á gluggunum þar. Rúmin eru mjög óþægileg og orðræðan þar inni hef ég heyrt er að heilbrigðisráðherra ætti að prófa að koma og sofa á þessum rúmum. Svo ég nefni dæmi þá er heil deild þar á fyrstu hæð sem er ekki í notkun, sérhæfða geðendurhæfingardeildin fyrir fólk með alvarlegar geðraskanir, ég nefndi það líka í fyrri ræðu minni, hún var færð niður á Hringbraut og sameinuð fíknigeðdeildinni þar. Ég ímynda mér að þessi sameining hafi átt sér stað út af því að það var ekki hægt að manna deildina, það sé ekki nógu mikið fjármagn til að manna þessa deild. Hjúkrunarfræðingar eru að segja upp hægri, vinstri. Ég skil þau svo vel. Þetta er erfiður bransi til að starfa í, sérstaklega þegar það rennur ekki nógu mikið fjármagn til málaflokksins sem er svo mikilvægur og nauðsynlegur.

Mér þykir svo miður að hæstv. ríkisstjórnin veiti þessum málaflokki ekki nógu mikinn forgang, nógu mikinn hljómgrunn. Ég heyri hæstv. ráðherra sjaldan tala um mikilvægi geðheilbrigðismála og mér þykir það sárt og miður því út frá því hvernig ég túlka stjórnarskrána þá fellur geðheilbrigði undir 76. gr. stjórnarskrárinnar, um að allir eigi rétt til aðstoðar vegna sjúkleika og geðraskanir eru auðvitað hluti af sjúkleika. Þetta er sjúkdómur sem fólk hefur einfaldlega ekki stjórn á. Ég tel að fólk með fíknivanda falli líka undir 76. gr., þau eigi rétt til aðstoðar vegna sjúkleika vegna þess að fíknivandamál eru náttúrlega bara sjúkdómur. Fólk sem glímir við fíkn á ekki heima í refsivörslukerfinu, það á heima í heilbrigðiskerfinu eins og ég er búin að víkja að hér í öllum ræðum mínum held ég í kvöld, nema í fundarstjórn forseta, og um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna. Ég held að það að fjárfesta í fólki sem glímir við geðheilbrigðisvanda, hvort sem það er með því að dæla meira fjármagni í málaflokkinn og ráðstafa þaðan náttúrlega eftir sviðum, muni skapa hvata fyrir fólk til að snúa aftur, eins og t.d. með endurhæfingarlífeyrinn, það muni skapa hvata fyrir fólk til að snúa aftur til síns venjulega lífs áður en það varð veikt. Ef það er ekki hægt þá er það náttúrlega líka bara gott og gilt af því að það eiga allir, eins og ég segi, rétt til aðstoðar vegna veikinda sinna. Ég tel að fjárfesting í þessum málaflokki sé fjárfesting í fólki. Þá erum við að sjá til þess að fólk sem er veikt fái viðeigandi aðstoð og það geti síðan komið aftur til baka í samfélagið og, forseti, ég geri enga kröfu um að fólk gefi af sér í samfélaginu. Ég ætla ekki að smætta fólk niður í tannhjól atvinnulífsins en ég held að hæstv. ríkisstjórn geri það. Horfum á þetta sem fjárfestingu og sjáum til þess að fólk geti komið aftur í samfélagið eftir endurhæfingu.