Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:08]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hv. þm. Jakob Frímann Magnússon benti á nokkra mjög góða hluti og mig langaði í fyrra andsvarinu að koma aðeins inn á tvennt af því sem hv. þingmaður fjallaði um. Í fyrsta lagi benti hv. þingmaður á það hversu mikið er talað um réttindi og jöfnuð og ýmislegt annað í stjórnarskránni en svo virðist eins og við séum ekki endilega að fá þessi jöfnu gæði og jafnvel alla leið yfir í það að ef þú kemur frá einhverju öðru landi þá eigi grundvallaratriði úr stjórnarskránni bara ekki við. Er það ekki hættuleg þróun, frú forseti, að þetta sé að gerast? Ég myndi gjarnan vilja heyra álit hv. þingmanns á því.

Hitt sem mig langaði að nefna er í tengslum við það sem hv. þingmaður fjallaði um, þ.e. að við höfum gengist undir ákveðnar loftslagsskuldbindingar en vegna aðgerðaleysis stjórnvalda höfum við ekki náð að uppfylla þau skilyrði. Gott dæmi er að í fjárlögum fyrir næsta ár erum við að borga 800 milljónir í gjöld vegna þess að við höfum ekki staðið við það sem samið var um í svokallaðri Kyoto-bókun. Hefðum við ekki betur gert eitthvað og notað þær 800 milljónir í að styðja þá sem minnst mega sín, hvort sem er með sálfræðiþjónustu, heilbrigðisþjónustu, að skera niður biðlista eða allt hitt sem við gætum gert fyrir 800 milljónir?